Jón Gissurarson skrifar á Boðnarmjöð á miðvikudag: Þrátt fyrir smávægilega skúri framan af degi hefur veðrið verið gott í allan dag. Þegar þetta er ritað klukkan að verða 10 að kveldi er hitastigið úti 12 gráður, fór mest í 15 gráður í dag

Jón Gissurarson skrifar á Boðnarmjöð á miðvikudag: Þrátt fyrir smávægilega skúri framan af degi hefur veðrið verið gott í allan dag. Þegar þetta er ritað klukkan að verða 10 að kveldi er hitastigið úti 12 gráður, fór mest í 15 gráður í dag. Vindur andar af vestri 3 m á sek. fór mest í 13 metra á sek. í dag. Loftvog stendur í 1015,5 hpa. Úrkoma hefur verið svo lítil að hún hefur ekki mælst. En útsýnið er fallegt.

Útsýnið hér ekki dvín

allt í kringum bæinn

yljar mér sem eðalvín

allan heila daginn.

Jón Atli Játvarðarson bætti við:

Vindur andar vestri af,

vatni landa skúrir nett.

Gulan sand við glóir haf,

glitrar bandið perlum sett.

Og Ágúst H. Bjarnason:

Ekki bauðstu upp á vín

allar vorar stundir;

aðeins fagra yfirsýn

út um koppagrundir.

Gaman var og gott að sjá

grænar spildur jarðar.

Verður ertu vísu’ að fá,

vörður Skagafjarðar.

Reinhold Richter yrkir:

Stundum þegar það sem má

þvælist fyrir röngu;

óvart verður okkur þá

á á lífsins göngu.

Indriði á Skjaldfönn sagðist ekki muna eftir að hafa áður séð tvö „á á saman“. Því svaraði Bergur Torfason svo: Hugdetta:

Jón á Á, á á sem varð

það á á lífsins göngu

að fara á ána ofan við Skarð

á ærgötunni þröngu.

Magnús Halldórsson yrkir:

Alla jafnan ósköp hreint

yrðu til af gulli

væri hægt að vinna beint,

úr vitleysu og bulli.

“Enn öskrar djúpt í rótum lands” segir í Morgunblaðinu. “Landris við Torfajökul og Öskju.” Kristján H. Theodórsson yrkir:

Höfuðskepnur herja á oss,

hermir maður vökull.

Ef vendir sínu kvæði í kross,

kaldur Torfajökull.

Kristján Karlsson orti:

“Ég man ekki meira í flýti,”

sagði maður sem flaut á spýtu.

Hann drukknaði óðara

en hann drukknaði fróðari

um dauða og minni og spýtu.
Biskup þarf að borga vask,
Baskaþjóðin veiðir fisk,
Höskuld mærði herra Rask,
haska ég mér nú í Jysk.
Ekki er það gott, – Þorgeir Magnússon yrkir:
Bitur, lúinn, bláedrú,
berst ég nú við grát og trega.
Sopinn búinn, segir þú,
sem ég trúi mátulega.
Jakob Guðmundsson orti:
Taumar leika mér í mund,
minn þá Bleikur rennur.
Þetta veika léttir lund
lífs meðan kveikur brennur.
Bjarni frá Gröf kvað:
Sumir horfa alltaf á
annarra manna bresti.
En vilja ekki sjálfir sjá
sína eigin lesti.
Halldór Blöndal