Auðn Enterprise í Kanada er brunninn til grunna en var rýmdur tímanlega.
Auðn Enterprise í Kanada er brunninn til grunna en var rýmdur tímanlega. — AFP/Andrej Ivanov
Tæplega 400 gróðureldar í kanadíska fylkinu Bresku-Kólumbíu, þeir viðamestu í gervallri sögu Kanada, hafa hrakið íbúa 30.000 heimila á flótta í umfangsmiklum rýmingaraðgerðum yfirvalda á hamfarasvæðunum en íbúar 36.000 til viðbótar eru beðnir að vera í viðbragðsstöðu

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Tæplega 400 gróðureldar í kanadíska fylkinu Bresku-Kólumbíu, þeir viðamestu í gervallri sögu Kanada, hafa hrakið íbúa 30.000 heimila á flótta í umfangsmiklum rýmingaraðgerðum yfirvalda á hamfarasvæðunum en íbúar 36.000 til viðbótar eru beðnir að vera í viðbragðsstöðu.

Fjöldi bygginga hefur orðið eldunum að bráð, svo sem í Shuswap-héraði þar sem tveir stórir gróðureldar sameinuðust í eitt eldhaf aðfaranótt gærdagsins og eirðu engu sem fyrir varð.

Yellowknife tæmd

Sunnar í fylkinu hefur verið lokað fyrir alla umferð til borgarinnar Kelowna á bökkum Okanagan-stöðuvatnsins, heimilis 36.000 manns, og þaðan berast einnig fréttir af tjóni á byggingum af völdum loganna.

Tilgangur lokunarinnar er að tryggja greiðar flóttaleiðir frá borginni sem íbúar rýma nú sem óðast auk þess að opna slökkviliði og öðrum viðbragðsaðilum leið til hennar. Það sama gildir um fleiri byggðarlög þar á svæðinu, svo sem Kamloops, Oliver, Penticton, Vernon og Osoyoos.

Hundruðum kílómetra norðar nálgast gríðarmikið bál borgarmörk Yellowknife en allra síðustu forvöð til að rýma hana, höfuðborg Norðvesturhéraðanna, voru á föstudaginn. Höfðu fjölmiðlar eftir embættismanni þar á föstudaginn að nánast allir 20.000 íbúar Yellowknife væru horfnir á braut, ýmist akandi eða með flugi. Tæplega fjörutíu sjúklingar af nokkrum sjúkrahúsum og stofnunum voru síðastir til að yfirgefa borgina svo vitað sé.

Um líf og dauða að tefla

Bowinn Ma, ráðherra almannavarna og loftslagsmála í Bresku-Kólumbíu, lét þau orð falla í gær að stjórnvöld gætu seint brýnt það nógsamlega fyrir íbúum á hamfarasvæðunum hve lífsnauðsynlegt þeim væri að fylgja tilskipunum um rýmingu. „Þar er um líf og dauða að tefla, ekki aðeins fyrir íbúana heldur einnig fyrir viðbragðsaðila sem þurfa að vitja fólks og beita það fortölum til að rýma,“ sagði ráðherra enn fremur.

Aldrei hafa íbúar Kanada mátt horfa upp á aðra eins gróðurelda síðan skráningar hófust en í öllu landinu loga um eitt þúsund gróðureldar eftir því sem Skógareldamiðstöðin CIFFC gefur upp. Sífellt lengri þurrkatímabil knúin loftslagsbreytingum ræna jarðveg og gróður öllum raka og búa þar með til eldsmat sem ekki þarf nema lítinn neista til að hleypa í bál og brand.

Evrópa enn í nauðum

Í sumarparadísinni Tenerife í Kanaríeyjaklasanum, þar sem fjöldi Íslendinga dvelur jafnan, hafa 12.000 manns nú mátt yfirgefa heimili sín vegna skógarelda sem þar hafa geisað tæpa viku og er það mikið stökk yfir helgina þar sem talan var um 4.500 á föstudaginn.

Þótt vinsælustu ferðamannasvæðin hafi ekki orðið fyrir neinum skakkaföllum hafa ellefu bæir á eyjunni orðið fyrir áhrifum af logahafinu með einum eða öðrum hætti.

Jón Óskar Þórhallsson ræddi við mbl.is á föstudagskvöldið og sendi myndir og myndskeið sem hann hafði tekið í ferð til höfuðborgarinnar Santa Cruz. Lýsti Jón Óskar því hvernig slökkviliðsflugvélar hefðu verið á þönum milli eldanna og hafnarinnar í Santa Cruz þar sem þær renndu sér niður á hafflötinn og fylltu vatnstanka sína á sekúndum. „Það fór aðeins um mann að fá þetta svona nálægt sér, dálítil ónotatilfinning,“ sagði Jón Óskar sem annars var í góðu yfirlæti.

84 ferkílómetrar að ösku

Veðrið hefur verið slökkviliði hagstætt en hærra hitastigi hafði verið spáð í gær. Gekk sú spá ekki eftir og greinir slökkviliðið frá því á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, að slökkvistarf gengi eðlilega fyrir sig. Hafa þó 84 ferkílómetrar lands nú orðið eldinum á Tenerife að bráð eftir því sem stjórnvöld á eyjunni greina frá.

Slökkviliðið segir um stærstu aðgerð þess frá upphafi vega að ræða og hefur notið dyggrar aðstoðar hersins auk viðbragðsaðila af spænska meginlandinu.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson