Aðalsteina Erla Laxdal Gísladóttir fæddist 5. janúar 1946 í Reykjavík. Hún lést í Reykjavík 11. ágúst 2023. Foreldrar hennar voru Anna Magnúsdóttir og Gísli Pétur Jóhannsson. Hún var elst af 11 systkinum, en þau eru í aldursröð: Ágústa, Guðfinna, Guðbjartur, Jens, Þóra, Magnús, Guðbjörg, Sigurpáll, Hans og Anna. Eiginmaður Erlu er Ársæll Kristófer Ársælsson, f. í Hafnarfirði 1942. Foreldrar hans voru Ársæll Kristófer Jónsson og Jóhanna Guðmundsdóttir.

Erla og Ársæll gengu í hjónaband í Fríkirkjunni 13. september 1964. Þau eiga þrjú börn, Sigurbjörgu Önnu, f. 1964, Ársæl Kristófer, f. 1965, og Magnús Þór, f. 1976.

Sigurbjörg á fjögur börn, Erlu Maríu, f. 1983, Einar Má, f. 1987, Alexöndru Evu, f. 1994, og Matthías Kristófer f. 1998. Barnabörn Sigurbjargar, börn Erlu Maríu, eru Marín Mist, f. 2012, Arna Hrönn, f. 2014, og Kári, f. 2019. Maki Erlu er Kristinn Rudolfsson. Einar Már og maki hans, Karolina Kruglińska, eiga von á sínu fyrsta barni síðar á árinu.

Ársæll Kristófer á fjögur börn, Ársæl Kristófer, f. 1992, Kristján, f. 1994, Orra Leif, f. 2009, og Ástu Lovísu, f. 2012. Maki Ársæls er Lovísa Leifsdóttir. Einnig ól Ársæll, að hluta til, upp Eðvarð Þór Helgason, f. 1987. Barnabarn Ársæls, barn Kristjáns, er Júlía Jökla, f. 2021. Maki Kristjáns er Fríða Marý Halldórsdóttir. Barn Eðvarðs er Ísabella, f. 2016.

Magnús Þór á tvíburana Sigríði Sumarrós og Jóhönnu Júlírós, f. 2011. Maki Magnúsar er Agnes Konráðsdóttir.

Erla ólst upp hjá ömmu sinni, Aðalheiði Maríu Jónsdóttur í Höfðaborg í Reykjavík. Þar átti hún heima ásamt móðursystkinunum sínum, Margréti, Elsu, Guðbjarti, Guðmundi og Guðnýju, ásamt Unni frænku sinni. Erla leit alltaf á þær Guðnýju og Unni sem systur sínar. Auk heimilsins hjá Öllu ömmu sinni, þá átti Erla samastað hjá móður sinni á Selhóli, Hellissandi. Þrátt fyrir að mörg væru börnin á Selhólnum, sá Sigurbjörn Hansson, maður Önnu, til þess að Erla væri ávallt velkomin og Siggi varð síðan afbragðsgóður afi barna hennar.

Erla og Ársæll bjuggu í Hafnarfirði fram til ársins 1978 en þá fluttu þau til Svíþjóðar þar sem þau bjuggu i þrjú ár. Árið 1981 fluttu þau aftur til Íslands og þá til Hellissands. Fljótlega eftir að þau komu þangað keyptu þau húsið Laufás, sem þau stækkuðu. Erla og Ársæll bjuggu á Laufási í um það bil 40 ár.

Erla starfaði víða og oft i tveimur ef ekki þremur störfum samtímis. Þá var hún virkur þátttakandi í félags- og stéttarfélagsmálum. Var t.d. formaður kvenfélagsins á Hellissandi um tíma og starfaði í slysavarnardeildinni Helga Bárðardóttir.

Útför Erlu verður í Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 21. ágúst 2023, klukkan 15.

Föstudaginn 11. ágúst kvaddi móðir mín þennan heim. Andlega og líkamlega þreytt eftir nokkra mánaða erfiða baráttu við krabbamein. Líkaminn búinn að vera og hún skildi vel í hvað stefndi. Eins og venjulega vildi hún hafa stjórn á hlutunum, sagði hreint út að nú væri nóg komið og afþakkaði frekari meðferð. Á fimmtudagsmorguninn tilkynnti hún föður mínum að þetta yrði hennar síðasti dagur á lífi. Hún bað hann um að skila afsökunarbeiðni til mín og Magnúsar bróður míns, en við búum báðir erlendis, vegna þess að hún hefði einfaldlega ekki þrek í að bíða eftir að við kæmumst heim. Síðar þann dag tók hún loforð af Sigurbjörgu systur minni og börnum hennar, um að þau, við bræður og afkvæmi okkar öll myndum hugsa vel um pabba. Svo lagðist hún sátt til hvílu og lá á meðan líkaminn hægði á sér hægt og rólega. Klukkan 20 mínútur yfir miðnætti dró hún sinn síðasta andardrátt. Nú er ekkert annað fyrir okkur að gera en að hugsa vel um pabba því annars lætur mamma okkur „heyra það“.

