Stund Dagskrá Menningarnætur stóð frá klukkan tólf um hádegi til klukkan rúmlega ellefu að kvöldi til og fjölmargt í boði.
Stund Dagskrá Menningarnætur stóð frá klukkan tólf um hádegi til klukkan rúmlega ellefu að kvöldi til og fjölmargt í boði. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Talið er að um hundrað þúsund gestir hafi lagt leið sína í miðborg Reykjavíkur á laugardag þegar Menningarnótt fór fram. Guðmundur Birgir Halldórsson, verkefnastjóri viðburða hjá Reykjavíkurborg, segir hátíðina hafa lukkast einstaklega vel

Elísa A. Eyvindsdóttir

elisa@mbl.is

Talið er að um hundrað þúsund gestir hafi lagt leið sína í miðborg Reykjavíkur á laugardag þegar Menningarnótt fór fram. Guðmundur Birgir Halldórsson, verkefnastjóri viðburða hjá Reykjavíkurborg, segir hátíðina hafa lukkast einstaklega vel.

„Við erum rosalega ánægð með hvernig gekk. Það var pása í tvö ár vegna heimsfaraldursins og svo byrjuðum við aftur í fyrra. Núna fannst okkur ganga rosalega vel og það var gríðarlega góð þátttaka,“ segir hann og tekur fram að það hafi sannarlega spilað inn í að veðrið hafi leikið við hátíðargesti. „Við finnum að núna var ótrúlega góð stemningin fyrir hátíðinni og veðrið hjálpaði til. Frábært veður en samt ekki of mikil sól. Þannig þetta fór rosalega ljúflt af stað með opnunaratriðunum. Svo sá maður að fólk var komið í snemma í bæinn.“ segir Guðmundur.

Dagskráin var fjölbreytt allan daginn og fram á kvöld en atriðin voru hátt í 400 og hafa þau sjaldan verið jafnmörg. „Það voru áberandi margir minni listviðburðir og skemmtileg grasrótaratriði og ég vona að það eigi bara eftir að færast í aukana,“ segir hann.

Ein besta aðsókn fram að þessu

Þá tekur hann fram að auglýst hafi verið eftir viðburðum og svo hafi nokkrir þeirra hlotið styrki en lagt er upp úr því að styrkja smærri grasrótarviðburði. „Við reynum að styrkja það því hinir eru til staðar, þessi stóru tónleikar og það er að sjálfsögðu líka mjög skemmtilegt en við reynum kannski að draga þá svolítið fram svo þeir njóti sín líka,“ segir hann.

Að sögn Guðmundar var aðsóknin í ár einstaklega góð enda gerðu hátt í hundrað þúsund manns sér ferð niður í miðbæ Reykjavíkur til þess að taka þátt í þeirri fjölbreyttu dagskrá sem var á boðstólum. „Það var góð aðsókn í fyrra en það var eins og það hafi alveg komist í gegn núna. Ég veit ekki hvers vegna. Kannski var fólk alveg nýkomið út úr breyttum aðstæðum og það gekk mjög vel í fyrra en núna finnst okkur eins og það hafi í raun aldrei verði fleiri í bænum. En samt var svo mikil ró yfir öllum og góð stemning,“ segir hann.

Þá segir hann að lokun miðbæjarins hafi verið með öðru móti í ár en hún hafi lukkast vel. „Við prófuðum að breyta aðeins lokunum. Minnka aðeins lokunarsvæðið en hafa það harðara. Lögreglan er sammála okkur í því að það hafi gengið vel,“ segir hann og bætir við að einnig hafi tekist vel til með breytt fyrirkomulag á Strætó. Í fyrsta sinn í nokkur ár var rukkað í Strætó á Menningarnótt. „Við jukum tíðni strætóferða og við höfum, allavega enn sem komið er, bara fengið jákvæð viðbrögð við því og náð að ferja alla,“ segir hann.

Þáttaka í maraþoninu einstaklega góð

Líkt og tíðkast hefur var einnig keppt í Reykjarvíkurmaraþoninu á laugardag. Var það nú haldið í 38. sinn en margir lögðu leið sína niður í miðbæ Reykjavíkur til þess að styðja keppendur. Fór þátttaka fram úr björtustu vonum en 11.307 hlauparar á öllum aldri frá 84 löndum skráðu sig. Þá var einnig í fyrsta sinn í boði að skrá sig í þrjá kynjaflokka, þ.e. karla, kvenna og kvára. Þá var áheitametið einnig slegið. Heildarupphæð áheita var komin upp í 190 milljónir en áheitasöfnun hlaupsins verður opin fram til miðnættis.

Höf.: Elísa A. Eyvindsdóttir