Spilakassar Stjórnvöld ætla að taka upp spilakort í spilakössum hérlendis en SÁÁ vill meina að brýnt sé að loka fyrir erlendar veðmálasíður.
Spilakassar Stjórnvöld ætla að taka upp spilakort í spilakössum hérlendis en SÁÁ vill meina að brýnt sé að loka fyrir erlendar veðmálasíður. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SÁÁ vilja að stjórnvöld loki fyrir erlendar veðmálasíður hér á landi. Um 20 milljörðum íslenskra króna er varið í erlend veðmál á hverju ári. Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, segir stjórnvöld ekki stíga nógu fast til jarðar í þessum málefnum.

SÁÁ vilja að stjórnvöld loki fyrir erlendar veðmálasíður hér á landi. Um 20 milljörðum íslenskra króna er varið í erlend veðmál á hverju ári. Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, segir stjórnvöld ekki stíga nógu fast til jarðar í þessum málefnum.

Dómsmálaráðuneytið áformar lagabreytingu til þess að bregðast við ábendingum í áhættumati ríkislögreglustjóra vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. Til stendur að gera kröfu um auðkenni spilara, mögulega með spilakorti. SÁÁ lýsa stuðningi sínum við að tekin verði upp spilakort en telja of skammt gengið til að draga úr skaðsemi spilavanda og spilafíknar.

„Velta íslenskra aðila er engin miðað við þá erlendu. Við horfum til Noregs, en þar eru svona spilakort. Það er búið að loka á þessa erlendu aðila og maður þarf að hafa mikið fyrir því að spila á þessum erlendu síðum,“ segir Anna við Morgunblaðið. Hún bætir við að mestur hluti veðmála Íslendinga fari fram á erlendum vefsíðum. „Það er þar sem unga fólkið okkar er að spila. Við erum að horfa upp á afleiðingarnar og í dag er svo ofboðslega lítill hluti sem spilar í spilakassa í spilasal.“

Áætlað er að Íslendingar eyði um 20 milljörðum króna í fjárhættuspil árlega á erlendum veðmálasíðum. Til samanburðar veltu Íslenskar getraunir rúmlega tveimur milljörðum króna í fyrra. Af erlendum veðmálum eru ekki greidd opinber gjöld hér á landi, enda hafa fyrirtækin að baki umræddum síðum ekki leyfi til starfsemi hér á landi. „Með því að loka [fyrir erlendar síður] höldum við líka tekjum inni í landinu, því ríkið verður líka af gífurlegum tekjum.“

Happdrætti Háskóla Íslands styður einnig upptöku spilakorta í umsögn sinni á Samráðsgáttinni. Þar er jafnframt bent á að brýnt sé að taka á „hinni víðtæku ólöglegu fjárhættuspilun á erlendum vefsíðum sem boðið er upp á óáreitt hér á landi“.
agnarmar@mbl.is