Lítið þokast í Úkraínu en mannfall heldur áfram og sprengingar á báða bóga

Sem fyrr hefur gagnsókn Úkraínu gengið hægar en vonir stóðu til og fátt bendir til að breyting verði þar á. Á sama tíma halda loftárásir áfram. Rússar réðust á laugardag á borg 150 kílómetra fyrir norðan Kænugarð, drápu sjö almenna borgara og særðu á annað hundrað. Þá hefur drónaárásum á rússnesk skotmörk haldið áfram að fjölga, með misjöfnum árangri, og í gær voru gerðar nokkrar slíkar. Athyglisvert er að stjórnvöld í Moskvu tala jafnan um hryðjuverkaárásir í þessu sambandi, en halda sig við að þeirra eigin sprengingar og árásir séu sérstök hernaðaraðgerð.

Í gær fór Selenskí forseti Úkraínu til Hollands í tilefni þess að Hollendingar hafa staðfest að þeir ætli að láta Úkraínu í té F-16 orrustuþotur. Það væri öflug viðbót við herafla Úkraínu þó að ekki sé um kjarnorkuógn að ræða, líkt og rússneski utanríkisráðherrann kallaði þessi tíðindi. Þá er alls óvíst að orrustuþoturnar hafi áhrif á gang stríðsins, meðal annars vegna þess að óvíst er um fjölda þeirra og að nú er rætt um að þær verði ef til vill afhentar á fyrri hluta næsta árs.

Enginn veit hvernig stríðið verður statt þá, en mögulega verður væntanleg koma þotanna til að ýta undir hagfelldari vopnahlés- eða friðarsamninga fyrir Úkraínu. Miðað við þróun mála er ekki víst að raunsætt sé að vonast eftir meiru.