Ferðamynstur Fólk sinnir vinnu sinni í auknum mæli heima við eftir covid-19 faraldurinn. Breytingin er mest á Suðurlandi.
Ferðamynstur Fólk sinnir vinnu sinni í auknum mæli heima við eftir covid-19 faraldurinn. Breytingin er mest á Suðurlandi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný rannsókn Háskólans á Akureyri sýnir að 31% íbúa jaðarsvæða höfuðborgarsvæðisins sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðinu og 23% íbúa nærsveita Akureyrar sem sækja vinnu til Akureyrar segja að breyting hafi orðið á vinnusókn sinni í kjölfar covid-19 faraldursins

Baksvið

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Ný rannsókn Háskólans á Akureyri sýnir að 31% íbúa jaðarsvæða höfuðborgarsvæðisins sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðinu og 23% íbúa nærsveita Akureyrar sem sækja vinnu til Akureyrar segja að breyting hafi orðið á vinnusókn sinni í kjölfar covid-19 faraldursins. Verkefnið var unnið fyrir Rannsóknasjóð Vegagerðarinnar.

Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð háskólans, sem stýrði rannsókninni segir að kófið hafi vakið athygli hennar á mikilvægi fjarvinnu. Sjálf flutti hún frá Suðurlandi til Siglufjarðar á síðasta ári en stundar vinnu sína á Akureyri.

„Ég hafði alltaf átt þann draum að búa úti á landi,“ segir Sæunn.

Hún bætir við að þegar covid skall á hafi faraldurinn leitt í ljós þá möguleika sem séu til staðar til að sinna fjarvinnu. Var ákveðið að kanna þá í góðu samstarfi við sveitarfélög víða um landið og BHM.

Munur á mill kynja

Nærri sjö af hverjum tíu á jaðarsvæðum höfuðborgarsvæðisins sóttu áður vinnu þar fimm sinnum í viku en nú gerir það rúmlega helmingur fólks. Breytingin á Akureyri er minni en nú sækja sjö af hverjum tíu frá nálægum byggðum bæjarins vinnu þar fimm daga í viku. Mest breyting hefur orðið á vinnusókn íbúa Suðurlands á höfuðborgarsvæðinu, en 39% þátttakenda þaðan sögðu mun á vinnusókn sinni eftir covid. Tæp 70% íbúa Suðurlands sem sóttu vinnu á höfuðborgarsvæðinu fyrir covid gerðu það fimm sinnum í viku eða oftar en nú gera það aðeins 35%.

Merkjanlegur munur er á milli kynja meðal þeirra sem sækja vinnu utan heimabyggðar en 65% kvenna sem sóttu vinnu utan heimabyggðar gerðu það fimm sinnum í viku eða oftar fyrir covid en 45% eftir covid. Breytingin hjá körlum er einungis 4% og hefur hlutfallið farið úr 75% í 71%. „Mér finnst mjög athyglisvert hvað það er mikill munur á milli landshluta,“ segir Sæunn.

Þeir sem hafa sótt sér háskólamenntun vinna í auknari mæli heima en þeir sem eru með grunnskóla- eða framhaldsskólamenntun. „Eftir covid hefur bilið breikkað,“ segir í niðurstöðum rannsóknarinnar. Þá segjast 28% íbúa jaðarsvæða höfuðborgarsvæðisins fara sjaldnar til og frá höfuðborgarsvæðinu eftir faraldurinn. Hlutfallið er mun lægra í byggðum nærri Akureyri, eða 7%.

Stytting vinnuvikunnar hefur verið innleidd og það hefur haft sín áhrif. „Að fara úr fimm dögum niður í fjóra. Algjör viðsnúningur er á hlutfalli þeirra sem segjast hafa möguleika á heimavinnu í dag samanborið við rannsóknir sem voru framkvæmdar fyrir Covid,“ segir m.a. í niðurstöðunum rannsóknar Háskólans á Akureyri.

Flestir aka einir

Viðhorf til fjarvinnu eru metin jákvæðari en áður, einkum meðal kvenna. Þeir sem sækja vinnu utan heimabyggðar fara í 95% tilvika ferða sinna á einkabíl en aðeins 1% nýtir sér almenningssamgöngur. Níu af hverjum tíu ferðast einir í bílum sínum. „Það er ekki góð nýting á almenningssamgöngum á Íslandi. Það er mjög jákvætt ef fleiri hafa möguleika til þess að vinna heima og draga úr kolefnisspori sínu,“ segir Sæunn.

Gögn frá EUROSTAT

Íslendingar eftirbátar

Gögn Eurostat, hagstofu ESB, frá þessu ári benda til þess að Íslendingar séu eftirbátar annarra þjóða í að innleiða fjarvinnu í kjölfar covid-19 faraldursins. Í gögnunum kemur fram að aðeins 8,7% Íslendinga unnu oftast heima árið 2020 og 6,6% árið 2022, samanborið við 25,1% og 23,1% í Finnlandi sömu ár og 23,1% og 17,7% í Lúxemborg. Rannsóknir á Norðurlöndunum sýna að í kjölfar faraldursins hafi fólk mestan áhuga á að stunda fjarvinnu að hluta til frekar en að öllu leyti enda er maður manns gaman.

Suðurland sker sig úr og getur Hellisheiðin og veðuraðstæður í vetur haft þar nokkuð að segja. Rafbílum hefur fjölgað hratt í umferðinni á Íslandi og nýtir rúmlega þriðjungur sér nú þann farkost. Ákvörðunin um að skipta yfir í rafmagnsbíl skiptir sköpum hjá þeim sem ferðast til vinnu um lengri veg.