Þróttur Pakkarnir bornir út. Hagkerfi BNA virðist hafa náð ágætis takti.
Þróttur Pakkarnir bornir út. Hagkerfi BNA virðist hafa náð ágætis takti. — AFP/Spencer Platt
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Undanfarnar vikur og mánuði hefur verið stöðugur straumur af áhugaverðum fréttum úr bandaríska hagkerfinu. Ber þar hæst að matsfyrirtækið Fitch lækkaði lánshæfismat ríkissjóðs Bandaríkjanna, og sendi bandarískum stjórnvöldum pillu um leið, og að…

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Undanfarnar vikur og mánuði hefur verið stöðugur straumur af áhugaverðum fréttum úr bandaríska hagkerfinu. Ber þar hæst að matsfyrirtækið Fitch lækkaði lánshæfismat ríkissjóðs Bandaríkjanna, og sendi bandarískum stjórnvöldum pillu um leið, og að hlutabréfaverð bandarísku tæknirisanna hefur fikrað sig niður á við eða staðið í stað eftir miklar hækkanir á fyrri helmingi ársins.

Magnús Sigurðsson fjárfestir er meðstofnandi og stjórnandi fjárfestingasjóðsins og tæknifyrirtækisins Systematic Ventures í New York og fylgist manna best með þróun markaða vestanhafs.

„Fyrstu sex mánuðir ársins einkenndust af verulegum hækkunum á hlutabréfamörkuðum og var þróunin einkum drifin áfram af stóru tæknifyrirtækjunum, s.s. Google, Facebook, Amazon og loks Nvidia sem tók mikinn kipp,“ segir Magnús. Hann minnir á að flest þessara fyrirtækja eigi það sameiginlegt að hlutabréfaverð þeirra hækkaði mikið í kórónuveirufaraldrinum en lækkaði skarplega að faraldrinum loknum samhliða versnandi vaxtarhorfum.

Má m.a. skrifa velgengni tæknigeirans á mikinn og skyndilegan áhuga fjárfesta á gervigreindartækni og segir Magnús að útgáfa forrita á borð við ChatGTP hafi markað kaflaskil. „Fjöldi fyrirtækja hefur unnið að þróun gervigreindar um árabil en snemma á þessu ári sáum við fjölda nýrra gervigreindarforrita líta dagsins ljós og valda viðhorfsbreytingu. Áttu þessi forrit það sameiginlegt að virka vel og verða vinsæl hjá almenningi. Augu fólks opnuðust fyrir því hvaða tækifæri gervigreind mun hafa í för með sér, sem olli því að verðvæntingar markaðarins breyttust.“

Sleppa við samdrátt

Þá er athyglisvert að ávöxtunarkrafa bandarískra langtímaskuldabréfa hefur farið hækkandi undanfarnar tvær til þrjár vikur og segir Magnús að þar kunni að vera komin skýringin á því að hlutabréfaverð tæknifyrirtækjanna hefur gefið eftir. Bendir hann á að verðmat fyrirtækja í tæknigeiranum byggist að langstærstu leyti á væntum framtíðartekjum og viðbúið sé að þegar vextir langtímaeigna á borð við skuldabréf fara hækkandi, minnki áhugi fjárfesta á að veðja á tekjumyndun tæknigeirans.

„Bandaríska hagkerfið hefur reynst ótrúlega harðgert og benda hagtölur núna til þess að það hafi tekist að forða Bandaríkjunum frá harkalegu samdráttarskeiði. Sérfræðingar bandaríska seðlabankans eru hættir að spá því að samdráttarskeið sé í vændum og reikna frekar með að hagkerfið haldi áfram að vaxa. Eins virðist verðbólgan á niðurleið,“ segir Magnús.

„Er ávöxtunarkarfa 10 og 30 ára skuldabréfa að hækka á meðan skuldabréf til eins og tveggja ára hafa staðið í stað og kann skuldabréfamarkaðurinn að vera að gefa til kynna væntingar um meiri hagvöxt í framtíðinni og meiri verðbólgu til langs tíma, þó svo að verðbólga kunni að gefa eftir til skamms tíma.“

Þessu tengt minnir Magnús á að í kjölfar kórónuveirufaraldursins hafi mörg fyrirtæki reynt að breyta aðfangakeðjum sínum til að verja sig gegn mögulegum stóráföllum. „Í stað þess að fá aðföng sín frá þeim sem býður lægsta verðið hverju sinni kaupa fyrirtæki aðföngin frekar frá framleiðendum í löndum sem treysta má að séu vinveitt Bandaríkjunum. Með þessu móti er ekki sama ofuráhersla á að ná fram eins lágu verði og mögulegt er sem hlýtur að hafa hærri kostnað í för með sér og ætti að þýða hærra verð til neytenda.“

Titringur í Kína og hjá Fitch

Svo virðist að þróun mála í Kína geti líka mótað horfurnar í bandarísku efnahagslífi og eru margir sem hafa áhyggjur af vaxandi spennu í málefnum Taívans. Magnús telur litlar líkur á að hernaðarátök brjótist út, en að Kína glími núna við vandamál m.a. vegna mikillar skuldasöfnunar. „Þá sýna nýjustu tölur að fimmti hver Kínverji á aldrinum 16 til 24 ára er án atvinnu og bendir það til þess að hagkerfið sé ekki í góðri stöðu. Hins vegar eru Kínverjar þekktir fyrir að horfa langt fram á veginn í allri sinni stefnumótun og eins býr landið að því að kínverskt vinnuafl er bæði snjallt og athafnasamt og er leitun að landi með sterkari vinnumenningu.“

Um breytt lánshæfismat Fitch segir Magnús að allt það sem fram hafi komið í greinargerð matsfyrirtækisins sé hárrétt, en erfitt sé að skilja hvers vegna lækkunin hafi komið einmitt núna. „Það var enginn sérstakur hvati fyrir þessari breytingu. Reglulega hafa repúblikanar og demókratar t.d. tekist á um hækkun skuldaþaks ríkissjóðs, sem Fitch gerði að umtalsefni. Við fyrstu sýn var ekki að sjá að breyting Fitch hefði haft nein áhrif en þó er ekki útilokað að þær breytingar sem við höfum séð á ávöxtun langtímaskuldabréfa stafi að hluta til af ákvörðun Fitch.“

Hefur augastað á tæknigeira

Spurður um þau tækifæri og áhættu sem bíða fjárfesta á komandi mánuðum segir Magnús að í augnablikinu bíði hann átekta. Hlutabréfamarkaðurinn hafi verið að fikra sig niður á við en gæti verið við það að ná botni og væri þá vert að gefa tæknifyrirtækjunum aftur gaum. „Það mætti þá taka áhættu með fjárfestingu í þeim og hugsa ég að slík viðskipti endi vel jafnvel þó að bíða þurfi í hálft ár til tvö ár eftir að hækkanir komi að fullu fram.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson