Vöxtur Marinó Örn Tryggvason stýrði Kviku í fjögur ár.
Vöxtur Marinó Örn Tryggvason stýrði Kviku í fjögur ár. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Marinó Örn Tryggvason hefur ákveðið að láta af störfum sem forstjóri Kviku en stjórn bankans tilkynnti um það á sunnudag að samkomulag hefði verið gert við Marinó um brotthvarf hans. Hefur Marinó þegar látið af störfum en Ármann Þorvaldsson,…

Marinó Örn Tryggvason hefur ákveðið að láta af störfum sem forstjóri Kviku en stjórn bankans tilkynnti um það á sunnudag að samkomulag hefði verið gert við Marinó um brotthvarf hans. Hefur Marinó þegar látið af störfum en Ármann Þorvaldsson, framkvæmdastjóri bankans, sest í forstjórastólinn í hans stað.

Marinó starfaði hjá Kviku í rösklega sex ár og var forstjóri félagsins undanfarin fjögur ár. Segir hann bankann hafa tekið miklum breytingum á þeim tíma og sé núna orðinn eitt af stærstu og verðmætustu fyrirtækjum landsins. Spurður hvað standi helst upp úr af þeim verkefnum sem bankinn hefur tekist á við kveðst Marinó einkar stoltur af því hlutverki sem Kvika lék við að aðstoða Icelandair þegar kórónuveirufaraldurinn lék rekstur flugfélagsins grátt:

„Það var algjört lykilatriði að halda flugfélaginu gangandi og alls ekki sjálfgefið. Vitaskuld eiga stjórnendur Icelandair skilið mesta heiðurinn af því hvernig til tókst en það var afar ánægjulegt að Kvika skyldi geta aðstoðað.“

Marinó kveðst einnig stoltur af þeim ávinningi sem almenningur í landinu hafi haft af aukinni samkeppni á innistæðumarkaði. Árið 2019 kynnti Kvika nýja fjármálaþjónustu á netinu, Auður.is, með það fyrir augum að bjóða einstaklingum upp á sparnaðarreikninga með mjög hagstæðum vöxtum. „Ég held ég megi fullyrða að bætt samkeppni, með tilkomu Auðar, hafi orðið til þess að vaxtatekjur heimilanna jukust um marga milljarða króna á ári, og var það gott dæmi um það hverju aukin samkeppni getur skilað.“

Greiða þegar hvalrekaskatt

Hefur uppbygging bankans gengið vel, þrátt fyrir íþyngjandi rekstrarumhverfi, en undanfarnar vikur hefur töluverð umræða spunnist um hagnað íslensku bankanna og kjörnir fulltrúar viðrað hugmyndir um að leggja hvalrekaskatt á greinina. Hafa aðrir bent á að arðsemi eigin fjár íslenskra banka sé lægri en víðast hvar í Evrópu og skrifist einmitt á sérstakar kvaðir og gjöld sem bankarnir hafa þurft að bera.

Segir Marinó það staðreynd að rekstrarumhverfi íslenskra fjármálafyrirtækja sé meira íþyngjandi en í Evrópu. „Eins eru hærri skattar lagðir á íslensk fjármálafyrirtæki og hefur það vissulega áhrif á greinina,“ segir hann. „Má nánast segja að fjármálakerfið okkar hafi verið að greiða hvalrekaskatt seinustu 15 ár.“

Í tilkynningu frá stjórn Kviku segir að félagið standi nú á tímamótum þar sem fjárfestingar undanfarinna ára í innri vexti eru farnar að skila sér. Þá séu fram undan mörg tækifæri til frekari vaxtar og uppbyggingar.

Líkt og Morgunblaðið hefur fjallað um átti Kvika frumkvæði að samrunaviðræðum við Íslandsbanka í febrúar síðastliðnum en viðræðunum var slitið í júní, m.a. með vísan til þess að ekki hefði tekist að ná sameiginlegri niðurstöðu um skiptahlutföll. Þá hjálpaði ekki að mikill styr stóð um rekstur Íslandsbanka í sumar og var bankinn sektaður um rösklega milljarð króna vegna brota sem áttu sér stað í tengslum við hlutafjárútboð hans í mars á síðasta ári.

Greindi Marinó frá því á uppgjörsfundi bankans síðasta fimmtudag að engin frekari samskipti hafi átt sér stað við Íslandsbanka um mögulegan samruna.

Aðspurður hvað hann hyggist taka sér næst fyrir hendur segir Marinó að hans helsta verkefni verði að aðstoða eftirmann sinn við að koma sér vel inn í starfið en annars hlakki hann til að hafa tíma til að lesa fleiri bækur. ai@mbl.is