Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við Morgunblaðið að nauðsynlegt hafi verið að leggja fyrir Lagastofnun spurningu um samspil ákvæði útlendingalaga og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þrátt fyrir að svarið hafi nokkuð augljóst

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við Morgunblaðið að nauðsynlegt hafi verið að leggja fyrir Lagastofnun spurningu um samspil ákvæði útlendingalaga og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þrátt fyrir að svarið hafi nokkuð augljóst. Niðurstaðan í áliti Lagastofnunar var sú að regla útlendingalaganna víki ekki til hliðar ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga af þeirri einu ástæðu að réttindi einstaklings sem umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi fallið niður.

„Í ljósi mikilvægis þess að fyrir lægi með skýrum hætti að þessi viðkvæmi hópur eigi rétt á og fái þá félagsþjónustu sem honum er nauðsynleg, og misvísandi túlkunar á ákvæði 33. gr. útlendingalaga í því sambandi, taldi ráðuneytið mikilvægt að fá óvilhallan aðila til að leggja mat á inntak ákvæðins, enda þótt ekki hafi verið um flókið álitaefni að ræða. Hagsmunir þessa viðkvæma hóps réðu þar mestu.“

Friðrik Árni Friðriksson Hirst, framkvæmdastjóri Lagastofnunar HÍ og álitsgerðarhöfundurinn, sagði að álitsgerðin hefði ekki svarað meginágreiningsefninu, sem væri hvað fælist í 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og hvort þeir einstaklingar sem hafi verið synjað um alþjóðlega vernd, og beri að yfirgefa landið, ættu rétt til aðstoðar á grundvelli þeirrar greinar. Sú spurning hafi hins vegar ekki verið lögð fyrir Lagastofnun. Katrín segir hvorki hægt að leggja þá spurningu fyrir Lagastofnun né forsætisráðuneytið þar sem um hóp fólks sé að ræða. Ljóst sé hverjir beri ábyrgð á að taka ákvarðanir um mögulegt inntak og félagsþjónustu.

„Hins vegar er það háð skyldubundnu mati viðkomandi sveitarfélags, í samráði við ráðuneyti félagsmála, fyrir hvern og einn einstakling sem um ræðir hverju sinni hvort hann á rétt á félagsþjónustu og hvert inntak þeirrar þjónustu skuli vera,“ segir Katrín.

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson