Bjarni Ragnar Magnússon fæddist í Reykjavík 28. september 1951.

Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 9. ágúst 2023.

Foreldrar hans eru Stefanía Lóa Valentínusardóttir, f. 17.6. 1932 og Magnús Karl Líndal Þorsteinsson, f. 28.6. 1923, d. 5.9. 1954.

Alsystir Bjarna er Sólveig Sigríður, f. 4.3. 1954.

Systkini sammæðra Ástríður Helga, f. 25.8. 1958, Lucia Kristín, f. 23.3. 1965, og Sævar Þór, f. 3.1. 1972.

Bjarni fór í vist til móðursystur sinnar 9 ára gamall en ílengdist þar fram á fullorðinsár.

Fósturforeldrar hans eru Sigurveig Jóhannsdóttir, f. 16.7. 1939 og Styrmir Haukdal Þorgeirsson, f. 14.10. 1936.

Fóstursystkyni hans eru Kristinn, f. 30.1. 1958, Jón, f. 6.8. 1966, Sigurður, f. 19.5. 1969, María, f. 8.2. 1972, Ásta, f. 14.5. 1974 og Jóhanna, f. 15.9. 1977.

Bjarni kvæntist Maríu Jakobsdóttur, f. 24.10. 1954, d. 24.6. 2022, þann 5.7. 1975.

Foreldrar hennar voru Sóley Magnea Marvinsdóttir, f. 24.6. 1933., d. 20.8. 2012, og Jakob Sigmarsson, f. 25.2. 1928, d. 7.4. 1996.

María og Bjarni eignuðuðst þrjú börn:

1. Sólberg Svanur, fæddur 17.11. 1971, kvæntur Ástu Björk Árnadóttur, f. 29.9. 1972. Börn þeirra eru a) Andri Þór, f. 1997, b) Hilmar Þór, f. 2001 og c) Hlynur Rafn, f. 2010. 2. Ástþór Karl, f. 20.10. 1975, kvæntur Ruth Kristjánsdóttur, f. 7.8. 1970. Börn þeirra eru: a) Kristján Jay, f. 1993 og b) Bjarni Már, f. 2002. 3. Ástríður Kristín, f. 28.4. 1983.

Bjarni gekk í Austurbæjarskóla. Eftir að hann lauk grunnskólagöngu þá vann hann sem handlangari í byggingarvinnu en svo lá leið hans í dekkin. Hann vann hjá Gúmmívinnustofunni og Sólningu þangað til að hann stofnaði sitt eigið verkstæði, Dekkjaþjónustuna, ásamt vini sínum. 1991 hóf hann störf á Dekkinu á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði þar sem hann vann lengst af við hlið Andrésar og Grétu, þar til Andrés féll frá og N1 tók við. Síðustu ár hugsaði Bjarni um Maríu eiginkonu sína í hennar veikindum.

Bjarni hafði gaman af að ferðast bæði innan og utanlands og þá sérstaklega fannst honum skemmtilegt að fara í fótboltaferðir að horfa á uppáhaldsliðið sitt Man. Utd. Honum fannst skemmtilegast þegar fjölskyldan var með í ferðunum sérstaklega þegar hann fór norður og í sumarbústað hjá N1 við Laugarvatn. Hann hafði einnig gaman af að mála myndir og á postulín.

Útförin fer fram í Hafnarfjarðarkirkju í dag, 23. ágúst 2023, klukkan 13.

Jæja, elsku pabbi minn, núna ertu kominn til elsku mömmu. Veit ekki hvað ég á að segja því ég er ennþá í áfalli yfir þessu öllu, hversu fljótt þú fórst frá okkur. Þú sem ætlaðir sko að fara að lifa lífinu eins og þú orðaðir það. Þetta blessaða líf getur verið svo ósanngjarnt stundum. Við áttum góðar stundir saman. Man þegar þú ákvaðst að ráða Ása þinn, þá 14 ára, í vinnu á dekkjaverkstæðinu þínu í Skeifunni, þar baðstu mig að gera við slöngu í hjólbörudekki, ég gerði við hana og setti hana aftur inn í dekkið, blés það upp en allt loft lak út jafnóðum. Ég kallaði þá á þig og bað þig að kíkja á þetta og þar kom í ljós að ég hafði margfaldað götin á slöngunni og þá sagðir þú: „Drengur, það er ekki hægt að treysta þér í slönguviðgerðir.“ Fótboltaleikirnir uppi á Kaplakrika alltaf á sunnudögum voru alltaf skemmtilegir þar til þú rifbeinsbrotnaðir í einum tímanum og mamma þurfti að taka á öllu sínu til þess að biðja þig að hætta í boltanum, sem þú varst ekki til í að gera en þurftir góðan tíma og ákvörðun til að hætta. Þú varst alltaf góður við strákana okkar, þá Kristján og Bjarna, og vildir allt fyrir okkur Ruth gera. Allar ferðirnar til útlanda voru líka skemmtilegar, einnig ferðir okkar innanlands bæði í sumarbústað við Laugarvatn og orlofsíbúðir á Akureyri. Þú varst líka nýbúinn að kaupa þér nýjan bíl sem þú varst mjög ánægður með og komst á honum til okkar og leyfðir okkur að prófa. Nýja íbúðin líka sem þú varst svo stoltur af og þér leið vel í. En svona getur þetta líf stundum verið, ekki sanngjarnt. Elsku pabbi minn, þú varst einstakur, hlýr, óeigingjarn, gjafmildur, góður vinur og ekki síst frábær pabbi, tengdapabbi og afi. Takk fyrir allt og hvíldu í friði.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Þinn sonur

