Það er því enginn grundvöllur fyrir hvalrekaskatti á íslenska banka enda hefur enginn hvalreki átt sér stað.

Fjármálakerfi

Hjörtur H. Jónsson

Forstöðumaður hjá ALM verðbréfum hf.

Ólíkt því sem nú gerist voru hvalrekar til forna mikið happ. Rekinn hvalur gat gefið af sér mat fyrir heilu sveitarfélögin, lýsi á lampana, leður í skóna og stoðir í byggingar. Um skiptingu hvalreka giltu flóknar reglur en þó gilti almennt sú regla að ræki hval á eignarlandi fékk landeigandi skatt af honum. Þannig hafði kirkjan til dæmis miklar tekjur af hvalrekum fyrr á öldum enda líklega stærsti einstaki landeigandinn á Íslandi.

Í dag er hugtakið hvalreki oftast notað um ófyrirséðan efnahagslegan ávinning sem verður vegna óvæntra ytri aðstæðna en ekki vegna eigin ágætis eða afreka, eins konar happdrættisvinning í víðum skilningi. Í viðskiptasögunni eru fjölmörg dæmi um hvalreka en með nýrri slíkum er til dæmis mikill og óvæntur hagnaður orkufyrirtækja í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu, sem leiddi til skyndilegra og mikilla hækkana á orkuverði.

Þegar hvalrekar hafa orðið einhvers staðar í hagkerfinu hefur oft vaknað upp þjóðfélagsumræða um það hvort ekki sé rétt og sanngjarnt að skattleggja hagnaðinn og sjá þannig til þess að þjóðfélagið í heild njóti einnig ávinnings af þessum óvænta og „óverðskuldaða“ hagnaði. Á stundum hefur þessi umræða leitt til sérstakrar skattlagningar eða svokallaðs hvalrekaskatts. Slíkir skattar hafa verið útfærðir á ótal vegu í gegnum tíðina en oftast þó þannig að þeir hafa verið tímabundnir og tekið mið af þegar orðnum atburðum en ekki framtíðartekjum líkt og almennt gildir um skattkerfið.

Algengustu rökin með hvalrekaskatti eru að slíkur skattur sé sanngjörn leið til að miðla óvæntum og miklum hagnaði að hluta til reksturs samfélagsins og að þar sem hann sé tímabundinn og sé skattlagning á þegar heimtar tekjur þá sé hann ekki líklegur til að hafa áhrif á framtíðarhegðun fyrirtækja og þar með ólíklegur til að hafa skaðleg áhrif á hagkerfið til lengri tíma litið. Algengar mótbárur eru að slíkur skattur dragi úr getu fyrirtækja til fjárfestinga og skapi óvissu í skattkerfinu (ef slíkur skattur hefur verið lagður á einu sinni er ekki ólíklegt að það gerist aftur við svipaðar aðstæður) sem sé líkleg til að breyta hegðun fyrirtækja til lengri tíma, til dæmis hvað varðar fjárfestingar.

Þegar hvalrekaskattur kemur til skoðunar er ofangreindu til viðbótar mikilvægt að hafa í huga að skattlagning hefur almennt áhrif á innbyrðis verðlagningu í hagkerfinu og að þótt tekjuöflun fyrir samfélagið sé mikilvægur tilgangur þess þá er það einnig mikilvægt markmið skattkerfis að hvetja til æskilegrar hegðunar á kostnað óæskilegrar. Þannig er til dæmis eitt af markmiðum skattlagningar á banka að draga úr áhættusækni þeirra og skattlagning á ökutæki styður við umhverfismarkmið stjórnvalda. Það verður því að gæta þess að mögulegur hvalrekaskattur vinni ekki gegn öðrum mikilvægum markmiðum skattkerfisins.

Að undanförnu hefur borið nokkuð á umræðu um mikinn hagnað íslensku bankanna og réttmæti þess að leggja á þá hvalrekaskatt til að þjóðfélagið fái sinn sanngjarna skerf. Almennt hefur gilt um þessa umræðu að talsmenn hvalrekaskatts hafa einblínt á upphæð hagnaðarins í krónum, sem vissulega er há tala, og gjarnan sett hana í samhengi við háa vexti, án þess að ræða kosti og galla skattheimtunnar að neinu marki. Raunin er hins vegar sú að í bönkunum er bundið mikið eigið fé og að arðsemi þess er síst of há, eða á milli 10 og 15 prósent. Hún hefur nú lækkað á milli ára hjá öllum stóru bönkunum enda ráða bankarnir ekki vaxtastigi heldur einungis vaxtamuninum sem þeir krefjast. Það er því enginn grundvöllur fyrir hvalrekaskatti á íslenska banka enda hefur enginn hvalreki átt sér stað.