Konráð Ingi Jónsson fæddist í Reykjavík 14. janúar 1956. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 10. ágúst 2023.

Foreldrar hans voru Jón Haukur Baldvinsson, f. 13. mars 1923, d. 30. janúar 1994, og Þóra Margrét Jónsdóttir, f. 11. ágúst 1925, d. 31. desember 2009. Systkini Konráðs eru Baldvin, f. 12. ágúst 1947, Ólafur Örn, f. 13. júní 1951, Helga Þóra, f. 24. mars 1957, og Þormóður, f. 27. febrúar 1961.

Eiginkona Konráðs er Anna Sigurðardóttir, f. 31. janúar 1953. Dætur þeirra eru: 1) Sesselja, f. 20. júlí 1978, maki Anton Helgi Hannesson. 2) Lilja, f. 28. desember 1982, börn Lilju eru Konráð Jónsson, f. 12. september 2013, og Unnar Leo Jóhannsson, f. 22. ágúst 2019. 3) Edda, f. 9. maí 1992, maki Gunnar Helgi Steindórsson, barn þeirra er Steindór Logi, f. 14. febrúar 2023.

Konráð ólst upp í Reykjavík og lauk námi í prenttækni og offsettljósmyndun. Ungur að aldri tók hann við rekstri prentsmiðjunnar Litrófs og gegndi því starfi svo allar götur síðan fram í andlátið.

Konráð átti glæstan handboltaferil með Þrótti og gegndi hlutverki fyrirliða íslenska landsliðsins á 9. áratugnum.

Útför Konráðs fer fram í Langholtskirkju í dag, 23. ágúst 2023, klukkan 15.

Elsku hjartans Konni minn, með sár og söknuð í hjarta kveð ég þig ástin mín og besti vinur en um leið finn ég hlýju og þakklæti fyrir samfylgdina í tæpa hálfa öld. Við vorum samstiga og því er tómarúmið nú stórt, því samveran var svo mikil, sérstaklega síðustu árin þegar við fylgdumst að hvert sem við fórum. Það er allt sem minnir á þig ástin mín, ekki síst hversdagslegir hlutir. Langvinn veikindi þín tóku sinn toll síðustu árin en lífsviljinn var svo sterkur hjá þér. Ég skynjaði aldrei í fylgd minni með þér að þú stæðir ekki undir því að bera þann þunga. Þú kvartaðir aldrei. Þrátt fyrir veikindi þín bar það brátt að þegar þú kvaddir. Rétt rúmum sólarhring áður skruppum við í bústaðinn okkar í dásamlegu veðri og þú teygaðir að þér sveitaloftið og gróðurilminn.

Þú bjóst yfir ótal kostum en fyrst og fremst heiðarleika og manngæsku. Fjölhæfni þín átti sér engin takmörk, hvort sem um var að ræða verkamannastörf eða nákvæmnisvinnu. Að sama skapi varstu svo mikill viskubrunnur, ég var oft orðlaus yfir fróðleik þínum. Það var svo gott að leita til þín, þú gerðir ekki mannamun og varst sáttasemjari. Þú varst orðlagður fyrir að vera bóngóður og vandvirkur. Vinnusamur varstu og oft um of, því fórnfýsi var þér í blóð borin. Þú vannst samhliða allri þinni skólagöngu og aðeins nítján ára gömlum var þér svo veitt flokksstjórastaða í Sigölduvirkjun. Stuttu síðar lærðir þú offsetljósmyndun (prentsmíði), stofnaðir eigið fyrirtæki og spilaðir handbolta af kappi með góðum árangri. Á sama tíma eignuðumst við dæturnar dýrmætu og þak yfir höfuðið!

Hugurinn reikar í minningunni og ég sé sterkan, hlýjan fjölskyldumann sem hélt þétt utan um hópinn sinn. Í fylgd þinni fundum við fyrir öryggi alls staðar. Þó að þú bærir ekki tilfinningar þínar á torg fundum við frá þér hlýju og væntumþykju. Það var þér auðvelt að sjá spaugilegar hliðar á öllu og jafnframt varstu sérlega orðheppinn. Þú áttir til að kasta fram skondnum rímum og fá fólk til þess að veltast um af hlátri en aldrei á kostnað annarra.

Að öllum ólöstuðum var samband þitt við nafna þinn alveg sérstakt. Hann nefndi ykkur „afafeðga“ sem var svo fallegt. Hann var skugginn þinn, fór með þér hvert sem var, í vinnuna, veiði, bústaðinn eða átti notalegt bíókvöld heima.

