[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erlingur Birgir Richardsson hefur verið ráðinn þjálfari karlalandsliðs Sádi-Arabíu í handknattleik. Erlingur skrifaði undir eins árs samning við handknattleikssamband Sádi-Arabíu en hann tekur við liðinu af Zoran Kastrovic sem stýrði því til skamms tíma

Erlingur Birgir Richardsson hefur verið ráðinn þjálfari karlalandsliðs Sádi-Arabíu í handknattleik. Erlingur skrifaði undir eins árs samning við handknattleikssamband Sádi-Arabíu en hann tekur við liðinu af Zoran Kastrovic sem stýrði því til skamms tíma. Sádar höfnuðu í 29. sæti á HM 2023 sem fram fór í Svíþjóð og Póllandi en Erlingur Birgir er fyrsti Íslendingurinn til þess að þjálfa liðið en bæði Aron Kristjánsson og Halldór Jóhann Sigfússon hafa þjálfað í nágrannaríkinu Barein. Asíuleikarnir fara fram í Kína í september og verða þeir fyrsta verkefni Erlings með liðið. Þá tekur við forkeppni Ólympíuleikanna þar sem sigurliðið tryggir sig inn á leikana í París 2024 og liðið í öðru sæti kemst í forkeppni með liðum frá hinum heimsálfunum. Erlingur nýtti sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við ÍBV í febrúar en hann stýrði liðinu í kjölfarið til Íslandsmeistaratitils. Hann er ekki ókunnur landsliðsþjálfun en hann þjálfaði karlalið Hollands frá 2017 til 2022 og tóku Hollendingar þátt í lokakeppni EM í fyrsta sinn árið 2020 undir hans stjórn.

Luciano Spalletti hefur verið ráðinn þjálfari karlalandsliðs Ítalíu í knattspyrnu og tekur hann við liðinu af Roberto Mancini sem lét óvænt af störfum á dögunum. Spalletti, sem er 64 ára gamall, stýrði Napolí til sigurs í ítölsku A-deildinni á síðustu leiktíð. Hann lét af störfum eftir tímabilið og hugðist taka sér frí frá knattspyrnuþjálfun en er nú mættur aftur.

Sigurður Gunnar Þorsteinsson er genginn til liðs við körfuknattleikslið Vestra á Ísafirði. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í gær en hann varð Íslandsmeistari með Tindastóli síðasta vor. Framherjinn skrifaði undir eins árs samning á Ísafirði þar sem hann er uppalinn en hann hefur einnig leikið með Keflavík, Grindavík, ÍR og Hetti hér á landi. Þá hefur hann einnig leikið sem atvinnumaður í Svíþjóð, Grikklandi og Frakklandi. Þá á hann að baki 58 A-landsleiki fyrir Ísland en Vestri leikur í 2. deildinni á komandi keppnistímabili.

Argentínumaðurinn Lionel Messi er orðinn sigursælasti knattspyrnumaður sögunnar en hann vann sinn 44. bikar á ferlinum í nótt þegar lið hans Inter Miami varð deildabikarmeistari eftir sigur gegn Nashville í vítaspyrnukeppni í Nashville í nótt. Messi lék lengst af með Barcelona þar sem hann varð tíu sinnum Spánarmeistari, bikarmeistari sjö sinnum og Evrópumeistari fjórum sinnum. Þá varð hann tvívegis Frakklandsmeistari með París SG á ferlinum. Hann varð einnig heims- og Suður-Ameríkumeistari með Argentínu. Með sigrinum í nótt tók Messi fram úr Dani Alves sem vann 43 titla á ferlinum.

Kolbrún María Ármannsdóttir var stigahæst hjá íslenska stúlknalandsliðinu í körfuknattleik, skipað leikmönnum 16 ára og yngri, þegar liðið hafði betur gegn Bretlandi í leik um 5. sætið í B-deild Evrópumótsins sem fram fór í Podgorica í Svartfjallalandi og lauk um helgina. Kolbrún skoraði 14 stig í leiknum ásamt því að taka 15 fráköst og þær Ólöf María Bergvinsdóttir og Ísold Sævarsdóttir tíu stig hvor. Kolbrún María var valin í úrvalslið mótsins fyrir frammistöðu sína í Svartfjallalandi.

Íslenska U17 ára landslið karla í fótbolta mátti þola 3:0-skell á móti jafnöldrum sínum frá Ungverjalandi í lokaleik liðsins á Telki Cup-mótinu í Ungverjalandi á laugardaginn. Var leikurinn sá þriðji og síðasti hjá íslenska liðinu á mótinu. Ísland vann 2:0-sigur á Úsbekistan, en tapaði fyrir Króatíu, 1:2, í tveimur fyrstu leikjum sínum.

Arna Valgerður Erlingsdóttir hefur verið ráðin aðalþjálfari kvennaliðs KA/Þórs í handbolta. Arna var áður aðstoðarþjálfari liðsins en hún tekur við af Andra Snæ Stefánssyni. Mikill uppgangur hefur verið hjá KA/Þór sem á undanförnum árum hefur orðið bæði Íslands- og bikarmeistari. KA/Þór hafnaði í 6. sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og féll úr leik í 1. umferð úrslitakeppninnar eftir tap gegn Stjörnunni, 2:1. KA/Þór mætir ÍBV í KA-heimilinu í 1. umferð úrvalsdeildarinnar sem hefst á nýjan leik hinn 9. september.