Fiskeldi Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur boðað aðgerðaáætlun um framtíðarskipan fiskeldis sem er nú til umsagnar til loka september.
Fiskeldi Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur boðað aðgerðaáætlun um framtíðarskipan fiskeldis sem er nú til umsagnar til loka september. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Hörður Vilberg hordur@mbl.is Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hyggst leggja fram á vorþingi 2024 frumvarp um stefnumörkun fiskeldis á Íslandi til ársins 2028. Dúi J. Landmark upplýsingafulltrúi ráðuneytisins segir að yfirstandandi vinna byggist að stórum hluta á matvælastefnu sem sett hefur verið til 2040. Í henni er fjallað um helstu greinar lagareldis, sjókvíaeldi, landeldi, þörungarækt og úthafseldi. „Meginviðfangsefnin eru styrking á rannsóknum, vöktun og eftirliti, eins er fjallað um skipulag leyfa og gjaldtöku með umhverfishvötum.“

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hyggst leggja fram á vorþingi 2024 frumvarp um stefnumörkun fiskeldis á Íslandi til ársins 2028. Dúi J. Landmark upplýsingafulltrúi ráðuneytisins segir að yfirstandandi vinna byggist að stórum hluta á matvælastefnu sem sett hefur verið til 2040. Í henni er fjallað um helstu greinar lagareldis, sjókvíaeldi, landeldi, þörungarækt og úthafseldi. „Meginviðfangsefnin eru styrking á rannsóknum, vöktun og eftirliti, eins er fjallað um skipulag leyfa og gjaldtöku með umhverfishvötum.“

Fjallað var um stefnumótun á sviði fiskeldis í febrúar 2022. Í kjölfarið var óskað eftir því að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á stjórnsýslu fiskeldis sem skilaði skýrslu sinni um málið í janúar 2023. Í skýrslu ríkisendurskoðanda kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu hafi ýmis atriði fiskeldislöggjafarinnar reynst erfið í framkvæmd og brotalamir komið fram við framkvæmd hennar.

Í framhaldinu buðu Ríkiskaup út það verkefni að kortleggja framtíðarmöguleika lagareldis á Íslandi. Á grunni þess útboðs var samið við ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting Group sem veitti álit sitt í febrúar 2023. Í kjölfar þess hefur matvælaráðuneytið unnið að gerð stefnu fyrir lagareldi á Íslandi til ársins 2040.

„Fyrstu hugmyndir að slíkri stefnumótun voru kynntar á fundum með skilgreindum hagaðilum í júní og þar gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem og skriflega nú í sumar,“ segir Dúi. Náttúruverndarsamtök og veiðifélög víða um land vinna nú að umsögnum sínum en nokkur styr hefur staðið um greinina sem hefur vaxið mikið á undanförnum árum og útflutningur á eldislaxi aukist hratt með tilheyrandi atvinnusköpun víða um landið. Útflutningsverðmæti á eldislaxi nam um 30 milljörðum króna 2021 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.

Stefnt er að því að kynna drög að skýrslu um stefnumótunina í samráðsgátt stjórnvalda og almennings í lok september 2023 ásamt drögum að aðgerðaáætluninni. Í hverju hún felst hefur ekki verið gefið upp. Í framhaldi samráðsins verða unnin drög að frumvarpi til breytinga á lögum um fiskeldi og tengdum lögum sem ætlað er að skapa þann lagaramma sem þarf til að hrinda stefnumótuninni í framkvæmd. Lagt er upp með að slíkt frumvarp verði lagt fram á vorþingi 2024.

Fiskeldi

Lagaumgjörð og stefnumótun um fiskeldi er til umfjöllunar hjá matvælaráðherra.

Hluti af langtímastefnumörkun.

Greinin hefur reynst mikilvæg viðbót við atvinnulífið.

Náttúruverndarsamtök og veiðifélög undirbúa viðbrögð enda andsnúin sjókvíaeldi á laxi vegna strokulaxa.

Frestur til að skila inn áliti á boðuðu frumvarpi er til loka september.