Bestur Emil Atlason skoraði þrennu gegn KR í Garðabænum.
Bestur Emil Atlason skoraði þrennu gegn KR í Garðabænum. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
Emil Atlason framherji Stjörnunnar var besti leikmaður 20. umferðar Bestu deildar karla í knattspyrnu að mati Morgunblaðsins. Emil fór á kostum gegn KR í sigri Stjörnunnar í Bestu deild karla í knattspyrnu í Garðabænum en leiknum lauk með tveggja marka sigri Stjörnunnar, 3:1

Emil Atlason framherji Stjörnunnar var besti leikmaður 20. umferðar Bestu deildar karla í knattspyrnu að mati Morgunblaðsins. Emil fór á kostum gegn KR í sigri Stjörnunnar í Bestu deild karla í knattspyrnu í Garðabænum en leiknum lauk með tveggja marka sigri Stjörnunnar, 3:1.

Emil gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu en fyrsta markið skoraði hann eftir að hafa sloppið einn í gegn, annað markið eftir viðstöðulaust skot utarlega í teignum og það þriðja kom af vítapunktinum en Emil fékk þrjú M fyrir frammistöðu sína gegn KR-ingum.

Framherjinn, sem er þrítugur, hefur skorað 12 mörk í 14 leikjum í Bestu deildinni í sumar og er markahæsti leikmaður deildarinnar.

Hann er af miklum knattspyrnuættum en faðir hans er Atli Eðvaldsson heitinn. Atli lék 70 landsleiki fyrir Ísland, var um skeið leikjahæsti landsliðsmaður Íslands og fyrirliði liðsins lengi vel. Þá þjálfaði hann karlalandsliðið frá 2000 til 2003.

Systkini Emils eru þau Egill, Sif og Sara og eiga þau öll að baki leiki í efstu deild hér á landi. Egill á að baki 47 leiki í efstu deild með KR, Fram og Víkingi úr Reykjavík. Sara á að baki 19 leiki í efstu deild með FH. Þá á Sif að baki 131 leik í efstu deild með FH, Val og Selfossi og þá lék hún 90 A-landsleiki fyrir Ísland frá 2007 til 2022 ásamt því að fara á fjögur stórmót með landsliðinu.

Þá voru þrír leikmenn sem fengu tvö M fyrir frammistöðu sína í 20. umferðinni. Ágúst Eðvald Hlynsson skoraði tvívegis fyrir Blika í 2:1-sigri gegn Keflavík á Kópavogsvelli og Mathias Rosenörn markvörður Keflvíkinga. Víkingurinn Birnir Snær Ingason fékk einnig tvö M fyrir frammistöðu sína í 4:0-sigri gegn Val á Hlíðarenda.

Emil Atlason er í liðinu í fjórða sinn í sumar, líkt og FH-ingurinn Davíð Snær Jóhannsson. Birnir Snær er í liðinu í sjöunda sinn alls og Rosenörn er í liðinu í sjötta skiptið.