Aðaláhugamálið og ástríða þín var laxveiðin, enda sérlega fiskinn. Falleg söngrödd var þér gefin, það hafa þó fáir fengið að njóta hennar, nema helst fjölskyldan því þú varst svo hógvær. Það verður erfitt að geta ekki leitað til þín með allt. Þú varst minn áttaviti í lífinu elsku Konni minn. Það var alltaf svo gott að fá leiðsögn hjá þér með allt mögulegt og ekki síst til að komast á ákveðinn áfangastað, þú þekktir allar leiðir svo vel. Þú varst einstaklega fundvís, þér tókst jafnvel að finna smáhlut í skógi, eins og nál í heystakk. Nú horfi ég út á sjóinn í fallegu íbúðinni okkar og það er þungt yfir. Það yljar mér þó að eiga minningar sumarsins með þér að horfa á ógleymanlega fallegt sólarlag. Nú líður senn að hausti og skammdegið skellur á. Ég trúi að ljósið þitt muni lýsa okkur og ylja áfram þegar sólar nýtur ekki við. Mig langar að enda þessi minningarorð til þín á sama hátt og þú endaðir öll símtöl þín við viðskiptavini: „Takk, takk.“

Elsku hjartans Konni minn, „takk takk“ fyrir allt.

Ég elska þig að eilífu ástin mín.

Þín ástkæra eiginkona,

Anna.

Á borðinu liggur þriðjudagsmogginn, kaffibollinn, gleraugun þín, fartölvan, síminn þinn, penni, vasareiknir og litlir miðar með útreikningum. Á fimmtudeginum hefur kaldur kaffisopinn ekki þornað í bollanum og síminn þinn ekki orðinn batteríslaus. Þú færð ennþá tölvupóst og símhringingar því þú ert ómissandi en ert samt ekki lengur hér sólarhring seinna til þess að svara. Ég var búin að kvíða þessum degi í langan tíma, deginum sem þér yrði kippt úr þessu lífi og ég myndi stara á símaskjáinn með símanúmerinu þínu en gæti ekki lengur hringt í þig, hitt þig, fengið ráð hjá þér, faðmað þig, knúsað þig eða hlegið með þér.

Það var alltaf hægt að treysta á þig fram á síðasta dag, sama hvað það var, stórt eða smátt, þú varst alltaf svo sterkur klettur, ósérhlífinn, dugnaðarforkur, greiðvikinn, hugsunarsamur, hógvær, lausnamiðaður, jákvæður, bjartsýnn og einstaklega góð manneskja, fallegur að innan sem utan, sanngjarn, orðheppinn, skemmtilegur og góð fyrirmynd. Þú áttir alltaf ráð undir rifi hverju og hlutirnir fóru alltaf á besta veg með þér elsku pabbi minn, þú varst svo góður við alla og vildir öllum alltaf svo vel.

Lífshlaupið mitt með þér hefur nú runnið sitt skeið, augun fyllast af tárum, myndin verður óskýr áður en hún svo brotnar í óteljandi mola. Á hverju broti er minning um þig, þar sem þú ert að grilla í bústaðnum, kveikja í flugeldum á gamlárskvöld, brúna kartöflur á sunnudegi, skafa af bílnum með berum höndum, fylgja mér í leikskólann, kenna mér að synda, kenna mér að keyra bíl, hjálpa mér að kaupa íbúð, tína rifsber í garðinum, líma möppur fram á nótt við borðstofuborðið heima, spila plötur og syngja með af innlifun, segja „mu“ með raksápuna á andlitinu, tala eins og Andrés önd, leika vaðmálskerlinguna, kaupa mix og kitkat eftir sund, rétta út verndarhönd fram fyrir mig áður en við fórum yfir götu, spenntur að kaupa aukajólagjöf fyrir mömmu á Þorláksmessu, stoltur af afrekum okkar systra, horfa á sjónvarpið með Konna litla brosandi út að eyrum …

Ég gæti haldið endalaust áfram og fyllist örvæntingu yfir því að reyna að púsla brotunum aftur saman sem lítur út fyrir að vera ógerningur, eitthvert brot gæti mögulega hafa týnst eða gleymst. Frá brotunum bergmálar líka röddin þín, sagan um Fríðu og Svenna, hlátrasköll, brandarar, rímur, söngur, varnaðarorð, leiðbeiningar, útskýringar og huggun.

Nú er allt breytt, ekkert verður aftur eins og áður og það er svo ótrúlegt að lífið geti haldið áfram sinn vanagang án þín, að klukkan haldi áfram að ganga, að sólin komi upp að morgni og setjist að kvöldi, að árstíðirnar eigi eftir að halda áfram, hversdagsleikinn, hátíðisdagar. Ég mun hvorki deila með þér gleði né sorg framar í þessu lífi og það er svo nístandi sárt.

Elsku hjartans pabbi minn, orð fá ekki lýst hvað ég sakna þín mikið. Ég er þér ævinlega þakklát fyrir allt sem þú gafst mér og kenndir mér, ég er svo mikið þakklát fyrir allar þær dýrmætu stundir sem ég átti með þér í þessari jarðvist og það eru sönn forréttindi að hafa átt þig sem föður. Ég elska þig alla leið til tunglsins og stjarnanna.

Sjáumst hinum megin.

Happakreist!

Þín dóttir,

Sesselja.

Lífið er breytt. Elsku besti pabbi, kletturinn í lífinu, stoð mín og stytta sem ég gat alltaf leitað til er horfinn. Þú varst sá allra mesti öðlingur sem ég hef á ævinni kynnst. Það er leitun að öðrum eins dugnaði, ósérhlífni, trausti og góðmennsku og þú hafðir að geyma. Ég man þegar ég var lítil þá hlustuðum við saman á gamlar vínilplötur á kvöldin, oft langt fram yfir háttatímann minn. Þú kenndir mér hvað alvörumúsík væri og hækkaðir allt í botn. Ég minnist allra tónleikanna sem við fórum á: Neil Young, Eric Clapton, Bob Dylan, Eagles, John Fogerty svo eitthvað sé nefnt, það eru góðar minningar.

Við spiluðum saman snóker og þú kenndir mér fyrstu gripin á gítar. Elsku hjartans pabbi, þú varst svo óendanlega mörgum hæfileikum gæddur. Á ferðalögum varstu svo fróður um alla staði, það var engu líkara en þú hefðir innbyggðan áttavita því alltaf enduðum við á réttum stað. Þú varst sannur vinur og fórst ekki í manngreinarálit, allir voru þínir jafningjar og aldrei heyrði ég þig segja styggðaryrði um nokkurn mann. Þú varst svo mikill töffari en samt svo hógvær, vildir öllum svo vel, gafst öllum alltaf bestu ráðin sem leituðu til þín en áttir erfitt með að þiggja það sama frá öðrum, sem lýsir þínu innræti svo vel. Vildir allt fyrir alla gera en ekkert þiggja á móti.

Sviðsljósið var ekki endilega þinn uppáhaldsstaður, frekar hleyptir þú öðrum fram fyrir þig en svo á einhvern ótrúlegan hátt komstu samt alltaf fyrstur í mark! Þú varst hrókur alls fagnaðar án þess að gera þér almennilega grein fyrir því. Kímnigáfa þín var á heimsmælikvarða en samt gafstu þér ávallt tíma til að ræða öll heims og lífsins mál af alvöru. Þú gerðir miklar kröfur til sjálfs þín og vildir skila af þér vinnu og verkefnum helst óaðfinnanlega. Mér fannst oft líkt og þú hefðir allan heiminn á herðum þér. Útgeislun þín var slík að fólk leitaðist við að vera í kringum þig og njóta þinnar þægilegu nærveru.

Snemma á lífsleiðinni þurftir þú að standa á eigin fótum og læra á lífið, gekkst til vinnu ungur að árum og varst mikill vinnuþjarkur. Síðar fékk svo landsliðið í handbolta að njóta þinna mannkosta og óbilandi þrautseigju. Sem nýliði landsliðsins í handbolta varstu gerður að fyrirliða því þú varst leiðtogi af hjartans náð.

Ekki leið á löngu þar til þú stofnaðir svo þitt eigið fyrirtæki rétt rúmlega tvítugur og rakst það í 40 ár fram á síðasta dag. Þú varst líka svo mikill strákur í þér og það fíluðu þig einhvern veginn allir, ungir sem aldnir, það var bara svo gaman að spjalla við þig. Þau voru ófá skiptin sem ég heyrði út undan mér: „Konni í Litróf, alger meistari og snillingur!“ Þú varst svo klár, heiðarlegur, fórnfús, óeigingjarn og góður í gegn.

