Orri Hauksson er forstjóri Simans.
Orri Hauksson er forstjóri Simans. — Morgunblaðið/Golli
Tekjur Símans á öðrum ársfjórðungi þessa árs námu 6.283 m.kr., samanborið við 6.036 m.kr. á sama tímabili í fyrra, og jukust um 4,1%. Hagnaður félagsins á tímabilinu nam 179 m.kr., samanborið við 410 m.kr

Tekjur Símans á öðrum ársfjórðungi þessa árs námu 6.283 m.kr., samanborið við 6.036 m.kr. á sama tímabili í fyrra, og jukust um 4,1%. Hagnaður félagsins á tímabilinu nam 179 m.kr., samanborið við 410 m.kr. í fyrra. Þegar horft er á fyrstu sex mánuði ársins námu tekjur Símans tæpum 12,6 mö.kr. og jukust um 3,7% á milli ára. Hagnaður félagsins á fyrri helmingi ársins nam 425 m.kr. og dróst saman um 56%.

Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Símans sem birt var í gær.

Þar kemur fram að tekjur af sjónvarpsþjónustu jukust um 12% á milli ára, af gagnaflutningum um 6% og af farsímaþjónustu um 8%. Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins um 18,2 ma.kr. og eiginfjárhlutfallið um 55%. Þá kemur einnig fram að staða útlána hjá Símanum var um 2,2 ma.kr. í lok júní og hafa útlán aukist um 500 m.kr. frá áramótum.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir í tilkynningu að rekstur Símans hafi tekið breytingum eftir söluna á Mílu og nú starfi félagið sem þjónustufyrirtæki.

Þá beinir Orri spjótum sínum að Samkeppniseftirlitinu og segir nýja óvissu komna upp um sjónvarpsrétti að íþróttaviðburðum ef „nýlunda Samkeppniseftirlitsins varðandi lagalega meðhöndlun þeirra fær að standa,“ eins og hann orðar það. Þar vísar Orri til þess að Samkeppniseftirlitið hefur með bráðabirgðaúrskurði gert Símanum að selja útsendingar enska boltans til keppinauta á heildsöluverði.

Í fjárfestakynningu, sem birt var samhliða, kemur fram að afkomuspá félagsins fyrir árið 2023 sé óbreytt. Þá kemur einnig fram að útlánum Símans vegna Léttkorts og Léttkaupa haldi áfram að fjölga.