Sterkasta Atvinnukylfingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson hefur keppt á sterkustu mótaröð Evrópu undanfarið tæpt ár.
Sterkasta Atvinnukylfingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson hefur keppt á sterkustu mótaröð Evrópu undanfarið tæpt ár. — Morgunblaðið/Óttar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Atvinnukylfingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson náði sínum besta árangri á Evrópumótaröðinni í golfi, sterkustu mótaröð álfunnar, er hann hafnaði í 24. sæti á ISPS Handa World-mótinu á Norður-Írlandi um síðustu helgi

Golf

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Atvinnukylfingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson náði sínum besta árangri á Evrópumótaröðinni í golfi, sterkustu mótaröð álfunnar, er hann hafnaði í 24. sæti á ISPS Handa World-mótinu á Norður-Írlandi um síðustu helgi.

„Þetta er nokkurn veginn minn besti árangur á þessari mótaröð, en árið 2020 þá spilaði ég á móti sem var blanda af Áskorenda- og Evrópumótaröðinni. Þá var ég í 15.-20. sæti. En þetta er minn besti árangur sem er eingöngu í Evrópumótaröðinni,“ útskýrði Guðmundur í samtali við Morgunblaðið.

Hann var nokkuð sáttur við árangurinn, sem kom á heldur sérstöku móti að hans sögn. Guðmundur hefur áður náð góðum árangri á sömu slóðum.

Gekk vel síðast

„Þetta var allt í lagi. Þetta er svolítið sérstakt mót, því það var kvennamót í gangi á sama tíma á vegum LPGA og Evrópumótaraðarinnar. Við spiluðum því á tveimur mismunandi völlum og það var skorið niður eftir tvo daga og svo aftur eftir þrjá daga. Þetta er ekki vinsælasta mótið á þessari mótaröð, því það er klukkutími á milli vallanna.

Ég hef spilað þarna áður. Ég náði mínum næstbesta árangri á Áskorendamótaröðinni á sama stað, þegar ég náði fimmta sæti árið 2020. Svo spilaði ég þarna í fyrra líka, svo maður kannast vel við þessa velli,“ sagði Guðmundur Ágúst.

Guðmundur tryggði sér þátttökurétt á mótaröðinni með glæsilegum árangri á úrtökumóti í nóvember í fyrra. Er hann annar íslenski kylfingurinn sem hefur náð í keppnisrétt á mótaröðinni, á eftir Birgi Leifi Hafþórssyni, en hann náði árangrinum 2006 og aftur árið 2007. Það hefur verið nóg að gera hjá Guðmundi, á því tæpa ári síðan hann tryggði sér keppnisréttinn, og hann keppt á átján mótum víðs vegar um heiminn.

Líður betur með minn leik

Í mótunum átján hefur Guðmundur fimm sinnum farið í gegnum niðurskurðinn. Eftir sjö erfið mót í röð hefur íslenski kylfingurinn nú komist í gegnum niðurskurðinn á tveimur af síðustu þremur mótum.

„Þetta hefur ekki gengið neitt spes. Maður þarf að standa sig rosalega vel til að fara í gegnum niðurskurðinn á þessari mótaröð og þetta hefði mátt vera betra. Tvö af síðustu þremur úti hafa samt verið nokkuð góð, það er ánægjulegt. Svo var ég fínn á Íslandsmótinu og mér líður betur með minn leik en fyrir tveimur mánuðum síðan,“ útskýrði hann.

Guðmundur varð í þriðja sæti á Íslandsmótinu á Urriðavelli um þarsíðustu helgi. Lék hann á sjö höggum undir pari og var fjórum höggum á eftir Loga Sigurðssyni, sem varð Íslandsmeistari.

„Það var bara fínt. Ég tók mér smá hlé eftir að ég kom heim frá Danmörku og æfði því ekki mikið fyrir Íslandsmótið. Það var fínt að slípa af sér ryðið í geggjuðu veðri og á geggjuðum velli. Ég var meira að hugsa um spilamennskuna sjálfa, en að reyna að vinna mótið,“ sagði hann.

Guðmundur hefur farið víða á tímabilinu og m.a. keppt í Suður-Afríku, Máritíus, Singapúr, Taílandi, Indlandi, Kenýa, Suður-Kóreu og um alla Evrópu.

„Mótin eru skemmtileg, en ferðalögin eru fullmikil. Það er ekkert spes að vera endalaust í flugvélum og á flugvöllum,“ viðurkenndi hann. Þá er alls ekki öruggt að kylfingar fái borgað fyrir hvert mót, þar sem þeir verða að fara í gegnum niðurskurðinn til að fá hluta af kökunni.

„Enginn þeirra sem fer ekki í gegnum niðurskurðinn fær borgað. Það er stutt á milli. Á British Masters fékk ég fimm fugla á síðustu sjö til að fara í gegnum niðurskurðinn. Það er mjög súrt þegar maður rétt missir af niðurskurðinum. Þetta var öðruvísi á Áskorendamótaröðinni, þegar þú fékkst lítið fyrir að komast í gegnum niðurskurðinn. Þá þarftu að komast í topp 15 til að enda ekki í mínus. Nú þarf ég að girða mig í brók til að halda keppnisréttinum,“ sagði hann.

Tékkland núna og Sviss næst

Þrátt fyrir mikla keyrslu undanfarna mánuði er nóg um að vera hjá Guðmundi á næstu vikum. „Þetta eru svona sjö mót sem ég á eftir á þessu ári. Eftir mót í Tékklandi núna um helgina tekur við mót í Sviss,“ sagði hann.

Guðmundur viðurkenndi að það væri langsótt að hann næði að halda keppnisréttinum í gegnum mót á Evrópumótaröðinni sjálfri. Hann þarf væntanlega að fara í gegnum annað úrtökumót til að halda áfram að keppa á stærsta sviðinu.

„Þar sem ég fékk minn keppnisrétt í gegnum úrtökumót, þarf ég að missa réttinn fyrst, til að geta fengið hann aftur í gegnum næsta úrtökumót. Þetta fer mikið eftir peningalistanum. Þeir sem eru í 100 efstu sætunum eru með mjög góðan keppnisrétt. Næstu 50 eru svo með aðeins minni keppnisrétt.“

Venst eins og annað

Það er ekki alltaf dans á rósum að vera atvinnukylfingur. Samkeppnin er gríðarleg og þarf góðan árangur til að ævintýrið skili hagnaði.

„Þetta venst eins og annað. Þetta er mikil vinna og maður hefur gert þetta lengi. Svona er raunveruleikinn. Maður finnur fyrir því að fleiri góðir kylfingar mæta á mótaröðina núna, þegar það er stutt í Ryder-bikarinn og önnur mót. Þá minnka líkurnar á að ég komist á stór mót eins og Opna írska, en þá fer ég niður í Áskorendamótaröðina þá helgi, það er alltaf möguleiki fyrir þá sem eru á Evrópumótaröðinni,“ sagði Guðmundur Ágúst.