Kænugarður Þessi mæðgin skoðuðu í fyrradag hræ af rússneskum bryndrekum, sem stillt var til sýnis í Kænugarði.
Kænugarður Þessi mæðgin skoðuðu í fyrradag hræ af rússneskum bryndrekum, sem stillt var til sýnis í Kænugarði. — AFP/Roman Pilipey
Harðir bardagar hafa geisað undanfarna daga um þorpið Robotyne í Saporísja-héraði. Sögðu rússneskir herbloggarar í gær að Úkraínuher hefði náð að brjóta sér leið inn í mitt þorpið en að Rússar héldu enn uppi vörnum þar

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Harðir bardagar hafa geisað undanfarna daga um þorpið Robotyne í Saporísja-héraði. Sögðu rússneskir herbloggarar í gær að Úkraínuher hefði náð að brjóta sér leið inn í mitt þorpið en að Rússar héldu enn uppi vörnum þar.

Úkraínskir fjölmiðlar hermdu hins vegar að þorpið væri nær alfarið á valdi Úkraínumanna en að skærur ættu sér stað í suðurhluta þess. Birtu þeir jafnframt myndskeið sem sýndu íbúa þorpsins taka Úkraínuher fagnandi en Rússar hernámu það í fyrrasumar.

Þorpið er talið hernaðarlega mikilvægt, þar sem það liggur að borginni Tokmak, sem þykir mikilvæg fyrir birgðalínur Rússa í suðurhluta Úkraínu. Þá gæti frelsun þess gefið Úkraínuher möguleika á að sækja fram á svæðum handan jarðsprengjubeltisins sem Rússar hafa lagt við fremstu víglínu.

Samkvæmt stöðumati bandarísku hugveitunnar Institute for the Study of War (ISW) hafa Úkraínumenn einnig gert gagnárásir við Bakhmút í Donetsk-héraði og Kreminna í Lúhansk-héraði á síðustu dögum. Þá segir ISW einnig að rússneskir herbloggarar kvarti nú mjög undan því að rússneska hermenn skorti vígbúnað og farartæki. Gengið hafi verulega á baráttuþrek þeirra.

Þá kvarti liðsforingjar Rússa undan því að þá skorti getuna til að svara stórskotahríð Úkraínumanna á sitt eigið stórskotalið. ISW sagði þó einnig nokkur teikn á lofti um að rússneskir hermenn væru að læra af fyrri mistökum í þessum efnum.

Skutu niður dróna

Rússnesk stjórnvöld sögðust í gær hafa skotið niður fimm dróna frá Úkraínumönnum, sem beint hafi verið að skotmörkum í Rússlandi. Hafa drónaárásir Úkraínumanna á Rússland færst í aukana á síðustu vikum og hafa þeir einkum beint spjótum sínum að Moskvu, höfuðborg Rússlands. Var þetta fimmti dagurinn í röð.

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði í gær að árásir Úkraínu á Moskvu stæðust alþjóðalög, þar sem þeir væru að verja sig fyrir innrás Rússa. Benti Baerbock á að Rússar hefðu sjálfir ráðist grimmt á borgaraleg skotmörk í Úkraínu.

Breska varnarmálaráðuneytið sagði í stöðumati sínu í gær að ýmislegt benti til þess að drónunum væri skotið á loft innan landamæra Rússlands.

Þannig væru mjög miklar líkur á því að Úkraínumenn hefðu náð að eyðileggja Tu-22M3 Backfire-sprengjuvél rússneska flughersins á jörðu niðri með drónaárás um 650 kílómetrum frá landamærum Rússlands og Úkraínu.

Sú tegund dróna sem talið er að Úkraínumenn hafi beitt sé hins vegar ekki nægilega langdræg til þess að fljúga frá Úkraínu að herflugvellinum þar sem Backfire-vélin var staðsett. Þá sagði í mati Breta að þetta væri þriðja árásin á flugstöð þar sem langdrægar sprengjuvélar Rússa eru geymdar, sem vitað væri um að hefði heppnast, og hefði árásin því vakið upp nokkrar spurningar um getu þeirra til þess að verja mikilvæg hernaðarskotmörk sín.

Úkraínumenn segjast hafa eyðilagt tvær vélanna í árásinni á laugardaginn og valda tjóni á tveimur til viðbótar en ekki hefur verið hægt að staðfesta þá fullyrðingu.

Wagner til Afríku

Jevgení Prigósjín, stofnandi Wagner-málaliðahópsins, birti myndband af sér í fyrradag, þar sem hann gaf til kynna að hann væri kominn til Afríku og að Wagner-hópurinn væri nú að gera álfuna „frjálsari“.

Sást Prigósjín halda á vélbyssu í myndbandinu og benti hann á röð bryndreka, sem væru nú í upplýsingaöflun og leitaraðgerðum. Sagði Prigósjín að hópurinn ætlaði sér að gera „Rússland betra í öllum heimsálfum“. Lítið hefur borið á Prigósjín síðustu mánuði, eða eftir uppreisn Wagner-hópsins í lok júní.

Prigósjín sendi einnig frá sér tilkynningu, þar sem hann sagði að valdarán hersins í Níger í júlí síðastliðnum væri hluti af baráttunni gegn „nýlenduveldunum“, en talið er að herforingjastjórnin þar sé hliðholl Rússum.

Ráðast gegn spillingu

Stjórnvöld í Úkraínu tilkynntu í gær að lögregluyfirvöld hefðu gert rassíur á herkvaðningarstöðvar vítt og breitt um landið. Náðu aðgerðirnar til rúmlega 200 stöðva, í nær öllum héruðum landsins.

Voru rassíurnar hluti af aðgerðum lögreglunnar gegn spillingu í herkvaðningu, þar sem embættismenn hafa þegið mútur í skiptum fyrir að lýsa einstaklinga óhæfa til herþjónustu.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti vék fyrr í mánuðinum nokkrum embættismönnum frá störfum vegna málsins og sagði við það tækifæri að athæfi mannanna gæti jafnvel talist landráð.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson