Guðrún Magnúsdóttir fæddist í Ólafsfirði 15. júní 1945. Hún lést í faðmi fjölskyldu sinnar 15. ágúst 2023 á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði.

Foreldrar hennar voru Jósefína Marsibil Jóhannsdóttir, f. 1914, d. 1996, og Magnús Jón Guðmundsson, f. 1913, d. 1980. Systkin hennar eru Júlíus, f. 1936, Sigurður, f. 1938, d. 2011, Hildur, f. 1942, d. 2019, og Erla, f. 1947.

Guðrún ólst upp með foreldrum sínum og systkinum í Ólafsfirði.

Hún á þrjár dætur frá fyrra hjónabandi. Þær eru:

1) Laufey Marsibil, f. 24. desember 1962, gift Rögnvaldi Guðmundssyni, f. 18. september 1958, þeirra börn eru Tinna, f. 1985, sambýlismaður Ragnar Mar, f. 1984, börn þeirra Maren Marsibil og Röggi Mar, Guðmundur, f. 1990, sambýliskona Sandra, f. 1997, og saman eiga þau eina dóttur, Aþenu Kristínu. Fyrir á Laufey Sigurð Gunnar, f. 1982, giftur Katrínu Sif, f. 1986, og saman eiga þau Stefán, Alexander og Konný Marsibil. Rögnvaldur á fyrir dótturina Ellu Björgu, f. 1984.

2) Sigríður Júlía, f. 10. maí 1964, gift Einari Ámundasyni, f. 1. ágúst 1959, börn þeirra eru Haukur, f. 1982, og Ingibjörg, f. 2000.

3) Birna, f. 1. nóvember 1968, gift Gísla Sigurðssyni, f. 7. júní 1969, og dætur þeirra eru Guðrún Tara, f. 1990, og Tanja Marsibil, f. 1997.

Guðrún giftist hinn 3. ágúst 1985 Lárusi Sólberg Guðjónssyni, f. 25. september 1951 á Skagaströnd en uppalinn í Hafnarfirði þar sem þau hjónin hófu búskap. Börn þeirra eru:

1) Karen Ósk, f. 6. júní 1985, hún á þrjú börn með fyrrverandi eiginmanni sínum, Skúla Thorarensen, Mikael Lárus, f. 2005, Guðrúnu Lilju, f. 2010, og Maríu Aðalheiði, f. 2014. Sambýlismaður Karenar er Andri Johnsen, f. 7. febrúar 1989.

2) Magnús Guðjón, f. 15. september 1987, giftur Ragnhildi Aradóttur, f. 20. júní 1988, dætur þeirra eru Soffía Karen, f. 2013, og Emilía Inga, f. 2019. Fyrir á Lárus eina dóttur, Þóru Björk, f. 16. mars 1981, og á hún soninn Daniel Eric, f. 2007.

Guðrún og Lárus bjuggu í Hafnarfirði alla sína sambúð og líkaði vel. Síðustu árin bjuggu þau á Burknavöllum 17 en Guðrún bjó á hjúkrunarheimilinu Sólvangi þegar hún lést.

Guðrún fékk sína barnaskólagöngu eins og tíðkaðist á þeim tíma. Hún var mikill vinnuþjarkur alla tíð og vann einkum í fiski sem ung kona en eftir að hún settist að í Hafnarfirði vann hún lengst af sem skólaliði í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ ásamt því að sinna fyrirtæki þeirra hjóna, Veiðibúð Lalla, á sínum tíma.

Útför Guðrúnar fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 23. ágúst 2023, klukkan 15.

Þú varst alltaf svo góð við mig,

ég fékk athygli þína óskipta,

þú lifðir fyrir mig,

hlustaðir á mig,

talaðir við mig,

leiðbeindir mér,

lékst við mig,

sýndir mér þolinmæði,

agaðir mig í kærleika,

sagðir mér sögur,

fræddir mig

og baðst með mér.

Þú varst alltaf svo nærgætin

og skilningsrík,

umhyggjusöm og hjartahlý.

Þú varst skjól mitt og varnarþing.

Við stóðum saman í blíðu og stríðu,

vorum sannir vinir.

Mér þótti svo undur vænt um þig,

elsku mamma mín.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Elsku mamma, takk fyrir allt.

Elska þig.

Þín K –

Karen Ósk.

Okkur systkinin langar að fá að minnast hennar ömmu með nokkrum orðum.

Amma var keppniskona mikil og hafði gaman af íþróttum og þar voru fótboltaleikir með Manchester United toppurinn, þar sem hún sat og horfði af miklu kappi. Á meðan hún horfði sat hún oftar en ekki með tvo lítra af ís í fanginu og gæddi sér á honum á milli þess sem hún tók nokkrar magaæfingar, því ekki mátti gleyma að hugsa um heilsuna.

Amma var ávallt sú sem hélt uppi stuði og stemningu með söng og gítarspili, eftirminnilegt er hennar fræga lag „besti-mamma-rá“ sem öll hennar barnabörn kunna utan að þótt enginn skilji textann ef texta skyldi kalla. Þetta lag öskursöng hún af mikilli innlifun og iðulega lyfti hún svo upp rauðvínsglasinu og mælti hið eftirminnilega: „Herðum drykkjuna!“

Amma var alltaf góð við alla og mátti ekkert aumt sjá. Við minnumst þess oft þegar við vorum í stórum fjölskylduhittingi og var hundurinn okkar, hann Sesar, með.

Amma var alltaf hálfsmeyk við hann en sótti samt lúmskt í hann. Í þessari ferð hafði amma verið í eldhúsinu að græja lambalæri fyrir allan hópinn þegar allt í einu mætir Sesar fram, ægilega sáttur við lífið með heilt lambalæri í kjaftinum.

Þá hafði amma vorkennt honum og gefið honum heilt læri, horfði svo á hann og spurði: „Erum við vinir núna?“

Það var mjög erfitt fyrir fjölskylduna að horfa upp á ömmu hverfa inn í heim veikindanna, en það sem auðveldaði okkur lífið var að hún tapaði aldrei hlýjunni, húmornum og gleðinni.

Hún elskaði ekkert meira en að hafa fólkið sitt hjá sér og þá sérstaklega barnabörnin og barnabarnabörnin og var ömmufangið alltaf jafn hlýtt og gott.

Við lifum áfram með ljúfar minningar um magnaða konu.

Þangað til næst elsku amma.

Þín barnabörn,

Tinna og
Guðmundur.

Elsku amma Gunna. Mikið erum við heppnar að hafa fengið að kalla þig ömmu og erum við þakklátar að eiga dýrmætar minningar sem mun aldrei gleymast í hjörtum okkar. Þú varst alltaf svo glöð og alltaf stutt í hláturinn, góð manneskja og vildir gera allt fyrir alla.

Minningin sem við munum allar eftir er sennilega þegar við fengum að halda smá afmælisveislu fyrir þig 2020. Þú varst svo ánægð og fín þennan dag, við sungum öll með þér og þú kunnir alla texta upp á tíu sem var dásamlegt að fylgjast með.

Annars langar okkur að segja að þú varst yndisleg amma, knúsin frá þér voru þau bestu og við vorum alltaf öruggar í fanginu þínu. Við söknum þín ótrúlega mikið og við elskum þig.

Kveðja,

Guðrún Tara, Tanja Marsibil og Ingibjörg (Imma).

Elsku amma.

Ég er svo heppin að hafa átt þig sem ömmu.

Ég mun aldrei gleyma því þegar ég var heima hjá þér og afa og þú varst að syngja og dansa við Skoppu.

Þú varst alltaf syngjandi, dansandi og trallandi eitthvað og meira að segja þegar þú varst orðin mjög veik þá söngstu enn.

Ég mun sakna þín mjög mikið og aldrei gleyma þér.

Soffía Karen.

hinsta kveðja

Æ, amma, hvar ertu? Æ, ansaðu mér.

Því er ég að gráta og kalla eftir þér.

Fórstu út úr bænum eða fórstu út á hlað?

Eða fórstu til Jesú í
sælunnar stað?

(Höf. ók.)

Takk fyrir allt elsku amma mín. Ég elska þig og sakna þín.

Þinn Lalli litli

Mikael Lárus.

Elsku amma.

Ég man svo vel eftir því þegar þú komst til okkar að brjóta saman þvottinn. Það fannst þér skemmtilegt. Þú varst alltaf syngjandi og kunnir öll lög. Einu sinni þurfti ég að læra eitthvert ljóð fyrir skólann og á meðan ég var að æfa mig þá söngst þú það fyrir mig.

Ég elska þig af öllu mínu hjarta.

Þín

Guðrún Lilja.

Elsku amma.

Mér fannst svo gott að koma til þín á Sólvang og horfa á Tomma og Jenna með þér. Ég elska þig til tunglsins og til baka. Ég veit að þú verður alltaf hjá mér. Mér fannst svo gaman að syngja með þér. Ég sakna þín.

Þín

María Aðalheiður.