Hlýindi Veður var með allra besta móti í höfuðborginni í gær.
Hlýindi Veður var með allra besta móti í höfuðborginni í gær. — Morgunblaðið/Arnþór
Í gær mældust 20 gráður í Reykjavík. Er þetta í fyrsta sinn í sumar, og raunar í fyrsta sinn í tvö ár, sem hiti nær 20 gráðum í höfuðborginni. Trausti Jónsson veðurfræðingur sagði í samtali við mbl.is að óvanalegt væri að hiti næði 20 gráðum svo síðla sumars en þó séu dæmi um slíkan hita í ágúst

Elísa A. Eyvindsdóttir

elisa@mbl.is

Í gær mældust 20 gráður í Reykjavík. Er þetta í fyrsta sinn í sumar, og raunar í fyrsta sinn í tvö ár, sem hiti nær 20 gráðum í höfuðborginni.

Trausti Jónsson veðurfræðingur sagði í samtali við mbl.is að óvanalegt væri að hiti næði 20 gráðum svo síðla sumars en þó séu dæmi um slíkan hita í ágúst. Árið 2015 náði hiti fyrst 20 gráðum hinn 25. ágúst og var það í eina skiptið það sumarið.

20 gráður í september 1939

Bætir hann við að einungis sé vitað um eitt ár með 20 stiga hita í Reykjavík síðar á sumrinu en það var árið 1939 og þá hafi hitinn náð 20 stigum bæði 31. ágúst og 3. september.

Almennt minnka líkurnar á því að hitamet falli eftir því sem líða tekur á sumarið og eftir miðjan ágúst fari þær ört minnkandi.

Spurður hvort um sé að ræða varanlega hlýnun í veðurfari, segir hann að ekki sé hægt að dæma um það að svo stöddu. „Við förum ekki að tala um neinar breytingar fyrr en við fáum að fá mörg septembertilfelli og ég veit ekki hvort það verði í okkar tíð,“ segir hann.

Þá tekur hann fram að óvenjulegt sé hversu tvískipt sumarið hefur verið en mikil rigning og kuldatíð einkenndu fyrstu tvo mánuði sumarsins á suðvesturhorninu í ár.

„Samanlagt voru maí og júní þeir sólarlausustu sem við vitum um. En svo kemur júlímánuður þar sem það var óvenjumikið sólskin og líka frekar þurrt,“ segir Trausti.

Ekki er útlit fyrir að hitamælar sýni 20 gráður í Reykjavík aftur í dag en þó verður bjart og allt að 12 stiga hiti. Útlit er fyrir úrkomu með kvöldinu. Á þriðjudag verður veður öllu betra og gæti hiti náð 17 gráðum síðdegis.