Það er erfitt fyrir nútímafólk að ímynda sér hvernig lífið var á árum áður. Við erum vön að fá allt, geta gert allt, þegar okkur dettur það í hug. Við getum valið okkur farveg í lífinu, fengið menntun og störf við það sem við veljum. Ef við höfum áhuga á einhverju getum við fengið allar upplýsingar um efnið og sinnt því eins mikið og við viljum. Þetta er því miður ekki umhverfið sem móðir mín fæddist inn í. Mamma er fædd ´46 og ólst upp hjá ömmu sinni, móðursystkinum og systkinabarni í þröngum húsakynnum í Höfðaborginni. Móður mín talaði fallega um barnæsku sína, og þá sérstaklega um „systur sínar“ þær Guðnýju og Unni, en þröngur efnahagur, hugsanlega skortur á þekkingu um mikilvægi menntunar ásamt þörf á því að eiga fyrir „salti í grautinn“ varð til þess að mamma tók að sér alvöru lífsins snemma í stað þess að afla sér menntunnar eða njóta lífsins á annan hátt áður en alvaran tæki við. Pabbi og við börnin erum náttúrlega ánægð með hvernig fór en gaman væri að vita hvað mamma, með allan sinn dugnað og skipulagsgáfur, hefði getað gert í lífinu ef hún hefði haft möguleika á að ganga menntaveginn, ferðast og fræðast um heiminn í nokkur ár. Mamma hugsaði ekki svona. Henni var alveg sama um sjálfa sig, bara að við krakkarnir værum ánægðir, þá var hún ánægð!

Mamma var bara 37 ára þegar hún eignaðist fyrsta barnabarnið sitt og hratt bættist í hópinn. Veit ég það að þau Erla María, Eddi, Einar, Ársæll, Kristján, Alexandra og Matthías, Orri, Sumarrós, Júlírós og Ásta áttu heimsins bestu ömmu og afa sem sinntu þeim endalaust á allan hátt. Hjá þeim áttu þau öll öruggt skjól þegar þau þurftu á því að halda eða bara langaði til. Auk þess voru þau mjög dugleg að fara í veiðitúra og sumarfrí með barnabörnum.

Hvíldu í friði elsku mamma, takk fyrir allar góðar minningar. Þú getur sofið rótt núna, við öll munum hugsa vel um pabba og alla aðra afkomendur þína.

Ársæll Kristófer.

Elsku amma mín.

Þá hefur þú kvatt þetta líf eftir langa og gleðiríka ævi. Þetta gerðist allt saman, að mér finnst, svo hratt eftir að þið afi ákváðuð

að flytja í bæinn. Allar minningarnar sem ég á með þér eru svo margar að það tæki marga daga að fara yfir þær allar. Allar sögurnar af ykkur afa sem ég á í minningabankanum mínum, mun ég segja um ókomna tíð. Ég mun geta málað svo góða mynd af þér við strákinn minn að það mun vera eins og að hann hafi fengið að upplifa þig eins og ég fékk að gera. Sterkari konu hef ég ekki kynnst og mun sennilega ekki gera. Öll sú viska sem ég fékk að gjöf

frá þér gerði mig að betri manneskju. Ég hefði ekki getað fengið betri ömmu að gjöf heldur en þig. Þú varst svo frábær og yndisleg kona. Ég er svo stoltur af því að geta sagt að þú hafir verið amma mín. Ég elska þig og mun sakna þín svo mikið. Takk fyrir allt saman.

Þitt barnabarn,

Einar Már.

Elsku amma.

Ég man eftir þegar þú komst til Svíþjóðar með fullt af íslensku nammi og gafst okkur. Þú bakaðir alltaf kleinur sem ég elskaði og gat borðað endalaust af. Vandamálið við að þú bakaðir svo góðar kleinur var að þær kláruðust svo fljótt og að þær voru miklu betri en þær sem maður getur keypt í búð.