Veikindi þín voru farin að taka sinn toll síðastliðin ár en alltaf barstu harm þinn í hljóði þrátt fyrir þann mikla sársauka sem þú þurftir að líða. Þú varst hetja sem gafst aldrei upp! Ég lofa því elsku pabbi minn að passa Konna litla nafna þinn því þið áttuð alveg sérstakt samband sem er okkur svo dýrmætt. Afastrákarnir þínir eru allir svo heppnir að hafa átt svona flottan og mikinn töffaraafa. Takk fyrir allt elsku pabbi minn og vinur. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að vera dóttir þín. Þú varst og ert ávallt mín fyrirmynd. Ég elska þig. Sjáumst síðar.

Þín dóttir,

Lilja.

Elsku pabbi. Það er svo skrýtið að hugsa til þess að þú sért farinn. Þú varst akkerið í fjölskyldunni og nú þurfum við dömurnar þínar að taka þétt hver utan um aðra til að fóta okkur. Þú varst fyrirliðinn og kletturinn. Ef eitthvað virtist óyfirstíganlegt þá komstu eins og riddarinn í sögunni um Fríðu og Svenna og snérir kvíðann niður. Þú hugsaðir um alla í kringum þig framar sjálfum þér og eitt skýrasta dæmið um það var hvernig þú tæklaðir veikindi þín. Það varst þú sem peppaðir okkur dömurnar áfram, þó þú þyrftir peppið frá okkur. Þegar veikindin voru orðin full vinna þá keyrðir þú áfram hin ýmsu verkefni bæði heima og í vinnunni samhliða því að vera besti afinn fyrir afastrákana þína. Öllu stýrðir þú í kollinum þínum, ávallt með allt upp á tíu. Mér finnst svo sárt að þú fáir ekki að klára framkvæmdirnar í bústaðnum en ég veit að þú verður með okkur í anda í sveitaloftinu þegar við munum setjast á pallinn og njóta afrakstursins.

Þegar ég horfi til baka koma upp svo margar góðar minningar og þá sérstaklega hvað hversdagsleikinn var góður með þér. Minningarnar úr bústaðnum þar sem þú kenndir mér að smíða eða lagðist með mér í gólfið í tindátaleik. Kvöldsundferðirnar í Breiðholtslaug og klassík að sækja mat hjá Dóra í hádeginu. Hversdagsleikinn var bara svo notalegur með þér og alltaf stutt í grínið. Í ófá skipti tókstu verkefni heim úr prentsmiðjunni og þá var gerð fjölskyldustund úr því að líma saman þúsundir möppuvasa á meðan þú samdir einhverja grínvísu sem við rauluðum og grenjuðum úr hlátri. Litróf var eins og fjórða barnið þitt, þú lagðir allt í fyrirtækið og það er aðdáunarvert hvernig þú byggðir það upp af ástríðu og heiðarleika fram í fingurgóma. Það voru svo mikil forréttindi að fá að vinna hjá þér, allt frá því að vera ung í sumarvinnu í alls kyns verkum yfir í reikningagerð og bókhald samhliða viðskiptafræðináminu. Mikið sem það var gaman að labba um prentsmiðjuna með þér og bara fá að hlusta á þig. Mig langaði alltaf að stýra mínu eigin fyrirtæki í framtíðinni eins og þú og ég var svo stolt þegar sá draumur rættist. Þá þótti mér sérstaklega vænt um að finna stuðninginn frá þér og elskaði að sitja með þér fram á kvöld að spjalla um „bissness“-pælingar.

Elsku pabbi, takk fyrir allt sem þú kenndir mér og gafst mér. Takk fyrir að nenna að vesenast svona mikið með mér þegar ég var lítil, hvort sem það var að bogra ofan í litla sandkassanum í sveitinni eða að spila þrotlaust þythokkí á Spáni. Takk fyrir að keyra mig alltaf í skólann eins og prinsessu þó það væri jafnvel styttra að labba. Takk fyrir að taka mig í veiðitúra og kenna mér handtökin í laxveiðinni. Takk fyrir öll ráðin og stuðninginn. Ég er svo þakklát fyrir það að Steindór Logi afastrákur hafi fengið að hitta þig og þú hann. Þó tíminn hafi verið stuttur á þessu hálfa ári þá mun ég halda lífi í minningunni um þig og segja honum allar góðu sögurnar af afa. Fallegri sál en þig er erfitt að finna og ég verð alltaf stolt af því hverra manna ég er, dóttir Konna í Litrófi.

Þín,

Edda.

Elsku tengdapabbi.

Ég miklaði það fyrir mér að hitta þig í fyrsta skipti og dömurnar þínar í Hálsaseli í fyrsta matarboðinu eftir að ég og Edda byrjuðum saman. Ég hugsaði að þarna myndir þú skoða mig vandlega upp og niður og velta fyrir þér hvort ég væri nægilega góður fyrir eina af þínum prinsessum. Ég var varla kominn inn um dyrnar þegar ég fann fyrir kærleikanum frá þér og hvernig þú tókst á móti mér. Við urðum fljótt góðir vinir og gátum auðveldlega rætt allt milli himins og jarðar.

Mér þykir svo vænt um það hversu vel þú fylgdist með fótboltanum hjá mér og hvernig mér gekk þar. Hvernig við tveir vorum alltaf saman í liði á móti okkar konum í grænmetisdeildinni þegar reynt var að ákveða hvað ætti að vera í matinn uppi í Hálsaseli.

Það er svo margt sem ég veit að okkur báða langaði að gera saman; spila golf fyrir austan, fara í veiðiferðir og þú hefðir kennt mér á flugustöngina, að geta aðstoðað þig við að stækka og fegra bústaðinn ykkar svo að öll fjölskyldan gæti komið og notið þess að vera þar saman í sveitasælunni.

Ég er svo þakklátur fyrir að hafa kynnst þér og séð hversu góður maður, faðir og afi þú varst. Steindór Logi er svo heppinn að hafa fundið fyrir hlýjunni þinni sína fyrstu sex mánuði þegar hann kúrði í fangi afa síns. Þín er svo sárt saknað en ég veit að þú munt vaka yfir okkur. Ég vil að þú vitir að við strákarnir þínir munum passa upp á dömurnar þínar líkt og þú gerðir alla daga.

Hvíldu í friði elsku Konni.

Gunnar Helgi
Steindórsson.

Elsku afi minn,

það var svo mikið meira sem við áttum eftir að gera saman, fara aftur að veiða í Þingvallavatni, Reynisvatni og Straumfjarðará. Við áttum líka eftir að fara saman í handbolta og golf. Ég gat alltaf leitað til þín, ég gleymi þér aldrei, við vorum bestu vinir og afafeðgar og ég er svo þakklátur fyrir allar góðu minningarnar með þér, elsku hjartans afi minn og bestasti vinur. Ég sætti mig aldrei við að þú hafir dáið og ég elska þig og sakna þín og mun alltaf gera.

Óðum steðjar að sá dagur,

afmælið þitt kemur senn.

Lítill drengur, ljós og fagur

lífsins skilning öðlast senn.

Vildi ég að alltaf yrðir

við áhyggjunar laus sem nú

en allt fer hér á eina veginn:

Í átt til foldar mjakast þú.

Ég vildi geta verið hjá þér

veslings barnið mitt.

Umlukt þig með örmum mínum.

Unir hver með sitt.

Oft ég hugsa auðmjúkt til þín

einkum, þegar húmar að.

Eins þótt fari óravegu

átt þú mér í hjarta stað.

Man ég munað slíkan,

er morgun rann með daglegt stress,

að ljúfur drengur lagði á sig

lítið ferðalag til þess

að koma í holu hlýja,

höfgum pabba sínum hjá.

Kúra sig í kotið hálsa,

kærleiksorðið þurfti fá.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson)

Þinn nafni,

Konráð Jónsson.

Ég kveð þig með söknuði, kæri Konni, góði bróðir, með þessum fögru orðum sem fylgt hafa okkur í áratugi:

Þig sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur

og fagrar vonir tengdir líf mitt við,

minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,

er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá.

Heyrirðu ei, þig hjartað kallar á?

Heyrirðu ei storm er kveðju mína ber?

Þú fagra minning eftir skildir eina,

sem aldrei gleymist meðan lífs ég er.

(Valdimar Hólm Hafstað)

Baldvin Jónsson.

10. ágúst 2023! Konni bróðir er dáinn og hálftíma seinna deyr eiginkona mín. Hvernig heldur maður áfram með lífið? Jú, minningarnar lifa, Konni var fyrirmynd mín á unglingsárunum, tók mig með á rúntinn á Camarónum með vinum sínum. Hann mótaði tónlistarsmekk minn og fékk ég oft að halda partí í herberginu hans með steríógræjunum. Seinna fórum við að veiða saman á hverju sumri og oftast í Straumfjarðará, það var hans ástríða. Þessir túrar eru og verða alltaf í minningunni fyrir gleðina og grínið í Konna. Hann er einn skemmtilegasti maður sem ég hef kynnst. Ég græt ám yfir að missa þig, kæri bróðir, en það er víst enginn lax í þeim ám. Önnu, stelpunum, barnabörnunum og vinum votta ég mína dýpstu samúð.

