Daníel Jakobsson
Daníel Jakobsson
Tvö göt fundust á kví númer átta hjá Arctic Seafarm í Kvígindisdal í Patreksfirði í gær. Lágu götin lóðrétt hvort sínum megin við svokallaða styrktarlínu, hvort um sig 20 sinnum 30 sentimetrar að stærð

Tvö göt fundust á kví númer átta hjá Arctic Seafarm í Kvígindisdal í Patreksfirði í gær. Lágu götin lóðrétt hvort sínum megin við svokallaða styrktarlínu, hvort um sig 20 sinnum 30 sentimetrar að stærð. Í tilkynningu frá Arctic Seafarm kemur fram að búið sé að loka götunum og verið sé að skoða allar kvíar á svæðinu. Þá hefur atvikið verið tilkynnt til Fiskistofu og Matvælastofnunar eins og reglur kveða á um og viðbragðsáætlanir hafa verið virkjaðar.

Þrjú slysasleppinganet voru lögð í gær sem verða dregin í dag með eftirlitsfólki frá Fiskistofu.

Fram kemur að í kví átta hafi verið 72.522 fiskar og meðalþyngd hvers þeirra um sex kíló.

Vegur því torfan samanlagt um 440 þúsund kíló en byrjað var að vinna fisk úr kvínni og var síðast farið með fisk í vinnslu úr henni eftir verslunarmannahelgina.

Að sögn Daníels Jakobssonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish, er ekki vitað að svo stöddu hvort nokkrir fiskar hafa sloppið.

„Við vonum að það hafi ekkert mikið farið en við látum ekki hafa neitt eftir okkur að svo stöddu. Við erum bara að reyna að ná utan um þetta,“ segir hann.

Á ekki að gerast

„Þetta á ekki gerast, númer eitt, tvö og þrjú. En þegar verið er að slátra úr kvíunum þá getur svona gerst og það gerðist í þessu tilviki. En sem betur fer uppgötvaðist það,“ segir hann. Þá tekur hann fram að fljótlega verði ljóst hvaða afleiðingar atvikið hafði í för með sér.

„Það er búið að virkja allar viðbragðsáætlanir sem á að gera. Tilkynna Fiskistofu, Matvælastofnun og leggja þessi net. Svo er verið að slátra upp úr kvínni þessar vikurnar og þá liggur fyrir nákvæmlega hvernig ástandið er,“ segir Daníel.
elisa@mbl.is