Hrútadómar Þuklað var af kappi á Íslandsmeistaramótinu í gær.
Hrútadómar Þuklað var af kappi á Íslandsmeistaramótinu í gær. — Ljósmynd/Ester Sigfúsdóttir
Árlegt Íslandsmeistaramót í hrútadómum var haldið í gær á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum. Mótið á stórafmæli í ár en 20 ár eru liðin frá því að Strandamenn fundu upp á þessari einstöku keppnisgrein

Agnar Már Másson

agnarmar@mbl.is

Árlegt Íslandsmeistaramót í hrútadómum var haldið í gær á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum. Mótið á stórafmæli í ár en 20 ár eru liðin frá því að Strandamenn fundu upp á þessari einstöku keppnisgrein.

Hrútadómar eru iðkaðir þannig að dómnefnd velur hrúta og raðar þeim í gæðaröð fyrir fram. Keppnin er þó ekki milli hrútanna sjálfra, heldur eiga keppendur að meta hrútana með eigin hendur og hyggjuvit, og ekki síst þukl, að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir.

Jón Viðar Jónmundsson var yfirdómari að þessu sinni. Alls kepptu 63 þátttakendur á mótinu í ár, 26 vanir þuklarar og 37 óvanir. Sigurvegari í flokki vanra keppanda og Íslandsmeistari í hrútadómum er Jón Stefánsson frá Broddanesi. Í flokki óvanra þuklara var það Fanney Gunnarsdóttir frá Stóra-Holti í Fljótum sem bar sigur úr býtum.

„Það var bara mjög góð stemning, skemmtilegur dagur þar sem maður hitti marga, og það er svolítið það sem þetta snýst um líka,“ segir Ester Sigfúsdóttir, forstöðumaður Sauðfjársetursins á Ströndum, og bætir við að hátt í fjögur hundruð manns hafi lagt leið sína á svæðið til að fylgjast með mótinu.

Höf.: Agnar Már Másson