Ástþór (Ási).

Ég sit hér og tárin streyma niður kinnarnar, einmanaleikinn og tómleikinn svífur yfir mig. Það er svo erfitt að sitja og skrifa minningargrein um yndislegasta og besta pabba sem ég get hugsað mér, en það sem situr eftir og yljar mér um hjartarætur eru allar minningarnar sem ég hef eignast með foreldrum mínum. Ég var það heppin að búa lengi heima og hef eignast mikið af minningum. Ég hef alltaf verið mikil pabbastelpa frá því ég fæddist, er yngst og hef alltaf verið litla stelpan hans pabba, sem hefur staðið við bakið á mér sem klettur alla mína ævi. Ég hef alltaf getað leitað til pabba með allt og alltaf getað treyst og sagt honum frá öllum mínum málum. Minningarnar hringsnúast í höfðinu á mér þessa dagana en það sem stendur upp úr eru allar utanlandsferðirnar, fótboltaferðirnar, ferðalögin, sumarbústaðir, grillveislur og bara að sitja heima saman á kvöldin að mála myndir fyrir mömmu og hlusta á góða tónlist. Það sem lýsir pabba svo vel er hversu góðhjartaður og yfirvegaður hann var. Mamma veiktist fyrir nokkrum árum og var það vinnan hans að sjá um hana á hverjum degi. Hann stóð sem klettur við hlið hennar sem var auðvitað stundum erfitt, en í fyrra féll hún frá eftir veikindi. Pabbi var nýfluttur í aðra íbúð og var búinn að koma sér fyrir eins og hann vildi. Hann ætlaði svo sannarlega að fara að njóta þess að vera til, en það er skammt stórra högga á milli og eftir skammvinn veikindi var hann orðinn mjög veikur. Ég veit hreinlega ekki hvernig hægt er að lifa áfram þessa stundina því sorgin og söknuðurinn er svo mikill en það líður ekki sá tími að hugur minn sé ekki hjá ykkur og þið verðið alltaf í mínu hjarta svo lengi sem ég lifi. Hvíldu í friði, elsku besti pabbi minn, ég sakna þín sárt og elska þig til tunglsins og til baka.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Þín dóttir,

Ásta Kristín Bjarnadóttir.

Elsku tengdapabbi, mikið getur lífið verið óréttlátt. Núna loksins varstu fluttur í nýju íbúðina þína og búinn að koma þér fyrir eins og þú vildir hafa það og svo stoltur af nýja bílnum. Ég hafði alveg nett gaman af því þegar þú vildir ólmur keyra til Keflavíkur til að sýna okkur nýja bílinn og að koma í mat í leiðinni. Alltaf hrósaðir þú mér fyrir matseldina enda alveg einstaklega auðvelt að gera þér til geðs í þeim efnum. Þú áttir það til að hringja og segja „gamla mín, getur þú nokkuð búið til uppáhaldskjúklingaréttinn minn?“ og boðið þér í mat og auðvitað var það ekkert mál. Það eru komin 22 ár síðan að ég kom fyrst á heimili Bjarna og Mæju á Hjallabrautina í mat. Ég var nú ekkert sátt út í Ástþór yfir að hafa boðið mér í mat til foreldra sinna eftir góða djammhelgi í Þórsmörk en þangað mætti ég í flíspeysu og gúmmítúttum í lambalæri og franskar. Ég held að þeim hafi nú ekkert litist á mig í fyrstu þegar þau sáu mig út um gluggann enda sögðu þau oft þessa sögu um þegar þau sáu mig fyrst. Þau hjónin stóðu við gluggann þegar við komum á planið. Þegar þau sáu mig leit Bjarni á Mæju og spurði hvaða sveitastelpu Ási hefði náð sér í. En annað kom á daginn, frá þessum degi var ég tekin inn í fjölskylduna með opnum örmum ásamt syni mínum honum Kristjáni. Bjarni og Mæja reyndust mér afskaplega vel og voru afbragðs tengdaforeldrar. Þegar við eignuðumst Bjarna Má þá var sko aldrei neitt mál að hafa hann, enda sótti Bjarni Már mikið í það að fara í Hafnarfjörðinn til ömmu og afa þar sem hann mátti ráða öllu, amma og afi hlýddu bara. Við höfum ferðast saman bæði innan- og utanlands og hafa þær ferðir verið mjög skemmtilegar. En síðustu ár hafa verið erfið, Mæja veiktist og þú, elsku Bjarni, hættir að vinna til að hugsa um elskuna þína þangað til yfir lauk hjá henni fyrir aðeins þrettán mánuðum. Fráfall hennar reyndist vera þér mjög erfitt og fannst þér erfitt í fyrstu að halda áfram en þetta var allt að koma. Ég vil þakka þér fyrir góðvildina og vináttuna sem við áttum ég og þú. Ég var einstaklega heppin með tengdaföður og á eftir að sakna þín. Hver á nú að rífast í mér varðandi suðurnesjalognið og góða veðrið í Hafnarfirði? Jæja Bjarni minn, nú er komið að leiðarlokum. Ég trúi því að þú sért kominn í fang Mæju þinnar aftur og sért laus við allan sársauka. Takk fyrir allt.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Þín tengdadóttir,

Ruth Kristjánsdóttir.

Tárin falla

sorgin snertir hjartað mitt

hugurinn reikar stjórnlaust

en hvert veit ég ekki.

Ég sé þig í huga mínum

geymi allar minningarnar um þig

í hjarta mínu

og dagurinn hverfur

út í buskann

og eilífðin sjálf stoppar.

(Solla Magg)

Lítill fugl sest í lófa minn, hvíslar í eyra mitt og flýgur burt en eftir sit ég hljóð. Hjartans góði bróðir minn kvaddi jarðvistina eftir erfið veikindi. Sporin voru þung þegar kveðjustundin kom og enn eru þau þung þegar minningarnar læðast fram í hugann og reika þar og eitt og eitt tár læðist niður vangann.

Elsku bróðir minn fékk dýrmæta vöggugjöf í veganesti þar sem almættið prýddi hann góðmennsku og æðruleysi, það var gjöf sem hann sýndi öllum sem hann kynntist. Bjarni var elskur að fjölskyldu sinni, það sýndi hann í verki og með miklum dugnaði þegar hann hugsaði einstaklega vel um Maju sína í öllum hennar veikindum, hjúkraði henni og sinnti allt til þess dags sem hún lést fyrir rúmu ári.

Stuttu eftir andlát Maju kom í ljós að Bjarni var veikur, aldrei lét hann neitt á því bera eða barði sér á brjóst yfir hversu mikið veikur hann var. Það var alltaf sama sagan þegar ég spurði hann hvernig hann hefði það, svarið var einfalt, þetta er allt að koma og á réttri leið.

Ég á margar minningar frá okkar uppvaxtarárum, skemmtilegasta minningin okkar var þegar Amma sendi okkur í mjólkurbúðina og bakaríið eftir franskbrauði. Á heimleiðinni dunduðum við okkur við að borða innan úr brauðinu enda var það dásamlega gott. Þegar heim var komið skar amma brauðið til helminga en lét ekki á neinu bera og orðaði það ekki við okkur þó svo það væri búið að tæta brauðið að innan. Skorpan var svo smurð og við vorum látin borða hana með smjöri og rabarbarasultu, það var það besta.

Bjarni hefur alltaf átt stóran sess í hjarta mínu, hann passaði vel upp á mig þegar við vorum börn og við áttum margar skemmtilegar stundir saman á æskuárunum í Múlakampnum. Þegar Bjarni var níu ára flutti hann til Sísíar frænku og Styrmis, þar bjó hann þangað til hann keypti sér sína fyrstu íbúð og fór að búa. Þó svo að við værum ekki lengur undir sama þaki gleymdi hann ekki litlu systur sinni.

Ég gleymi aldrei hvað ég varð hamingjusöm í sveitinni þegar ég fékk fyrsta sendibréfið mitt, það bréf kom frá Bjarna. Þar sýndi hann hvað hann var hugulsamur þegar hann gaf sér tíma til þess að skrifa mér og segja mér frá sumrinu, hvað hann hafði verið að gera og hvert hann fór. Ég geymi enn þetta dásamlega bréf.