Ommi bróðir,

Þormóður Jónsson.

Að vera gull af manni er að vera eins og Konni mágur minn og vinur en það var hann alveg frá því að ég kynntist honum sem ungum dreng þegar ég sameinaðist fjölskyldu hans.

Ef leita þurfti aðstoðar við verkefni þá var hann undantekningarlaust boðinn og búinn. Hann var hvers manns hugljúfi eins og sjá má í ummælum fólks sem einhvern tímann átti samskipti við þennan öðling. Mér er minnisstætt þegar ég fór að stunda fjölskylduboð með þessari fjörugu fjölskyldu, þá var það ætíð Konni sem var þungamiðjan í veislunum með sína einstöku kímnigáfu. Man eftir því þegar hann lék vaðmálskerlinguna í spurningaleik eða þegar hann tók eftirhermusyrpuna og hermdi eftir ýmsum gerðum mótorhjóla, allt frá Harley til Vespu, og ýmis aukahljóð sem fylgdu í kjölfarið. Þá náði hann þekktum teiknimyndastjörnum og þá sérstaklega Andrési Önd. Við öll fjölskyldan grétum úr hlátri, en nú eru það tár sorgar.

Konni var svo mikill gleðigjafi að leitun er að öðrum eins. Svo var hann líka svo fjallmyndarlegur, hreinlega fallegur. Hann var einn af þessum mönnum sem skilja eftir ljúfar minningar sem gott er að ylja sér við á stundum sem þessum.

Konni barðist af miklum krafti í veikindum sínum í allt of mörg ár. Þar sýndi hann úr hverju hann var gerður. Hann var ótrúlega sterkur og sýndi baráttunni mikla þolinmæði fram á síðasta dag.

Ég heyrði það oft frá pabba hans og bróður, Þormóði, hvað hann hafði mikla unun af því að stunda laxveiðar. Hann var sagður lunkinn veiðimaður enda kom þolinmæðin þar við sögu auk þess sem hann var mikill náttúruunnandi og leið vel í sveitasælu. Þá sögðu þeir Konni og Þormóður skemmtisögur úr veiðiferðunum sem komu oftast á óvart því þeir bræður voru einkar skemmtilegir saman.

Það er því með miklum söknuði og sorg sem við kveðjum einn allra besta dreng sem ég hef kynnst. Votta Önnu og dætrunum Sesselju, Lilju og Eddu, tengdasyni og barnabörnunum og fjölskyldum innilegar samúð fyrir okkar hönd. Mikill er missir ykkar við fráfall Konna en Guð mun styrkja ykkur við að takast á við nýjan veruleika, elsku besta fjölskylda.

Margrét S. Björnsdóttir og fjölskylda.

Elsku Konni.

Yndislegi vinur, mágur og góði drengur.

Margs er að minnast og margs er að sakna. Konni minn, þú varst alltaf til staðar fyrir þitt fólk og varst svo mikill fjölskyldumaður og hef ég sjálf, dóttir mín, tengdasonur og ömmustrákarnir mínir fengið að njóta þess í gegnum árin og verður seint fullþakkað. Áður en þú eignaðist þín eigin barnabörn varstu ömmustrákunum mínum, Magnúsi og Thor, sem afi og fannst þeim alltaf svo gaman að fara með þér að veiða, fara í bústaðinn og þegar þú sast með þá litla í fanginu og „lékst mótorhjólið“ og þeir skríktu af gleði og höfðu gaman af.

Þú varst vinnusamur, heiðarlegur og sanngjarn, gerðir allt af heilum hug og heilindum. Ekki má gleyma því hve fyndinn og skemmtilegur þú varst, það var alltaf stuð og stemning í kringum þig. Mér eru minnisstæð fyrstu kynni ykkar Önnu á skemmtistaðnum Klúbbnum. Þú varst glæsimenni svo eftir var tekið, hávaxinn og fallegur með síða, ljósa liðaða hárið. Þið Anna voruð eins og sköpuð fyrir hvort annað. Þú varst líka frábær handboltamaður og sannur Þróttari og mikill markaskorari. Þér og pabba kom svo vel saman, þið voruð báðir mjög handlagnir og unnuð og skemmtuð ykkur svo vel alltaf saman svo pabbi hefur án efa tekið vel á móti þér hinum megin, enda voruð þið báðir höfðingjar heim að sækja, gestrisnir og rausnarlegir. Þú varst snillingur á grillinu, holulæri voru í miklu uppáhaldi í bústaðnum, griðastaðnum ykkar, alltaf varstu svo rausnarlegur og tókst alltaf svo vel á móti gestum þínum. Við mamma fórum reglulega austur og áttum þar yndislegar samverustundir með ykkur í sveitinni.

