Gerða Eiríksdóttir fæddist í Reykjavík 30. mars 1934. Hún lést á líknardeildinni á Landakoti 8. ágúst 2023.

Foreldrar Gerðu voru Eiríkur Eiríksson, f. 1. apríl 1894, d. 18. júní 1942, og Ingibjörg Guðmundsdóttir, f. 19. ágúst 1900, d. 26. október 1999. Systkini Gerðu sammæðra: 1) Reynir Geirsson, f. 27. ágúst 1920, d. 24. maí 1994. 2) Sverrir Kjartansson, f. 8. maí 1924, d. 28. ágúst 2013. 3) Haraldur Þórðarson, f. 5. janúar 1927, d. 11. febrúar 2010. 4) Ingibjörg Þórðardóttir, f. 23. maí 1928.

Dóttir Gerðu er Eyrún Inga Pétursdóttir, f. 26. september 1955. Eiginmaður hennar er Pétur Rafn Sveinsson, f. 9. maí 1957. Börn Eyrúnar og Péturs eru: 1) Eiríkur Ari, f. 10. október 1980. 2) Rebekka Sif, f. 10. desember 1982. Dætur hennar eru a) Selma Sif, f. 2. mars 1999, b) Sara Rós, f. 15. maí 2005. 3) Kristín Inga, f. 15. apríl 1987. Fyrir átti Eyrún Inga dótturina Gerðu Björgu, f. 23. ágúst 1974. Börn hennar eru a) Elísa Líf, f. 8. ágúst 1994, eiginmaður hennar er Ruaridh Wilson. Dóttir þeirra er Gígja Skye, f. 7. mars 2019. b) Helena Ósk, f. 3. febrúar 1996. Dóttir hennar er Saga Olivia, f. 27. október 2018. c) Óskar Þór, f. 18. september 1999. d) Bjarki Þór, f. 23. júlí 2009. Eiginmaður Gerðu Bjargar er Björgvin Trausti Guðmundsson.

Gerða bjó stærstan hluta ævi sinnar á Flókagötu 3 í Reykjavík eða frá 3 ára aldri. Hún hóf fljótlega störf á vinnumarkaði að lokinni grunnskólagöngu frá Austurbæjarskóla. Hún réði sig sem kaupakonu í sveit til útistarfa fermingarsumarið og hóf störf í Hampiðjunni í kjölfarið þar sem hún starfaði í nokkur ár. Starfaði síðan sem afgreiðslustúlka í kjörbúð á Skólavörðustíg þar til hún eignaðist dóttur sína árið 1955. Þá hóf hún störf við upptökuheimilið Elliðahvammi. Árið 1956 réði hún sig í Þjóðleikhúsið sem aðstoðarstúlku Eriks Bidsted ballettmeistara en ári síðar tók hún við starfi dyravarðar hjá Þjóðleikhúsinu og starfaði þar allt til ársins 1982. Samhliða dyravarðarstarfinu starfaði hún sem klíníkdama frá árinu 1960 á tannréttingastofu Þórðar Eydal Magnússonar, tannréttingasérfræðings og síðar hjá Berglindi Jóhannsdóttur á tannréttingaklíníkinni til loka ársins 2000. Gerða æfði sund með KR á yngri árum, keppti í sundi og uppskar verðlaunapeninga en einnig æfði hún og sýndi sundballett í Sundhöll Reykjavíkur. Þegar eiginlegri starfsævi var lokið hóf hún að stunda útskurð og naut þess að mála á postulín. Þeir eru ófáir hlutirnir, sem hún hefur gefið fjölskyldu sinni og prýða einnig heimili hennar. Ekki má gleyma óstöðvandi fótboltaáhuga hennar, fylgdist með öllum leikjum sem hún hafði tök á og var Liverpool ávallt hennar lið og uppáhald.

Útför Gerðu fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 21. ágúst 2023 og hefst athöfnin kl. 13.

Þær systur gleði og sorg bönkuðu heldur harkalega upp á þann 8. ágúst sl. þegar elsku hjartans amma mín lést á 29 ára afmælisdegi Elísu minnar. Ég hafði vitað í nokkurn tíma að von væri á annarri þeirra en aldrei grunaði mig að þær kæmu saman.

Elsku, elsku amma mín, mikið svakalega er erfitt að kveðja þig. Ég hélt í alvöru að ég fengi að hafa þig hjá mér í a.m.k. 5 ár í viðbót, allavega fram yfir nírætt enda stefndum við á að halda gott partý á næsta ári þegar þú yrðir 90 ára og ég 50 ára.

Ekki eru allir jafn heppnir að eiga og hafa átt ömmu eins og ég átti í þér. Ég ólst upp hjá þér á Flókó til 6 ára aldurs ásamt mömmu og Böddu langömmu og eftir það varð Flókó mitt annað heimili. Aldrei var sagt nei við bón um að gista, ég fékk endalaust af cocoa puffsi, nammi eins og ég gat í mig látið, besta spaghettí í heimi og ekki má gleyma flysjuðu eplunum, hvað þá öllu kexinu. Sundferðir, bíóferðir, Þjóðleikhúsið, tívolí, sjónvarpsgláp, ferðalög, að ógleymdum öllum Andrésar Andar blöðunum. Að ég tali nú ekki um bíltúrana okkar, ferðirnar í kirkjugarðana, fótboltann og nýárstónleika Sinfó. Á menntaskólaárunum og í háskólanámi mínu bjó ég nær undantekningarlaust hjá þér í öllum prófatörnum. Þegar ég flutti svo í sveitina í fyrra gisti ég hjá þér ef veðurspáin var slæm. Þegar við vissum í hvað stefndi í vor gisti ég hjá þér í hverri viku þar til þú fórst á líknardeildina. Síðasta daginn þinn og kvöldið þitt hafði ég ákveðið að gista hjá þér, vildi ekki að þú værir ein. Ég kyssti þig góða nótt, sagði að við skyldum horfa á einn þátt af breskum sakamálaþætti, einum af þínum uppáhalds, áður en við færum að sofa. Þú kvaddir mig hins vegar óvænt að nýloknum þætti með svefninum langa, rétt í þann mund sem næturhúmið lagðist yfir gullfallegt sólsetrið og kreditlistinn rúllaði í bakgrunninum.

Þú varst skjólið mitt, öryggið mitt, þú gerðir hversdagsleikann að ævintýri. Þú elskaðir mig algjörlega skilyrðislaust, spurðir alltaf hvað væri að frétta og hafðir óþrjótandi áhuga á mér og mínum. Þú kenndir mér að alveg sama hvað gerist í lífinu þá verðum við alltaf að halda áfram. Það þýðir ekkert að stoppa úti í miðri á og gefast upp gagnvart vatnsflaumnum. Lífið heldur alltaf áfram. Þannig er það líka núna.

Ég trúi því að þú hafir fengið bestu móttökur sem hægt er að fá á nýjum stað. Að Kata vinkona og Badda langamma hafi knúsað þig, Garðar Cortes smellt á þig kossi og Raggi Bjarna sungið lag Liverpool ásamt fríðu föruneyti karlakórs. Og að fyrir þér hafi verið skálað í góðum bjór með æsispennandi leik Liverpool og Man. United, nú eða Arsenal.

Ég mun sakna þín sárt og innilega það sem eftir lifir ævi minnar og hlakka óendanlega mikið til að hitta þig aftur. Ég mun líta eftir þér í háloftunum á fimmtugsafmælinu mínu og hver veit nema flugtímarnir verði fleiri en einn. Og já, ég náði blikkinu.

Hafðu þökk fyrir allt og allt,

Gerða Björg.

Elsku Gerða frænka, nú kveðjumst við um hríð eftir langa og skemmtilega sögu saman, alveg frá því að mamma flutti með mig sem ungabarn til pabba í nýju risíbúðina á Flókagötunni. Þar varst þú, amma Ingibjörg og Eyrún litla dóttir þín á fyrstu hæðinni og tókuð okkur opnum örmum. Þú þurftir alltaf mikið að vinna til að halda heimilinu gangandi, við tannsmíðar á daginn og við dyrnar í Þjóðleikhúsinu um kvöld og helgar. Á Flókagötunni voru opnar dyr fyrir fjölskyldu og vini á öllum hæðum og þú varst alltaf jafn ánægð að taka þátt þegar þú áttir frídaga. Ég man svo vel eftir þegar þú keyptir fyrsta sjónvarpstækið og fékkst loftnet á reykháfinn til að ná Kanasjónvarpinu, þá var nú spennandi að koma í heimsókn og horfa á Bonanza, Lucy Ball og margt annað. Þér fannst svo gaman að horfa á bíómyndir á kvöldin og það breyttist ekkert þó árin liðu. Hvort varst það þú eða Eyrún sem vildi lesa hvert einasta blað af Andrési Önd? Skiptir ekki máli, þú keyptir áskrift að þessum
dýrmætu blöðum og settir í möppur í neðstu hillurnar, og þar sátum við öll frændsystkinin hugfangin af ævintýrunum, og svo börnin okkar og barnabörn alveg fram á þennan dag.

Ferðalögin lifa sterkt í minningunni, frá því að við eignuðumst fyrsta bílinn og pabbi var stöðugt með hugmyndir um göngutúra og útilegur. Þegar þú gast komið með var gleðin svo greinileg, það opnaðist nýr heimur fyrir okkur öllum og við tengdum skemmtilega samveru við nýtt landslag og spennandi ævintýri. Þegar léttist á vinnunni hjá þér var ég flutt til Bandaríkjanna og þá var spennandi tækifæri að koma til mín með Halla og Maddí og skoða sig um í heimi bíómyndanna. Svo voru stundum verkefni í gangi, við máluðum nýja glugga í húsinu mínu í steikjandi sól, og þú hjálpaðir við að mála í kirkjunni okkar, alltaf með brosið og góða skapið á sínum stað. Ferðin okkar um Alaska var sérstök, heil vika að skoða hrikalegt landslagið, grizzly bangsar að borða villiberin, árnar fullar af laxi og stærstu kálhausar í heimi í görðunum. Svo fundum við þorpið sem kallar sig North Pole og þar var auðvitað jólaskrautsbúð þar sem þú skoðaðir allt í krók og kima, þú varst mikið jólabarn. Það var notalegt þegar þú komst bara ein til okkar og við skoðuðum Ólympíuskagann, Vancouver-eyju og margt annað, og nutum þess að fá okkur bjór með kvöldmatnum og góðan ís á eftir.

Við kveðjumst um stund, þú ferð og finnur ömmu Ingibjörgu og allt fólkið okkar sem fór á undan og skilar kveðju frá okkur. Eftir er stór hópur af fólki á öllum aldri sem mun sakna þín mikið því að þú varst svo trygg, skemmtileg og gjafmild kona. Þar til við hittumst aftur mun þín bjarta minning lýsa okkar veg.

Áslaug Haraldsdóttir.