Hjartans bróðir minn, núna siglir þú fleyi þínu í sumarlandið þar sem tekið verður á móti þér opnum örmun og með faðmlagi frá Maju þinni.

Hvíldu í friði, elsku bróðir minn.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Börnum og barnabörnum Bjarna, móður okkar og systkinum, fósturforeldrum, ættingjum og vinum votta ég mína dýpstu samúð.

Þín systir,

Sólveig Sigríður Magnúsdóttir (Solla Magg).

Nafli krakkaheimsins var róló milli Njálsgötu og Bjarnarstígs. Þetta var snemma á sjöunda áratugnum, og þeir sem bjuggu á Bergþórugötunni jöðruðu við að vera fjarlægar geimverur í okkar augum. Þó heimsmyndin hafi ekki verið stór þá kynntumst við öllum leikreglum mannlegs samfélags og lærðum að leysa ágreining og vandamál sem okkur þóttu ekki minna verð en kjarnorkuvá Kúbudeilunnar sem þá var á hápunkti. Bjarni var einn af okkur og þátttakandi í endalausum leikjum krakkanna, vetur, sumar, vor og haust. Hann var líka framarlega í fótboltafélaginu okkar sem hét Örin og varði heiður okkar allra á vettvangi knattspyrnunnar.

Það er á þessum árum og líklega eitthvað fram yfir tvítugt sem maður eignast vini, síðan kunningja. Það eru þó margar undantekningar á þessari meginreglu. Þau bönd og hnútar sem þarna voru hnýtt þekkja ekki tíma.

Okkur öllum til mikillar furðu liðu bernskuárin og heimurinn breyttist, brennó og fótbolti viku fyrir öðrum áhugamálum og fyrr en varði vorum við orðin fjölskyldufólk með skyldur víða.

Bjarni starfaði á dekkjaverkstæðum og gerði það með sóma. Hann var trygglyndur og reyndist sínum gömlu vinum vel alla leið. Það er ekki hægt að gera meira tilkall til nokkurs manns en að hann blómstri eins fallega og honum er gerlegt. Bjarni fór býsna nærri því marki. Dugnaður, trygglyndi og ósérhlífni eru orð sem minning hans kallar fram. Hans ágæta eiginkona, María, hafði að vísu ekki alist upp á Bjarnarstígsróló, en jafnvel þó svo að hún hefði gert það, þá hefði það litlu bætt við þeirra sambúð. Í öllum samræðum okkar gömlu strákanna nú hin síðari ár skinu synirinir, og síðan afa hlutverkið, í gegn, enda er það besta hlutverk sem hægt er að hlotnast. Nú eru þau hjón bæði horfin af vettvangi. Þó hljótt sé núna á okkar æskuslóðum, lifa minningarnar enn um krakka í leik með hrópum og köllum, með Bjarna í miðjum hópnum.

Hvíldu í friði, gamli vinur.

Þórður Sverrisson.

Lífið er kaflaskipt og við erum samferða fólki í mislangan tíma, sumir ganga með okkur skamma stund, aðrir lengur. Bjarni Ragnar Magnússon er einn þeirra sem voru okkur samferða til lengri tíma en hann vann hjá okkur Adda á Hjólbarðaverkstæðinu Dekkinu í Hafnarfirði í u.þ.b. 15 ár. Við vorum sannarlega heppin þegar Bjarni samþykkti að koma og vinna hjá okkur og taka við afgreiðslu verkstæðisins. Hann tók liðlega á móti öllum viðskiptavinum, stóð vaktina sallarólegur í törnum og leiddi öll vandamál farsællega til lykta. Þetta gerði Bjarni af þvílíkri snilld að fjöldi fólks var þess fullviss að hann ræki verkstæðið og það líkaði honum Adda mínum vel. Aldrei bar skugga á samstarf okkar enda var Bjarni traustur og einstaklega góður maður. Bjarni var endalaust stoltur af börnunum sínum og hafði unun af því að segja okkur hvað þau væru að gera í lífinu og elskaði hana Mæju sína og annaðist hana í veikindum hennar af alúð og elsku. Elsku Bjarni, takk fyrir vináttu, takk fyrir öll þín góðu störf.

Guð blessi og varðveiti minningu Bjarna Ragnars Magnússonar.

Innilegar samúðarkveðjur sendi ég Sólberg, Ástþóri og Ástu.

Gréta
Konráðsdóttir.