Haraldur Þór Halldórsson fæddist 21. maí 1948 í Neskaupstað. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 12. ágúst 2023 eftir skammvinn veikindi.

Foreldrar Haraldar voru Halldór Sigurður Haraldsson, f. 16. október 1921, d. 7. september 2004, og Sólveig Helga Björgúlfsdóttir, f. 26. ágúst 1925, d. 10. mars 2018. Systkini Haraldar eru: 1) Sigrún Halldórsdóttir, f. 30. ágúst 1952, gift Ágústi Ármanni Þorlákssyni, f. 23. febrúar 1950, d. 19. september 2011. Þau eiga saman þrjá syni og fimm barnabörn. 2) Björgúlfur Halldórsson, f. 20. apríl 1956, giftur Höllu Höskuldsdóttur, f. 8. október 1960. Eiga þau þrjú börn og sex barnabörn.

Haraldur Þór bjó alla sína tíð í Neskaupstað. Var mikill tónlistarunnandi og fylgdist vel með öllu því sem gerðist í fótboltaheiminum. Hann var ógiftur og barnlaus.

Útför Haraldar Þórs fer fram í Norðfjarðarkirkju í dag, 21. ágúst 2023, klukkan 13.

Mig langar að minnast elsku Halla frænda sem lést nýverið eftir stutt veikindi.

Halli frændi var í mínum huga rokkari, mikill áhugamaður um þungarokk og Bítlana og átti mikið plötusafn sem maður dáðist að ungur að árum og var hans gull. Eitt sumarið, þegar við Ingunn frænka vorum saman á Norðfirði og gistum í Starmýrinni, þá var Halli oft og iðulega inni í herbergi að hlusta á tónlist. Magnað fannst mér, fótboltaáhugastelpunni, þegar leikur var í enska boltanum og stofan full af körlum að horfa á leikinn. Halli hélt með sínu liði, Halldór með sínu, Bubbi með sínu og Ágúst með sínu. Leeds, Chelsea, Liverpool og Manjú eða hvaða lið það var í viðbót man ég ekki en allir höfðu þeir hátt og sínar sterku skoðanir. Í minningunni var þetta eitt það magnaðasta sem ég hef upplifað við að horfa á leik í enska boltanum.

Síðasta ferð mín austur var í september 2011 með Gullu og pabba er við fórum til að vera við jarðarför Ágústar. Okkur var boðið í hádegismat hjá Helgu og Halla. Þar var okkur boðið upp á dýrindis kjötsúpu með öllu tilheyrandi, nýjar kartöflur, hrísgrjón og karrýsósu, alveg að okkar stíl, og þetta var yndislegt boð, góður matur og mikið spjallað. Alltaf gott að koma í heimsókn í Starmýrina. Mikið var okkur fjölskyldunni brugðið þegar snjóflóðin féllu í mars sl. og á blokkina í Starmýri þar sem Halli frændi bjó. Við fengum fréttir reglulega af okkar fólki og Halli flutti ekki aftur í húsið. Fyrir um rúmum tveimur vikum fengum við að vita að flytja ætti hann suður á sjúkrahús. Ekki gafst tækifæri á að heimsækja hann þar eins og við vorum að vonast til, hann var fluttur austur aftur nokkrum dögum síðar. Næst fengum við þær fréttir að Halli væri látinn.

Elsku Halli frændi minn var duglegur að hringja í mig, frænku sína, þegar Halli minn lést og mér þótti mjög vænt um það. Ég var ekki dugleg að hringja til baka og þykir það miður en þótti mikið vænt um að hann og Guðný frænka töluðust við í síma daglega, þau áttu gott samband sem ber að þakka fyrir.

Elsku Sigrún, Bubbi og fjölskyldur, hjartans samúðarkveðjur frá okkur systrum og fjölskyldum.

Það er við hæfi að enda þessi orð með broti úr ljóði sem pabbi setti alltaf í sínar minningargreinar.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Valdimar Briem)

Þín frænka,

Ragna Ársælsdóttir.