[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mariam Eradze, lykilmaður Íslandsmeistara Vals í handknattleik, varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í leik með liðinu á Ragnarsmótinu, æfingamóti sem fer fram á Selfossi um þessar mundir. Mariam er 24 ára gömul og hefur leikið með Val…

Mariam Eradze, lykilmaður Íslandsmeistara Vals í handknattleik, varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í leik með liðinu á Ragnarsmótinu, æfingamóti sem fer fram á Selfossi um þessar mundir. Mariam er 24 ára gömul og hefur leikið með Val undanfarin þrjú tímabil eftir að hafa áður leikið með Toulon í Frakklandi. Hún missir af öllu næsta tímabili og missir sömuleiðis af HM, sem hefst í nóvember.

Knattspyrnumaðurinn Kristian Nökkvi Hlynsson er í liði vikunnar í hollensku B-deildinni en hann er samningsbundinn stórliði Ajax. Kristian Nökkvi, sem er 19 ára gamall, var á skotskónum fyrir varalið félagsins þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir De Graafschap, 2:1. Hann lék einnig sinn fyrsta aðalliðsleik fyrir Ajax í úrvalsdeildinni um síðustu helgi þegar hann kom inn á sem varamaður á 90. mínútu í 2:2-jafntefli gegn Excelsior á útivelli.

Knattspyrnudeild ÍBV hefur verið sektuð um 100.000 krónur vegna framkomu stuðningsmanna í garð dómara eftir 1:7-tap liðsins gegn Val í Bestu deild kvenna 29. júlí síðastliðinn. Ásgeir Viktorsson, annar aðstoðardómara leiksins, kvartaði yfir ýmsum ógeðfelldum ummælum stuðningsmannanna í sinn garð í skýrslu sinni eftir leik. Á meðan á leik stóð óskaði Ásgeir eftir því að gæslumenn fjarlægðu stuðningsmennina af svæðinu, en ekki var orðið við því.

Knattspyrnumaðurinn Logi Tómasson skrifaði í gær undir þriggja ára samning við norska félagið Strømsgodset. Kemur hann til félagsins frá Víkingi úr Reykjavík, þar sem hann er uppalinn. Logi, sem er bakvörður, er 22 ára. Hann hefur verið á mála hjá Víkingi alla tíð, en þó verið lánaður í Þrótt í Reykjavík og FH. Hann á 90 leiki að baki í efstu deild hér á landi og níu mörk. Þá hefur Logi leikið tvo A-landsleiki. Síðasti leikur Loga með Víkingum var 4:0-útisigurinn á Val í Bestu deildinni, þar sem hann skoraði glæsilegt þriðja mark liðsins. Miðvörðurinn Ari Leifsson leikur með Strømsgodset.

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ úrskurðaði í gær sex leikmenn í eins leiks bann í Bestu deild karla í fótbolta. KR verður án Ægis Jarls Jónassonar og Theódórs Elmars Bjarnasonar er liðið leikur við Fylki á sunnudag. Þá eru þeir Kjartan Henry Finnbogason úr FH, KA-maðurinn Daníel Hafsteinsson og Adolf Daði Birgisson úr Stjörnunni komnir í eins leiks bann fyrir fjögur gul spjöld á leiktíðinni. Keflvíkingurinn Edon Osmani er einnig kominn í bann fyrir rauða spjaldið sem hann fékk gegn Breiðabliki í síðustu umferð.

Þrír leikmenn úr Bestu deild kvenna voru úrskurðaðir í bann í gær. Olga Sevcova hjá ÍBV og Valskonan Málfríður Anna Eiríksdóttir fyrir fjögur gul spjöld og Katla María Þórðardóttir úr Selfossi fyrir rauða spjaldið sem hún fékk gegn Þór/KA í síðustu umferð.