Eiríkur Bjarnar Stefánsson fæddist á Akureyri 12. febrúar 1930. Hann lést laugardaginn 5. ágúst 2023 á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð á Akureyri.

Foreldrar Eiríks voru hjónin Oddný Ingibjörg Eiríksdóttir og Stefán Vilmundarson. Bræður Eiríks eru Guðmundur Bjarnar og Páll Bjarnar.

Eiginkona Eiríks var Hólmfríður Þorláksdóttir, fædd 26. júlí 1921. Þau giftust í febrúar 1950. Hólmfríður lést 2. febrúar 2005.

Börn Eiríks og Hólmfríðar eru:

1) Ingibjörg, gift Sævari Gunnarssyni. Börn þeirra eru a) Sævar Þór Sævarsson, giftur Magneu Freyju Kristjánsdóttur, dætur þeirra eru Edda Sólborg og Íris Freyja, b) Þorgerður, sambýlismaður hennar er Þórólfur Sveinsson. Dóttir Þorgerðar er Andrea Björg Elmarsdóttir.

2) Anna, gift Magnúsi Sigurðssyni. Synir Önnu eru a) Eiríkur Bjarnar Kjartansson, sambýliskona hans er Guna Kalma. Börn Eiríks eru Andrés Bjarnar og Anna María, b) Haukur Dór Kjartansson. Hann er kvæntur Erlu Jónsdóttur. Börn Hauks eru Anna Helena, Valentína Björk, Kató Birnir og Hilmar Thor.

3) Þorgerður Sigríður sem lést 1972.

4) Þorsteinn Stefán. Börn hans eru a) Davíð, sambýliskona hans er Angelica Lawino. Sonur Davíðs er Daníel Alex, b) Garðar, kona hans er Rannveig Sigurðardóttir, dóttir þeirra er Birta María, c) Ragna Dögg.

5) Reynir Bjarnar, kvæntur Rannveigu Kristinsdóttur. Börn þeirra eru a) Kristín Hólm, sem gift er Guðmundi Hermannssyni, dætur þeirra eru Rannveig Sara, Elín Harpa og Katrín Brynja, b) Ottó Hólm, sambýliskona hans er Sonja Geirsdóttir, börn þeirra eru Hólmfríður María, Andri Geir og Anna Röfn.

Eiríkur var húsasmíðameistari. Hann stofnaði og rak trésmíðaverkstæðið Þór ásamt Rafni Magnússyni um áratugaskeið en seldi hlut sinn í fyrirtækinu árið 1984.

Eiríkur söng mikið á lífsleiðinni og var frá 18 ára aldri í Karlakór Akureyrar. Síðar var hann í Kirkjukór Lögmannshlíðarsóknar um áraraðir og í Kór aldraðra á Akureyri í mörg ár frá stofnun. Í áratugi söng Eiríkur við jarðarfarir og þá söng hann með ýmsum söngvurum á skemmtunum um langan aldur.

Eiríkur var virkur í safnaðarstarfi Glerárkirkju. Hann var í byggingarnefnd kirkju og byggingastjóri hennar.

Útför Eiríks verður frá Glerárkirkju í dag, 21. ágúst 2023, klukkan 13.

Einn öflugasti hvatamaður að byggingu Glerárkirkju hefur kvatt þetta jarðlíf. Eiríkur Stefánsson var einstakur mannkostamaður. Hann var rólegur og yfirvegaður, hreinskiptinn og fastur fyrir. Það fór orð af handbragði hans sem smiðs og svo þekktu menn söngvarann Eirík, sem var sannur listamaður. En ofar öllu var hann sannur og traustur vinur.

Ég kynntist Eiríki þegar ég var ungur drengur að slíta barnsskónum fyrir norðan. Eiríkur var einn þeirra sem gáfu sér tíma til að tala við ungan dreng og sinna forvitninni í honum.

Það var svo þegar guttinn ungi var kjörinn til prestsþjónustu í nýstofnuðu Glerárprestakalli að leiðir okkur lágu daglega saman. Eiríkur var burðarás í kirkjukórnum og hann kom í byggingarnefnd Glerárkirkju og það var mikil gæfa fyrir söfnuðinn. Nær daglega var hann í sambandi við arkitekt kirkjunnar, Svan Eiríksson, og þeir lögðu á ráðin um það hvað best væri.

Svanur teiknaði hægt og gerði mörg riss að formi og skipulagi. Eiríkur teiknaði líka nokkrar útgáfur að nýrri kirkju og lagði fyrir arkitektinn, sem í fyrstu var tregur til að skoða þær. En arkitektinn sá fljótt að þarna var hagleiksmaður að teikna, sem í áratugi hafði starfað í kirkjum og þekkti vel til þess sem þar þurfti vel að fara.

Það var gaman að sjá þá félaga vinna að verkinu. Heyra þá takast á um stefnur og leiðir og heyra þá fussa hraustlega inn á milli. Við hin í byggingarnefndinni sáum að verkið var í góðum höndum. Þessar heitu samræður voru að kalla fram það sem skapaði traustan grunn. Það var fundað reglulega, farið í vettvangsferðir og upp úr þessu skemmtilega samstarfi urðu til teikningar að kirkju, sem ráðist var í að byggja. Það er sjálfsagt hættulegt að segja besta kirkjan í skipulagi og umgjörð en það má segja sú næstbesta.

Þegar verkið hófst var Eiríkur byggingarstjóri og var vakinn og sofinn um verkið. Fólkið í prestakallinu var duglegt að koma og leggja fúsar hendur til verksins og í þessu samstillta átaki reis fagur helgidómur sem tekinn var í notkun í áföngum. Alltaf var Eiríkur og í raun fjölskylda hans öll nálæg.

Aldrei verður þökkuð að fullu sú blessun, sem söfnuðurinn naut að eiga að mann sem Eirík Stefánsson. Hann mætti fyrstur á morgnana, fór í sundið og kom ferskur og fylgdist með út daginn. Á kvöldin voru kóræfingar, messur um helgar auk athafna á virkum dögum. Sannarlega maður kærleika, þjónustu og velvilja.

Eiríkur var ófeiminn að segja sína skoðun. En það vissu allir að það allt var sagt af heilindum og það fylgdi alla tíð hvatning og hlýr hugur.

Í hvert sinn þegar við horfum heim að Glerárkirkju finnst okkur aðeins eitt vanta, en það er Mazdan hans Eiríks, sem okkur finnst að hafi alltaf staðið fyrir utan kirkjuna, og hægt að ganga að honum vísum þar inni.

Þegar við Unnur heimsóttum hann síðast þar sem hann dvaldi í Lögmannshlíð í nágrenni kirkjunnar fundum við að hann hafði elst. En það var sami áhuginn, sami viljinn og þessi sterka trú að ekkert væri ómögulegt með Guðs hjálp og góðra manna. Það var þessi trú hans sem reisti Glerárkirkju og okkar litla orð takk getur aldrei sagt allt sem segja ætti til þakklætis.

Börnum hans, Ingu, Önnu, Tolla og Reyni, og fjölskyldum þeirra sendum við hlýjar kærleikskveðjur.

Guð blessi minningu Eiríks Stefánssonar.

Unnur og
Pálmi Matthíasson.

Í dag er til moldar borinn Eiríkur Stefánsson, byggingarmeistari og söngvari. Hann var einn þeirra sem fyrir hönd Lögmannshlíðarsóknar á Akureyri voru tilnefndir í byggingarnefnd Glerárkirkju sem hafði það að aðalmarkmiði að finna lóð fyrir kirkju í Glerárhverfi en nokkrar nefndir höfðu árin á undan verið skipaðar í sama tilgangi en án árangurs. Séra Pálmi Matthíasson hafði þá nýlega verið kjörinn sóknarprestur í Lögmannshlíðarsókn og vorum við þrír gerðir út af örkinni til að ræða við stjórn Sjálfsbjargar um að gefa eftir lóðina sem Glerárkirkja stendur á en Akureyrarbær hafði gefið Sjálfsbjörg vilyrði fyrir lóðinni. Hjá Sjálfsbjörg mættum við einstakri velvild og hlýhug og að uppfylltum öllum formsatriðum var lóðinni úthlutað á ný og nú til Lögmannshlíðarsóknar. Það var mikið lán fyrir Lögmannshlíðarsókn þegar Eiríkur féllst á að vera eftirlitsmaður fyrir hönd sóknarinnar með byggingu Glerárkirkju, sem hófst árið 1984. Hann hafði yfirgripsmikla þekkingu á öllu sem að húsbyggingum lýtur, var sérstaklega skipulagður og átti létt með að hrífa alla með sér sem tóku þátt í þessu stóra verkefni. Hann var einstakt prúðmenni, sístarfandi og gaf sig allan í verkið.

Ég hef oft hugsað um það undanfarin ár hver staða byggingarinnar væri ef Eiríks hefði ekki notið við. Það var ekki síst honum að þakka hve byggingartími kirkjunnar var stuttur, sem helgaðist af góðri skipulagningu og áhuga sóknarbarna. Þá verður ekki fram hjá því gengið að um áraraðir var Eiríkur í kirkjukórnum og djúpa og sterka bassaröddin hans naut sín þar sérlega vel.

Það var einstök upplifun að fá að starfa með Eiríki Stefánssyni að byggingu Glerárkirkju. Nú þegar leiðir skilur þökkum við honum fyrir allt sem hann lagði á sig fyrir söfnuð kirkjunnar.

Ingi Þór Jóhannsson,
formaður byggingarnefndar frá 1983-1991.