Elsku Konni minn, mikið voru Anna, dætur ykkar og afastrákarnir lánsöm að eiga svona mikinn fyrirmyndar eiginmann, föður og afa. Þú varst kletturinn í lífi þeirra og ég var svo heppin að fá að eiga þig líka að, elsku vinur. þú varst alltaf tilbúinn að aðstoða og hjálpa ef á þyrfti að halda. Alla konudaga, ár hvert, færðir þú Önnu þinni, dætrum, mömmu og mér blómvönd, það var alltaf sama hugulsemin í þér, elsku Konni minn. Það eru ekki allir sem hafa rekið fyrirtæki á sömu kennitölu í 40 ár. Þú stóðst við allt þitt og vannst öll þín verk af heilindum, varst vinsæll og áttir þinn fasta kúnnahóp. Ég gæti haldið endalaust áfram að telja upp kosti þína elsku Konni minn.

Anna hefur staðið þér við hlið svo sterk og traust. Hún umvafði þig ást og umhyggju, í þínum miklu veikindum. Og þér var svo umhugað um að hafa allt eins og best væri á kosið fyrir Önnu þína. Það sýndi svo vel hve ást ykkar var traust og falleg og þið svo samtaka í öllu því sem þið tókuð ykkur fyrir hendur.

Það var erfitt að kveðja þig langt fyrir aldur fram. Þín verður sárt saknað, kæri vinur. Þær eru margar góðar minningarnar sem við getum yljað okkur við þar til við hittumst á ný.

Hvíldu í friði, elsku Konni minn,

Guð geymi þig.

Þín mágkona,

Lilja Sigurðardóttir.

Innilegar samúðarkveðjur kæra fjölskylda og vinir. Góða ferð kæri frændi.

Mín leiðin löng er síðan

ég lagði upp í ferð

Ég er ei efnismikið,

ekki lengi verð

Vertu fljótur vinur

ég veitt get svör við því

sem viltu fá að vita um veðurofsans gný

Vertu ei spar að spyrja

en spjara vel þinn hug

Flýt þér áður feykja

mér farvindar á bug

Mín bíður eitt það besta

banamein á jörð

Að leysast upp í læðing

sem litar tímans svörð

(Vilhjálmur Vilhjálmsson)

Björgvin Halldórsson og fjölskylda.

Það er með miklum söknuði sem við kveðjum hann Konna okkar.

Það var fyrir um 40 árum sem ég sótti um vinnu hjá Myndrófi, sem var filmugerðarfyrirtæki til húsa í Brautarholti 8, en Konni hafði keypt það af Eymundi Magnússyni, miklum öðlingi, sem átti Litróf.

Það voru alltaf góð og mikil samskipti okkar á milli og bauð Eymundur okkur Konna og Jóhanni Kristjánssyni, sem var þá kominn til liðs við Myndróf, oft heim til sín. Síðar meir fékk Konni Litrófsnafnið frá Eymundi.

Það eru margar góðar minningar sem koma upp í hugann á þessari stundu.

Konni kom alltaf fram sem félagi og vinur og ég var ekki búinn að vinna lengi hjá honum þegar hann kom eitt sinn til mín og sagðist vera búinn að gera tilboð í leigujörð undir sumarbústað á Sæfoksstöðum í Grímsnesi og hvatti hann mig til að sækja líka um lóð sem og ég gerði. Þarna byggðum við sælureit fyrir okkur og fjölskyldu okkar. Við áttum margar skemmtilegar stundir þarna og var Konni alltaf hrókur alls fagnaðar eins og honum var einum lagið.

Margar ferðir sem við fórum bæði innan lands og utan sem seint munu gleymast.

Sl. vor var haldið upp á 80 ára afmæli Litrófs og bauð Konni núverandi og fyrrverandi starfsmönnum ásamt mökum á Hótel Örk í helgargistingu ásamt flottum kvöldverði. Þar sýndi hann gamla góða takta og allir skemmtu sér konunglega.

Konni hafði einstaka hæfileika í mannlegum samskiptum og safnaði í kringum sig mörgum frábærum starfsmönnum sem margir unnu hjá honum í áratugi og sumir eru enn starfandi hjá fyrirtækinu.

Við hjónin vottum Önnu, Sesselju, Lilju, Eddu og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð.

Konni mun lifa í hjörtum okkar um ókomin ár.

Gunnar og Anna.

