Seljaland Steingrímur Hermannsson stofnaði meðal annars fyrirtæki sem kanna átti notagildi perlusteins.
Seljaland Steingrímur Hermannsson stofnaði meðal annars fyrirtæki sem kanna átti notagildi perlusteins. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar Ólafur faðir minn kom heim frá Spáni vorið 1922 hóf hann bókhaldsstörf fyrir ýmis fyrirtæki. [...] Samhliða kennslu og bókhaldsstörfum var Ólafur oft túlkur fyrir heildsala og skipamiðlara þegar erlend skip höfðu viðdvöl í Reykjavíkurhöfn

Þegar Ólafur faðir minn kom heim frá Spáni vorið 1922 hóf hann bókhaldsstörf fyrir ýmis fyrirtæki. [...]

Samhliða kennslu og bókhaldsstörfum var Ólafur oft túlkur fyrir heildsala og skipamiðlara þegar erlend skip höfðu viðdvöl í Reykjavíkurhöfn. Einn þeirra manna, sem hann aðstoðaði, var fornvinur hans frá skólaárum, Theódór Jakobsson, er síðar varð skipamiðlari en var um þessar mundir framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu Kol og Salt. Theódór var einnig stundakennari við Verzlunarskólann og þar munu þeir hafa endurnýjað vinskap sinn. Frásögnin hér á eftir er komin frá Gunnari Andrew Jóhannessyni, bekkjarbróður föður míns í Menntaskólanum í Reykjavík, en hann hafði hana eftir Theódóri Björnssyni Líndal sem seinna varð prófessor í lögum við Háskóla Íslands. Þegar þessi saga gerðist var Theódór nýútskrifaður lögfræðingur og starfsmaður á lögmannsstofu Lárusar Fjeldsted. Hér kemur sagan:

Skömmu eftir að leyfður var innflutningur á Spánarvínunum svokölluðu kom inn til löndunar í Reykjavíkurhöfn spænskur saltflutningadallur með farm til fyrirtækisins Kol og Salt. Skipstjórinn var illa mæltur á enska tungu svo að Theódór fékk Ólaf, vin sinn, sér til halds og trausts ef upp kæmu einhver vafamál. Þeim var strax boðið til káetu kapteinsins og fór vel á með honum og félögunum íslensku enda bauð hann upp á snafs og snarl meðan gengið var frá pappírum; urðu þeir allir góðglaðir að því starfi loknu. Skipstjóri, sem var höfðingi í lund, leysti þá félaga út með kassa af góðu rauðvíni og sitt hvorri pottflöskunni af viskíi, en það var að sjálfsögðu á bannlista íslenskra yfirvalda. Þar sem þeim vinunum höfðu nú áskotnast dýrindis drykkjarföng, sem voru ekki á hvers manns borði, vildu þeir halda gleðskapnum áfram. Theódór bauð því skipstjóra og Ólafi til skrifstofu sinnar sem var nærri höfninni. Ekki voru þremenningar langt komnir áleiðis þegar þeir mættu tveimur íturvöxnum lögreglumönnum á eftirlitsgöngu. Því miður voru vínföngin of mikil fyrirferðar til að hægt væri að leyna þeim og þessir laganna verðir voru furðu fljótir að átta sig, höfðu snör handtök og færðu hina slompuðu kumpána inn á lögreglustöð við Pósthússtræti þar sem áfengið var gert upptækt. Að því loknu voru þremenningarnir færðir niður í „Kjallarann“ en það var sá staður hvar rónar bæjarins voru iðulega hýstir um nætur.

En nú var illt í efni og góð ráð dýr því að Theódór var kvæntur dóttur Páls Einarssonar, hæstaréttardómara og fyrrverandi bæjarstjóra Reykjavíkur. Theódór átti orðið eitt barn með konu sinni, er hér var komið sögu, svo að það var bagalegast fyrir hann að komast ekki heim um nóttina. Eins og í pottinn var búið gat það haft alvarlegar afleiðingar fyrir Theódór ef fréttir af þessari uppákomu bærust um bæinn. Ólafur hafði fullan skilning á hversu erfiðar aðstæður vinar hans voru og tók því á sig alla sök í málinu við yfirheyrslur morguninn eftir enda engum bundinn líkt og Theódór. Hann sagði Theódór ekki eiga neinn þátt í afbrotinu, hann hefði verið staddur á kæjanum þetta kvöld eingöngu starfa sinna vegna og væri strangheiðarlegur maður eins og allir vissu. Þetta var tekið gilt, Theódór var umsvifalaust leystur úr haldi og beðinn innvirðulega afsökunar á þessum leiðu mistökum.

Strax eftir hádegi þennan dag áttu réttarhöld í máli Ólafs og Spánverjans að fara fram því að ekki þótti forsvaranlegt að halda skipstjóra frá fleyi sínu lengur en nauðsyn krefði. En þá kom heldur betur babb í bátinn; enginn spænskumælandi maður fannst sem gat túlkað mál Spánverjans fyrir dóminum. Sem sagt, spænskan dómtúlk var hvergi að finna í bænum. Þetta var grafalvarlegt mál því að annar sakborninga gat ekki komið sjónarmiðum sínum á framfæri við réttinn nema í gegnum túlk.

Eftir miklar vangaveltur og djúpar lögfræðilegar pælingar starfsmanna réttarins var þess farið á leit við íslenska sakborninginn í málinu að hann tæki að sér hlutverk túlksins. Ólafur kvað það auðsótt mál fyrst honum væri treyst til þess. Er nú skemmst frá því að segja að skipstjórinn rausnarlegi var sýknaður af öllum sakargiftum en Ólafur fundinn sekur um smygl á tveimur pottflöskum af viskíi og dæmdur í fjársekt. Þá sekt borgaði Theódór með glöðu gleði.

Theódór Líndal var ritari réttarins þegar málið var tekið fyrir og sagði seinna að það hefði vakið mikla kátínu innan reykvísku lögfræðingastéttarinnar enda ekkert fordæmi fyrir því að sakborningur væri dómtúlkur í sakamáli sem hann átti sjálfur hlut að.

*

Á sjötta áratug síðustu aldar kynntist ég Guðmundi Jónassyni fjallabílstjóra og fór að ferðast með honum vítt og breitt um öræfi landsins. Ég var á þessum tíma við nám í rennismíði, ekki langt frá verkstæði Guðmundar í Þverholti. Ég kom þar því oft við á leið heim úr vinnu, aðallega til þess að forvitnast um hvort eitthvert spennandi ferðalag væri á döfinni. Í þá daga var unnið á laugardögum til hádegis á verkstæðinu, þar sem ég lærði, eins og víðast annars staðar.

Það var eitt sinn seint í nóvember 1956 að ég kom við hjá Guðmundi í Þverholti eftir hádegi á laugardegi. Hann var þar að smyrja yfirbyggðan GMC-trukk sem bróðir hans, Jón Húnfjörð, hafði lánað honum til að sækja nokkra poka af grjótsýnum úr Prestahnjúk, fjalli inni á Kaldadal. Bergið í Prestahnjúk er að mestu úr „perlite“ sem svo nefnist á erlendum málum en hefur fengið nafnið perlusteinn á íslensku. Perlusteinn hefur þann eiginleika að þenjast út við upphitun og nýtist því vel til einangrunar þegar búið er að meðhöndla hann á réttan hátt.

Steingrímur Hermannsson rafmagnsverkfræðingur, síðar forsætisráðherra og seðlabankastjóri, hafði stofnað fyrirtæki ásamt fleirum sem kanna átti notagildi bergsins með sölu og útflutning til Bandaríkjanna í huga. Gárungar kölluðu þetta fyrirtæki „Seljaland“ sín á milli.

Ég spurði Guðmund hvort ég mætti koma með í leiðangurinn og hann sagði það velkomið. Ég yrði bara að drífa mig heim og skipta um föt því að hann færi fljótlega.

Ég var snöggur heim því að stutt var á Guðrúnargötu 6 þar sem ég leigði herbergi þetta ár og vorum við komnir af stað um þrjúleytið. Með okkur var einn af bílstjórum Guðmundar, Heiðar Steingrímsson. Ekið var sem leið lá um Mosfellssveit til Þingvalla en er þangað kom var farið að skyggja, enda veður þungbúið. Þegar við komum inn fyrir Biskupsbrekku var komið svartamyrkur en þegar við töldum okkur vera komna á móts við Hrúðurkarla sáum við veikan bjarma fram undan sem hvarf og birtist til skiptis. Fljótlega varð þessi bjarmi að daufu, blikkandi ljósi sem hvarf öðru hverju þegar leiti bar á milli. Við veltum mikið fyrir okkur hvað í fjandanum þetta fyrirbæri væri en komumst ekki að neinni niðurstöðu. Mér fannst reyndar, þar sem ég sat hálfklemmdur milli Guðmundar og Heiðars, að Heiðari stæði bara alls ekki á sama því að hann var farinn að tala um yfirnáttúrulega hluti sem fólk á fjöllum yrði stundum vart við. En fljótlega kom í ljós hvaða fyrirbæri þetta var því að við mættum jeppa sem ók á móti okkur í myrkrinu með blikkandi stefnuljós eitt ljósa. Þarna voru á ferðinni Steingrímur Hermannsson og sérlegur ráðgjafi hans, Tómas Tryggvason jarðfræðingur. Við fengum líka strax skýringu á því hvers vegna bíll þeirra félaga var ljóslaus. Steingrímur og Tómas höfðu farið inn að Prestahnjúk daginn áður og gist í verktakaskúr þar á staðnum, en um nóttina frysti, og þegar þeir ætluðu að leggja af stað til Reykjavíkur kom í ljós að kælivatn bílsins hafði frosið.

Nú voru góð ráð dýr og eftir miklar vangaveltur og pælingar um það hvernig leysa mætti vandamálið kom verkfræðingnum í hug að eldur væri lausnin. Hann vissi sem var að eldur skapar hita og hann væri eini hitagjafinn sem þeir höfðu völ á þarna á staðnum. Félagarnir náðu nú í strigapoka og vættu hann vel í bensíni áður en þeir smeygðu honum undir vatnskassa bílsins og kveiktu í. Og viti menn, vatnið í vatnskassanum bráðnaði en bálið varð helst til mikið svo að vírarnir, sem lágu til framljósa bílsins, brunnu, stefnuljósið var þess vegna eina ljósið sem virkaði og við það varð að notast í myrkrinu.

Er við höfðum hlustað á skýringar þeirra félaga sagði Guðmundur: „Jæja, strákar, eigum við ekki að kíkja undir húddið?“

Heiðar ók nú trukknum til hliðar þannig að bílljósin lýstu upp framenda jeppans og Guðmundur fór að garfa eitthvað undir húddinu. Skyndilega varð allt umhverfið uppljómað og Guðmundur, dálítið drjúgur með sig, sagði við Steingrím sem bograði við hlið hans: „Svona förum við að, sem höfum ekki rafmagnsverkfræðimenntun, til að láta ljósið skína.“ Guðmundur hafði sem sagt tengt framljósin beint á rafgeyminn.

Heldur var stutt um kveðjur þegar hvor hópur hélt sína leið en sagt var að verkfræðingurinn hefði aldrei litið fjallabílstjórann réttu auga eftir þessa kennslustund á Kaldadal. Segir ekki meira af ferð okkar annað en það að við lukum erindinu við Prestahnjúk og komum einhvern tíma eftir miðnætti til Reykjavíkur.