Hetjur Hátt í 90 slökkviliðsmenn tóku þátt í því verkefni að ráða niðurlögum eldsins og voru að fram á nótt.
Hetjur Hátt í 90 slökkviliðsmenn tóku þátt í því verkefni að ráða niðurlögum eldsins og voru að fram á nótt. — Morgunblaðið/Kristján Johannessen
Iðnaðarhúsnæði við Hvaleyrarbraut 22 brann til kaldra kola í gær. Töluverður fjöldi fólks bjó í húsnæðinu ólöglega. Eldurinn kviknaði rétt eftir hádegi og var allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kallað út

Anton Guðjónsson

Hermann Nökkvi Gunnarsson

Iðnaðarhúsnæði við Hvaleyrarbraut 22 brann til kaldra kola í gær. Töluverður fjöldi fólks bjó í húsnæðinu ólöglega. Eldurinn kviknaði rétt eftir hádegi og var allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kallað út. Tæplega 90 slökkviliðsmenn komu að aðgerðinni. Búið var að ná tökum á eldinum seint í gærkvöldi þegar Morgunblaðið fór í prentun. Þá var gert ráð fyrir því að slökkviliðsmenn myndu halda áfram störfum fram yfir miðnætti en talið er að allir íbúar hafi sloppið heilir á húfi úr brunanum.

Hvaleyrarbraut 22 er ekki skráð sem íbúðarhúsnæði heldur iðnaðarhúsnæði. Í þjóðskrá er enginn einstaklingur skráður þar til heimilis, aðeins tvö fyrirtæki. Nákvæmar tölur um það hversu margir bjuggu í húsinu liggja ekki fyrir en Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, sagði við Morgunblaðið í gær að eftir því sem slökkviliðið hefði komist næst hefðu á bilinu 17-19 manns búið þar.

Helgi Gunnarsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir við Morgunblaðið að ekki sé búið að ákveða hvort efnt verður til sakamálarannsóknar en að rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fundi klukkan 8 í dag til að fara yfir staðreyndir málsins. Sumt sé þó enn óljóst.

Slökkviliðsmenn börðust eins og fyrr segir klukkutímum saman við eldinn og nýttu stórvirkar vélar til verksins. Erfiðlega gekk að slökkva eldinn þar sem eldvörnum hússins var ábótavant.

Ævar Hjartarson, formaður húsfélags við Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði, sagði við Morgunblaðið að hann hefði orðið fyrir miklu tjóni. Sagði hann að annar eigandi að hluta húsnæðisins hefði breytt húsnæðinu með þeim hætti að eldvarnarveggur virkaði ekki sem skyldi. Þannig hefði eldurinn átt greiðari leið um húsið og inn í þann hluta sem hann átti af húsinu. Breytingarnar sem um ræðir voru á skjön við lög að sögn Ævars.