Fallinn er frá góður drengur og besti vinur eftir erfiða, langa og hetjulega baráttu.

Betri félaga er ekki hægt að hugsa sér, í öllum okkar vinskap og samvinnu féll aldrei skugga á.

Fyrstu árin voru það fyrst og fremst sumarbústaðarferðirnar í Vaðnes en veiðin kom svo síðar. Ég var frekar tregur til að byrja með en lét loksins eftir þar sem Konni gafst ekki upp á að fá mig með. Ég sé ekki eftir því! Betri veiðifélaga er ekki hægt að hugsa sér og voru farnar ófáar ferðirnar í Straumfjarðará og víðar. Á sinn einstaka hátt tókst honum að gera veiðina að liðsíþrótt og þar spiluðu afreksár hans í handbolta eflaust stóra rullu. Allt var í föstum skorðum með herbergisfélagann, Heart of Gold með Neil Young varð að spila áður en farið var úr húsi og alltaf var spurt hvaða flugu ætti að byrja á. Svarið var alltaf það sama, svört eða rauð francis. Stundirnar á árbakkanum voru þær bestu, þurftum ekki mikið að ræða málin annað en hvað ætti að prófa næst, þetta eru ógleymanlegir tímar. Konni hafði fengið uppeldi við veiðar frá blautu barnsbeini hjá Jóni föður sínum, hann gat lesið aðstæður á stundinni miðað við vatn, birtu og rennsli. Jafnvel ef ég var í veiði án hans og aðstæður ekki góðar vorum við í sambandi og þurfti ég bara að lýsa aðstæðum til að fá góð ráð um aðferð og agn. Ef vel lá á mönnum í veiðihúsinu var Freddie Mercury og eða mótorhjólið dregið fram úr skápnum. Það er leitt að honum entist ekki aldur til að komast og kenna Konna litla á veiðistöngina. Hann var alltaf ráðagóður og hjálplegur við aðra veiðifélaga.

Það var svo öfugt með golfið því það tók mig mörg ár að fá hann til að byrja en það tókst. Því miður urðu árin á golfvellinum færri en við höfðum óskað okkur. Samstarf okkar í rekstri Litrófs gekk einnig vel alla tíð enda með úrvalsfólk í vinnu. Hann stundaði vinnuna fram á síðasta dag þrátt fyrir veikindin.

Konni var alls staðar vel liðinn og fljótur að falla inn í hópinn, hvort sem var í veiði, golfi eða meðal viðskiptavina.

Önnu, Sesselju, Lilju, Eddu ásamt barnabörnum og systkini, sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum.

Örn Andrésson (Öddi).

Kær vinur er fallinn frá eftir baráttu við erfið veikindi.

Lausleg kynni okkar Konna hófust í gegnum handboltann á unglingsárum okkar, hann harður Þróttari og ég Valsari. Þeir urðu nokkuð margir leikirnir þar sem við áttumst við. Þá áttum við einnig samleið í yngri landsliðum Íslands. Konni var hörkuskytta.

Síðar lágu leiðir okkar saman á viðskiptalegum grundvelli þegar Konni og bróðir hans keyptu rekstur íþróttavöruverslunarinnar Sport á Laugavegi á sínum tíma.

Í gegnum árin hef ég leitað til hans í Litróf með ýmiss konar prentvinnu. Sú vinna var alltaf framúrskarandi. Oftar en ekki var ég á síðustu stundu og hringdi kannski í hann að morgni og bað hann fyrir eitthvert prentverk. Alveg sjálfsagt sagði hann alltaf. Svo samdægurs komu skilaboð um að þetta væri tilbúið. Þá renndi ég gjarnan við og tekinn var góður kaffibolli og eitt og annað rætt.

Fyrir tæpum þremur árum kynnist Gunnar, sonur okkar Ernu, yndislegri ungri konu, henni Eddu. Man vel eftir þegar Gunnar sagði okkur hverra manna hún væri, að hún væri dóttir Konna og Önnu. Það voru mikil gæfuspor fyrir okkur öll og myndaðist yndislegur vinskapur okkar Ernu við þau hjón.

Vandaður, umhyggjusamur, heiðarlegur og duglegur eru orð sem koma upp í hugann á þessum erfiðu tímamótum en þau lýsa Konna vel.

Elsku Anna, Edda, Lilja, Sesselja og fjölskylda, söknuður ykkar er mikill og megi æðri öfl gefa ykkur styrk og hugarró á þessum erfiða tíma.

Hvíl í friði.

Steindór Gunnarsson.