Sending Karólína Lea Vilhjálmsdóttir á að baki 29 A-landsleiki fyrir Ísland þar sem hún hefur skorað 8 mörk.
Sending Karólína Lea Vilhjálmsdóttir á að baki 29 A-landsleiki fyrir Ísland þar sem hún hefur skorað 8 mörk. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þýskaland Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Knattspyrnukonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er spennt fyrir nýrri áskorun á ferlinum en hún gekk til liðs við þýska 1. deildarfélagið Bayer Leverkusen á láni frá Bayern München fyrr í sumar.

Þýskaland

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Knattspyrnukonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er spennt fyrir nýrri áskorun á ferlinum en hún gekk til liðs við þýska 1. deildarfélagið Bayer Leverkusen á láni frá Bayern München fyrr í sumar.

Karólína Lea, sem er 22 ára gömul, hélt að ung að árum út í atvinnumennsku en hún gekk til liðs við Bayern München í janúar 2021.

Hún hefur tvívegis orðið Þýskalandsmeistari með Bæjurum, 2021 og 2023, en hún hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði þýska stórliðsins undanfarin tvö tímabil.

„Ég er búin að koma mér mjög vel fyrir hérna í Leverkusen og tímabilið leggst virkilega vel í mig,“ sagði Karólína í samtali við Morgunblaðið.

„Mér líður vel og mér líst afskaplega vel á það sem er í gangi hjá félaginu. Það eru spennandi tímar fram undan hjá Leverkusen og ég hlakka mikið til að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem er í gangi hérna. Það fylgir því alltaf smá stress að skipta um lið og kvíði líka ef ég á að vera alveg hreinskilin. Þú ferð út úr þægindarammanum ef svo má segja,“ sagði Karólína Lea.

Ekki í myndinni hjá Bayern

Karólína var að glíma við meiðsli aftan í læri þegar síðasta leiktíð hófst í Þýskalandi en meiðslin höfðu verið að plaga hana í langan tíma og tók hún meðal annars hvorki þátt í lokaleikjum Íslands í undankeppni HM né í umspilsleiknum gegn Portúgal sem fram fór í Pacos de Ferreira í október á síðasta ári.

„Eftir að ég snéri til baka eftir meiðslin þá fann ég það fljótlega að ég var ekki alveg inn í myndinni hjá þjálfaranum hjá Bayern. Ég fann það líka hjá sjálfri mér að ég væri kominn á þann tímapunkt á ferlinum að ég þyrfti að fara að spila reglulega, til þess að halda áfram að bæta mig og þroskast sem leikmaður.

Bayern fékk til sín mjög öfluga leikmenn í sumar og ég taldi best fyrir mig að fara á lán til þess að spila. Það voru nokkur lið sem sýndu mér áhuga en eftir að hafa fundað með forráðamönnum Leverkusen leist mér best á þann kost. Þjálfarateymið og ég erum með mjög svipaða sýn á fótbolta og þeir heilluðu mig í raun strax.“

Enska deildin heillar

Leverkusen hafnaði í fimmta sæti þýsku 1. deildarinnar á síðustu leiktíð en liðið mætir Wolfsburg á útivelli í 1. umferð deildarinnar sem hefst hinn 15. september.

„Ég var alveg opin fyrir því að reyna fyrir mér annars staðar en í Þýskalandi og það var lið á Englandi sem vildi fá mig sem dæmi. Enska deildin hefur alltaf heillað mig líka og mig langar að spila þar á einhverjum tímapunkti á ferlinum. Ég var hins vegar mjög hrifin af því sem að forráðamenn Leverkusen höfðu að segja og það réði úrslitum.

Ég hef heyrt mjög góða hluti um þetta félag og sambandið á milli Leverkusen og Bayern hefur alla tíð verið mjög gott. Það spilaði líka inn í en þegar öllu er á botninn hvolft þá ákvað ég að fylgja innsæinu og ég er mjög sátt við mína ákvörðun. Það er allt til fyrirmyndar hjá félaginu, umgjörðin góð, og þetta er félag sem ætlar sér stóra hluti í framtíðinni.“

Leið vel í München

Karólína lék rúmlega 230 mínútur með Bæjurum í þýsku 1. deildinni á síðustu leiktíð og kom við sögu í sjö leikjum en hún kom inn á sem varamaður í þeim öllum.

