Úrkomumet Bifreiðar í vatnselg á götu í Palm Springs í gærdag.
Úrkomumet Bifreiðar í vatnselg á götu í Palm Springs í gærdag. — AFP/Mario Tama
Fellibylurinn Hilary eys nú steypiregni yfir Suður-Kaliforníu sem aldrei fyrr og mældist hálfrar tommu, um 1,25 sentimetra, úrkoma á alþjóðaflugvellinum í San Diego í gær sem að sögn Robert Krier, fyrrverandi veðurfréttamanns San Diego Union-Tribune …

Fellibylurinn Hilary eys nú steypiregni yfir Suður-Kaliforníu sem aldrei fyrr og mældist hálfrar tommu, um 1,25 sentimetra, úrkoma á alþjóðaflugvellinum í San Diego í gær sem að sögn Robert Krier, fyrrverandi veðurfréttamanns San Diego Union-Tribune til margra ára, gerir daginn að þeim votviðrasamasta í ágúst í 46 ár þar á svæðinu.

Hilary er þó rétt að koma inn yfir Suður-Kaliforníu og vara veðurfræðingar við því að votviðrið í gær hafi aðeins verið byrjunin á því sem koma skuli.

Flugfélögin Soutwest Airlines og Frontier Airlines hafa aflýst flugferðum um Suður-Kaliforníu, það fyrrnefnda að hluta en Frontier aflýsti öllu sínu flugi frá klukkan tólf á hádegi í gær að staðartíma og þar til hálfellefu í morgun.

Í San Diego fellur skólahald niður í dag, fyrsta skóladag haustannar, en reiknað er með að börnin fái að taka fyrsta daginn á morgun í staðinn aö sögn skólayfirvalda í borginni. Þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi var Hilary stödd 185 kílómetra suð-suðaustur af San Diego og færðist í norðurátt með um 37 kílómetra hraða á klukkustund en vindhraði fellibylsins var rúmlega 96 kílómetrar.

Gavin Newsom ríkisstjóri hélt á vettvang í gær og dreifði hlífðarbúnaði meðal landbúnaðarverkamanna sem skipta hundruðum þúsunda í Kaliforníu. Þar starfa eitthvað á milli þriðjungs og helmings allra landbúnaðarverkamanna landsins.

Í Los Angeles sendu heilbrigðisyfirvöld út aðvörun um hugsanlegt aukið bakteríumagn í sjónum sem reikna mætti með í kjölfar gríðarmikillar úrkomu. Orsökin væri sú að klóakafrennsli frá heimilum og fyrirtækjum rynni út í sjóinn og blandaðist regnvatninu. Hvöttu yfirvöld borgarbúa til að forðast alla snertingu við sjóinn í þrjá sólarhringa eftir úrhellið sem væri fylgifiskur Hilary.