Ég man líka eftir sumrinu 2019 þar sem ég fékk að vera einn hjá ykkur á Laufásnum í um það bil tíu daga. Þá hjálpaðir þú mér að fá að spila fótbolta með Víkingi í Ólafsvik sem mér fannst mjög gaman. Alltaf þegar ég kom heim af æfingum fékk ég góðan mat.

Nú veit ég ekki hvað ég á að gera ef pabbi er með eitthvert vesen. Ég er vanur að segja við hann: „Ég hringi bara i ömmu og læt hana tala við þig.“

Það var alltaf jafn gaman að hitta þig, þú varst alltaf tilbúin að hjálpa manni ef maður þurfti á hjálp að halda og ég mun sakna þín mjög mikið.

Orri Leifur.

Elsku amma.

Ég hlakkaði alltaf til að hitta þig. Ég man þegar ég og frænkur mínar vorum niðri í kjallara í marga klukkutíma að undirbúa herbergið fyrir þig og afa að sofa í. Þið komuð alltaf með íslenskt nammi handa okkur af því við áttum heima í Svíþjóð. Þú bakaðir bestu kleinur í heimi og á jólunum bökuðum við vanilluhringi. Ég man einu sinni þegar við bökuðum marengs. Um áramótin passaðir þú upp á að allir fengju partíhatta sem þú gafst okkur.

Mér fannst alltaf svo gaman þegar þú komst til okkar í Svíþjóð en mér fannst enn þá betra og skemmtilegra að koma á Laufás. Þar saumuðum við buddu saman. Þú sagðir „það fyrsta sem við gerum á morgun eftir morgunmat er að sauma“ en svo svaf Orri svo lengi inni í saumaherberginu að við þurftum að bíða með að sauma og við vorum allan daginn að sauma budduna.

Einu sinni vorum við með afa og Orra lengi úti að tína krækiber, og svo fengum við rosalega góða köku með rjóma og krækiberjum.

Okkur fannst alltaf svo gaman að spila, við vorum stundum marga daga að klára eitt spil og við spiluðum alls konar spil.

Við prjónuðum saman fyrstu húfuna mína með mynstri. Það var gaman að prjóna saman. Þú eldaðir líka rosalega góðan mat, uppáhaldið mitt var plokkfiskurinn og hamborgarhryggurinn.

Þú áttir svo marga hatta og við skemmtum okkur við að prófa þá alla á Laufási.

Það var gaman að vera með þér amma.

Þú varst ótrúlega góð amma og þú varst mjög góðhjörtuð.

Ég á eftir að sakna þín svo ótrúlega mikið, þú lifir áfram í minningum okkar.

Þín

Ásta Lovísa.

Mín elskulega systir Erla hefur lagt af stað í sitt síðasta ferðalag í þessari jarðvist, förinni er heitið í Sumarlandið þar sem enginn vafi er á að vel verði tekið á móti henni af þeim sem á undan eru gengnir.

Í næstsíðustu heimsókn minni til hennar á Landspítalann leist mér vel á hana, hún var vel tilhöfð eins og alltaf, málglöð og spjölluðum við heilmikið saman. Við áttum svo margt sameiginlegt systurnar, okkur fannst alltaf svo gaman að komast saman á smá trúnó en við vorum sammála um það að við hefðum haft allt of lítinn tíma saman í gegnum lífið.

Það er svo margs að minnast, t.d. er ógleymanleg ferð okkar systra Erlu, Ágústu, Þóru, Guðbjargar og Önnu Birnu til Spánar. Þar áttum við gæðastundir saman, lágum á ströndinni, borðuðum góðan mat, hlógum mikið og skemmtum okkur einstaklega vel. Dásamlegar stundir sem við höfum átt saman og lifa í minningunni.

Daginn áður en hún kvaddi fór ég til hennar á líknardeildina og þá var ljóst hvert stefndi, það var mikið af henni dregið. En alltaf heldur maður í vonina og ég hélt að við fengjum að hafa hana lengur hjá okkur.

Ég trúi því að þú fylgir okkur áfram og eins og Dante Alighieri skrifaði: „Ég er ekki dáinn; um bústað þó ég breyti, ég bý með þér og lifi, sem manst mig enn og grætur. Sál mín sem þú unnir, er saman þinni runnin.“

Megi almættið blessa þig mín elskaða systir, ég mun sakna þín og þú munt lifa í sálu minni um ókomin ár. Ég votta Ársæli, mínum kæra vini og mági, börnum, barnabörnum, systkinum mínum og fjölskyldum þeirra mína innilegustu samúð.

Guðfinna Anna Hjálmarsdóttir.