„Það er alltaf erfitt þegar að þú færð ekki að spila reglulega og ekki með fast hlutverk í liðinu en ég hugsa enn þá um München sem mitt annað heimili ef svo má segja. Ég hef eignast fullt af góðum vinkonum þar og klúbburinn er algjörlega frábær. Ég skrifaði undir eins árs lánssaming við Leverkusen og planið er að snúa aftur til München að lánstímanum loknum.

Ég átti mjög góðan tíma í München og líka slæman tíma þegar ég spilaði lítið sem ekkert. Heilt yfir þá leið mér ótrúlega vel þarna og ég á mjög góðar minningar þaðan. Það var auðvelt að fagna og samgleðjast þegar liðið varð Þýskalandsmeistari í vor en á sama tíma var þetta súrsætt að nokkru leyti líka þar sem ég var eiginlega búin að taka ákvörðun um að fara á láni á komandi keppnistímabili.“

Saknar Íslendinganna

Þær Cecilía Rán Rúnarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir eru einnig samningsbundnar Bayern München og íslensku landsliðskonurnar hafa því eytt miklum tíma saman í München undanfarin tvö tímabil.

„Við Íslendingarnir vorum í raun eins og lítil fjölskylda þarna sem var yndislegt. Fyrstu dagarnir hérna í Leverkusen voru erfiðir en ég kom hingað í byrjun ágúst og mér líður mjög vel í dag. Ég er líka búin að eignast góðar vinkonur í liðinu og Emilie Bragstad, liðsfélagi minn hjá Bayern, gekk líka til liðs við Leverkusen á láni í sumar.

Á sama tíma er sárt að hitta ekki stelpurnar á hverjum degi og ég sakna þeirra vissulega mjög mikið en svona er fótboltinn. Leverkusen er með ungt lið en möguleikinn á að verða eitt af toppliðum Þýskalands er svo sannarlega til staðar og ég einbeiti mér fyrst og fremst að því að gera mitt allra besta fyrir félagið á komandi tímabili.“

Gott fyrir alla

Líkt og áður hefur komið fram hélt Karólína ung að árum út í atvinnumennsku og hefur hún upplifað bæði hæðir og lægðir á ferlinum til þessa.

„Ég sé ekki eftir neinu og ég hef þroskast mjög mikið á tíma mínum hjá Bayern. Ég hef æft með mörgum af bestu leikmönnum heims undanfarin tímabil og það hefur hjálpað mér að þróast sem leikmaður. Ég er mjög ánægð með sjálfa mig að hafa stigið þetta stóra skref á sínum tíma og hefði alls ekki viljað gera hlutina neitt öðruvísi.

Núna er hins vegar kominn tími til þess að ég fari að spila eins og ég sagði áðan og ég þarf að upplifa þá tilfinningu að ég sé í stóru hlutverki hjá mínu félagsliði. Vonandi fæ ég stórt hlutverk á tímabilinu og það er líka gott upp á landsliðið að gera að maður sé í toppformi og að spila. Þegar allt kemur til alls ætti þetta að vera gott fyrir alla aðila.“

Erfitt að horfa á HM

Þrátt fyrir ungan aldur er Karólína strax orðin ein af lykilmönnum íslenska kvennalandsliðsins en hún á að baki 29 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað átta mörk.

„Við höfum horft á bak mörgum reynslumiklum leikmönnum undanfarið ár. Við erum ekki bara að missa mjög góða leikmenn heldur mjög sterka persónuleika líka. Þetta eru allt stelpur sem hafa rutt brautina fyrir okkur yngri stelpurnar ef svo má segja og við verðum þeim ævinlega þakklátar. Núna er það okkar yngri stelpnanna að stíga fram og taka að okkur leiðtogahlutverk innan liðsins, axla meiri ábyrgð og gera eldri stelpurnar stoltar.

Við eigum marga leikmenn í mjög sterkum félagsliðum og landsliðið á að endurspegla það finnst mér. Það er okkar að hækka rána og ég er mjög spennt fyrir næstu árum með landsliðinu. Vonandi halda ungar stelpur áfram að stíga skrefið út og semja við lið í atvinnumennsku og við erum allar staðráðnar í að koma okkur á stórmót aftur, enda var mjög sárt og erfitt að missa af HM og hvað þá að þurfa að horfa á mótið í sjónvarpinu,“ bætti Karólína Lea kankvís við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason