Kærur Vítalía kærði þrjá fyrir brot. Þeir kærðu hana fyrir fjárkúgun.
Kærur Vítalía kærði þrjá fyrir brot. Þeir kærðu hana fyrir fjárkúgun.
Ríkissaksóknari hefur staðfest ákvörðun héraðssaksóknara frá því í vor um að fella niður rannsókn á Hreggviði Jónssyni, Ara Edwald og Þórði Má Jóhannessyni. Morgunblaðið hefur staðfestingu ríkissaksóknara undir höndum en málið er tilkomið vegna kæru Vítalíu Lazarevu á hendur þeim

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Ríkissaksóknari hefur staðfest ákvörðun héraðssaksóknara frá því í vor um að fella niður rannsókn á Hreggviði Jónssyni, Ara Edwald og Þórði Má Jóhannessyni. Morgunblaðið hefur staðfestingu ríkissaksóknara undir höndum en málið er tilkomið vegna kæru Vítalíu Lazarevu á hendur þeim. Þeir hafa aftur á móti kært hana og Arnar Grant fyrir fjárkúgun.

Vítalía greindi opinberlega frá því í upphafi árs 2022 að mennirnir hefðu brotið á sér í sumarbústað í október 2020. Málið vakti mikla athygli og þeir viku í framhaldinu allir úr störfum sínum. Það var þó ekki fyrr en um mitt sumar 2022 sem Vítalía lagði fram kæru á hendur þeim. Rannsókn málsins var felld niður í apríl sl. en Vítalía kærði þá ákvörðun til ríkissaksóknara, meðal annars með þeim rökum að ekki hefði verið rætt við öll vitni málsins og að hægt væri að afla frekari gagna.

Í rökstuðningi ríkissaksóknara, þar sem ákvörðunin um að fella niður rannsókn er sem fyrr segir staðfest, kemur fram að hægt hefði verið að afla frekari gagna en embættið telji þó að það breyti ekki sönnunarstöðu málsins. Því sé ekki grundvöllur fyrir hendi til að halda rannsókn áfram.

Vítalia enn til rannsóknar

Sem fyrr segir kærðu þremenningarnir Vítalíu og Arnar Grant fyrir fjárkúgun, hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífsins. Rannsókn á þeirri kæru var felld niður í byrjun júní sl. en sú ákvörðun var kærð til ríkissaksóknara, sem hefur málið enn til meðferðar. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur lögreglan einnig til rannsóknar mál á hendur Vítalíu vegna uppflettinga í lyfjagátt, sem varðar við brot á friðhelgi einkalífs.