Kærkomið „En mikið óskaplega er undirrituð samt þakklát fyrir að hafa fengið kærkomið tækifæri til að endurnýja kynni sín af Gilitrutt,“ segir í rýni um sumarsýningu Leikhópsins Lottu á Gilitrutt sem sýnd er út ágúst.
Kærkomið „En mikið óskaplega er undirrituð samt þakklát fyrir að hafa fengið kærkomið tækifæri til að endurnýja kynni sín af Gilitrutt,“ segir í rýni um sumarsýningu Leikhópsins Lottu á Gilitrutt sem sýnd er út ágúst. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú fer hver að verða síðastur að sjá sumarsýningu Leikhópsins Lottu í ár. Fyrir valinu þetta sumarið varð Gilitrutt eftir Önnu Bergljótu Thorarensen með tónlist eftir Baldur Ragnarsson, Björn Thorarensen, Gunnar Ben og Helgu Ragnarsdóttur við…

Af leiklist

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Nú fer hver að verða síðastur að sjá sumarsýningu Leikhópsins Lottu í ár. Fyrir valinu þetta sumarið varð Gilitrutt eftir Önnu Bergljótu Thorarensen með tónlist eftir Baldur Ragnarsson, Björn Thorarensen, Gunnar Ben og Helgu Ragnarsdóttur við söngtexta Baldurs og í leikstjórn Ágústu Skúladóttur.

Í viðtali við Morgunblaðið fyrir frumsýninguna í Elliðaárdalnum fyrr í sumar, áður en hópurinn lagðist í flakk um landið með sýninguna, fór höfundur verksins og stofnmeðlimur Lottu ekki dult með að verkefnavalið væri mótað af þeim þrengingum sem leikhópurinn lenti í meðan heimsfaraldurinn gekk yfir. Þrátt fyrir fögur loforð stjórnvalda fékk Lotta, líkt og fleiri sjálfstæðir leikhópar, ekki nauðsynlegan stuðning sem leiddi til þess að seglin voru rifuð tímabundið og endurhugsa þurfti starfsemina. Eftir mögur covid-ár getur Lotta loks snúið vörn í sókn og þá er vel til fundið að fagna því að tíu ár eru síðan Gilitrutt var fyrst sett upp og heillaði landsmenn upp úr skónum.

Í verkinu fléttar Anna Bergljót saman þremur ástsælum þjóðsögum sem flest okkar fá að kynnast á unga aldri. Þetta eru sögurnar um hina ráðagóðu og göldróttu Búkollu, geiturnar þrjár sem dreymir um grasið sem er grænna hinum megin árinnar og leggja yfir brúna þrátt fyrir að undir henni búi hættulegt tröll og loks tröllskessuna Gilitrutt sem tekið hefur að sér ullarvinnu fyrir lata húsfreyju gegn því að sú síðarnefnda giski á rétt nafn hennar í aðeins þremur tilraunum eigi ekki að hljótast verra af.

Tröllskessan Gilitrutt leikur aðalhlutverkið í sýningunni, því hún er ekki aðeins aðalpersónan í eigin sögu heldur reynist einnig vera skessan í sögunni um Búkollu og tröllið sem býr undir brúnni. Auk titilpersónunnar fá áhorfendur að kynnast húsfreyjunni á Bakka og börnum hennar tveimur sem hún gerir illa upp á milli og bróður Gilitruttar, Bárði, sem skessan uppnefnir Klaufa-Bárð sökum þess að henni finnst góðmennska hans og græskuleysi sífellt þvælast fyrir illum áformum hennar.

Höfundur leikritsins snýr upp á væntingar okkar og fyrir fram þekkingu á efniviðnum með skemmtilegum og skapandi hætti. Þó að leiktextinn sé að stærstum hluta sá sami og var fyrir tíu árum hafa vísanir í samtímann verið uppfærðar með smellnum hætti. Jafnframt hefur sviðsetningin verið fimlega unnin inn í nýjan sýningarstað og nýja leikmynd á tveimur hæðum, sem býður upp á góðar sjónlínur og frábærar leikrænar lausnir. Sem dæmi um þetta má nefna flotta útfærslu á því þegar Bárður dettur í lækinn og við sjáum hann á kafi. Einnig verður að hrósa hópnum fyrir snilldarlega útfærslu á vatninu, eldinum og fjallinu ógurlega sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi.

Leikhópurinn nú er nánast sá sami og var fyrir áratug. Þannig má njóta þess að sjá reynsluboltann Sigstein Sigurbergsson fara á kostum sem hina litríku Gilitrutt, enda hefur hann kómískar tímasetningar fullkomlega á valdi sínu. Andrea Ösp Karlsdóttir miðlar góðmennsku Bárðar af sannfærandi innlifun og er fyrir vikið hjarta sýningarinnar. Stefán Benedikt Vilhelmsson og Rósa Ásgeirsdóttir fara vel með hlutverk sín sem geitapabbi og -mamma annars vegar og systkinin Þór og Þóra hins vegar. Auk þess bregður Stefán sér í gervi Búkollu. Sumarliði V. Snæland Ingimarsson, sem þreytti frumraun sína hjá Lottu sem litli andarunginn sumarið 2017, hefur tekið við af Baldri Ragnarssyni í þremur ólíkum hlutverkum sem hann gerir sér mikinn mat úr. Þar er um að ræða litla kiðakið sem lætur sig dreyma mikla hetjudrauma, húsmóðurina Freyju á Bakka sem sómt gæti sér í hvaða svart/hvítri gotneskri hrollvekju sem er og loks fuglinn fljúgandi, sem kemur skemmtilega á óvart í þremur drepfyndnum innkomum. Undir styrkri og hugvitsamlegri leikstjórn Ágústu Skúladóttur ræður leikgleðin ríkjum. Leikhópurinn fer á kostum í leik, söng og dansi þar sem nostrað er við smáatriði sem gleðja, hvort heldur það er samhæfður dans með sólhlífum í anda gömlu dans- og söngvamyndanna frá Hollywood, sólódansspor Gilitruttar eða hárréttar hraðabreytingar í laginu þar sem Freyja reynir að geta upp á nafni skessunnar með tilheyrandi örvæntingu. Fyrir hálfri öld var sungið „Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott“ og það má að sönnu heimfæra á sumarsýningu Lottu. Ef ekki hefði verið fyrir faraldurinn sem setti öll plön úr skorðum hefði Gilitrutt ekki ratað á svið sem sumarsýning Lottu þetta árið. En mikið óskaplega er undirrituð samt þakklát fyrir að hafa fengið kærkomið tækifæri til að endurnýja kynni sín af Gilitrutt, því „það er engin önnur skessa sem kemst nærri þér“, eins og Bárður syngur um systur sína.