Petur J. Eiríksson
Petur J. Eiríksson
Um leið skal aftengja fyrirkomulag sem hefur virkað vel í 43 ár og koma í veg fyrir óperusýningar í eitt og hálft ár.

Petur J. Eiríksson

Það virðist nokkuð ljóst hvort menningarráðherra telur bráðara verkefni, að leggja niður Íslensku óperuna eða að stofna ríkisóperu. Hún hefur tilkynnt að stuðningi við Íslensku óperuna sé nú endanlega lokið að undanskildu því sem hún kallar skuldbindingu óperunnar sem er sýning á nýrri óperu Daníels Bjarnasonar, Agnesi, eftir rúmt ár og greiðslu á húsaleigu í Hörpu fram að þeim tíma. Hvenær ríkisóperan tekur til starfa er hins vegar ekki vitað en „vonandi“ verður það árið 2025, eins og ráðherrann orðaði það í sjónvarpsviðtali nýlega. Það sem ráðherrann virðist ekki skilja er að skuldbinding óperunnar felst í fleiru en að greiða húsaleigu í Hörpu og að sýna Agnesi, sem vissulega er verðugt verkefni. Hún felst ekki síður í að standa við samning við ríkið um sýningu á tveimur stóróperum á ári auk ýmissa minni verkefna. Þessi samningur er í fullu gildi þótt ráðherra kjósi að virða hann að engu og afleiðingin er sú að í eitt og hálft ár frá sýningu á Madama Butterfly verður engin stór óperusýning á Íslandi. Það er erfitt að skilja slíka menningarstefnu ríkisstjórnar en menningarslys er það vissulega.

Íslenska óperan sýndi Madama Butterfly í mars á þessu ári en stóra haustverkefnið var sýningin á óperunni Brothers eftir Daníel Bjarnason í Kaupmannahöfn þar sem hún, söngvarar og ekki síst kór Íslensku óperunnar fengu afburða móttökur. Við þær takmörkuðu fjárveitingar sem óperan hafði þurfti hér að velja á milli stórrar haustsýningar á Íslandi eða sýna Brothers í Kaupmannahöfn. Óperan taldi mikilvægara að nýta tækifærið til að halda þessu íslenska verki á lofti í alþjóða óperuheiminum. Undirbúningur á stórsýningu í mars 2024 var hins vegar kominn á skrið þegar stjórn óperunnar varð að blása hana af í mai síðast liðnum þegar endanlega var ljóst að fjárveitingar ársins 2024 yrðu að hámarki 140 milljónir króna í stað 214 milljóna ári fyrr.

Auk lækkandi fjárveitinga hefur Íslenska óperan búið við lítið stafsöryggi vegna yfirlýsinga menningarmálaráðuneytisins um að fjárveitingum til stofnunarinnar verði hætt, fyrst árið 2023 og síðan 2024 vegna breytts fyrirkomulags óperuflutninga með stofnun ríkisóperu. Síðan hefur verið dregið í land, oftast með engum fyrirvara og fjárveitingar skammtaðar frá mánuði til mánaðar. Þetta hefur sett óperustjóra í mikinn vanda við skipulagningu starfsins.

Íslenska óperan hefur ekki lagst gegn hugmyndum um stofnun ríkisóperu heldur fagnað því ef ríkisstjórnin vill leggja margfallt fé til óperuflutnings. Íslenska óperan hefur hins vegar lagt áherslu á að fram til þess tíma sem ríkisópera tekur til starfa verði haldið uppi óslitnum óperuflutningi. Í því skyni bauð Íslenska óperan, sem hefur verið okkar þjóðarópara í 43 ár, að ríkið byggði nýja ríkisóperu á henni með yfirtöku á stofnuninni, eignum hennar og sýningaréttum þegar ríkisópera er tilbúin til starfa. Þessu hefur ráðuneytið ekki sinnt. Þvert á móti hefur menningarráðuneytið að mestu haldið Íslensku óperunni frá ríkisóperuferlinu eins og sjá má af því að sviðmyndir sem ráðherra tilkynnti nýverið að hefðu verið kynntar íslenska óperuheiminum, eins og það var orðað, hafa enn ekki verið kynntar Íslensku óperunni þrátt fyrir ítrekaðar óskir. Það er einkennilegt að Íslenska óperan skuli ekki tilheyra íslenskum óperuheimi að mati ráðherra.

Íslenskt óperustarf hefur vaxið og þróast með undraverðum hætti, bæði með stofnun Íslensku óperunnar og öflugu grasrótarstarfi. En gleymum því ekki að frumkvæði í óperustarfsemi á Íslandi hefur aldrei komið frá hinu opinbera heldur að öllu leyti frá einstaklingum sem með ástríðu, hæfileikum og framtaki hafa gefið íslensku þjóðfélagi ríkulega fyrir naumt skammtaða fjármuni frá ríkinu. Nú þegar ríkið segir nú get ég og vill hefja rekstur á óperu gerist það með ómarkvissum hætti, þremur eða fjórum nefndum og starfshópum og skorti á sýn á tilgang, fyrirkomulag og tímasetningar. Um leið skal aftengja fyrirkomulag sem hefur virkað vel í 43 ár og koma í veg fyrir óperusýningar í eitt og hálft ár.

Höfundur er formaður stjórnar Íslensku óperunnar.

Höf.: Petur J. Eiríksson