Sólveig María Gunnlaugsdóttir fæddist 29. september 1939. Hún lést 6. ágúst 2023. Útför hennar fór fram 18. ágúst.

Elsku amma Solla.

Ég man það svo vel þegar við vorum tvær saman í eldhúsinu í Bláskógunum og upp kom umræða um dauðann. Ég sagði við þig: „Amma, ég vona að ég deyi á undan þér.“ Þú varst auðvitað snögg að taka fyrir það og útskýra fyrir mér að eðlilegast og best væri ef eldri dæju á undan þeim yngri. En ég man þetta svo vel því þarna áttaði ég mig á því hversu vont það myndi verða að missa þig, og nú er komið að því.

Þú varst dásamleg amma og þú skilur eftir svo margar yndislegar minningar úr Bláskógunum, sumarbústaðnum og miklu fleiri. Í minningunni eyddi ég öllum páskum með ykkur afa í sumarbústaðnum. Ég veit svo sem ekki hvort það er rétt, en það voru allavega eftirminnilegustu páskarnir.

Ég er svo þakklát fyrir stundirnar okkar síðustu ár þegar þú komst til mín í neglur. Alla klukkutímana sem við sátum saman, bara ég og þú, og við töluðum um allt milli himins og jarðar. Þú passaðir upp á að vera með varalit í stíl við litinn sem þú valdir á neglurnar og fórst svo í föt í réttum lit líka. Stundum hjálpaði ég þér að panta nýjan varalit á Heimkaup svo þú gætir sótt hann á leiðinni heim, svo þú ættir örugglega nóg af réttum lit. Þú hlustaðir ekkert á mig þegar ég sagði að það væri í lagi að það væri ekki allt í stíl.

Síðastliðið árið kom ég til þín með allar græjurnar og við gerðum þig fína heima í
Suðurtúninu eða á spítalanum, allt eftir því hvar þú varst stödd. Þú varðst auðvitað að hafa fínar neglur hvernig sem á stóð.

Í síðasta skiptið komum við Ylva til þín á fínu stofuna þína á Landakoti þar sem þú varst í drottningarherberginu með glæsilegt útsýni, frá Esjunni, yfir allan bæinn og heim á Álftanes og Bessastaði.

Við gerðum neglurnar þínar fínar í síðasta skiptið, lökkuðum tærnar í stíl og Ylva teiknaði myndir fyrir þig til að skreyta herbergið þitt.

Það síðasta sem þú sagðir við mig var „við hittumst aftur“ og horfðir hughreystandi í augun á mér.

Ást og friður til þín elsku amma.

Þangað til næst, þín

Linda.

Í dag kveð ég Sólveigu
móðursystur mína hinstu kveðju. Hún hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu og við átt margar góðar samverustundir. Ég mun sakna hennar og varðveita allar dýrmætu
minningarnar í hjarta mínu. Hvíl í friði elsku frænka.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tali og allt hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

(Vatnsenda-Rósa)

Vilhelmína Ólafsdóttir.