Eggert Friðriksson fæddist á Ólafsfirði 17. apríl 1964. Hann lést í faðmi fjölskyldu sinnar á Sjúkrahúsi Akureyrar 12. ágúst 2023.

Eggert var sonur hjónanna Unu Matthildar Árnadóttur, f. 1. mars 1938, d. 26. júní 2023, og Friðriks Hermanns Eggertssonar, f. 19. júlí 1936, d. 15. desember 2021.

Systkini Eggerts eru stúlka, f. 20. júní 1957, d. 20. júní 1957; Ágústa Amalía Friðriksdóttir, maki Svanur Þór Eðvaldsson; Agnes Dagný Friðriksdóttir;

Kristín Andrea Sæby, maki Gunnlaugur Benóný Sigurgeirsson.

Eiginkona Eggerts er Hafdís Ósk Kristjánsdóttir, f. 13. febrúar 1962. Þau gengu í hjónaband þann 2. júní 1990 og eiga saman þrjú börn.

1 ) Heiða Kristín Víðisdóttir, f. 4. júní 1981, maki Ingi M. Magnússon. Börn þeirra eru Logi Makan Ingason, f. 8. febrúar 2009, Jökull Makan Ingason, f. 12. mars 2013.

2 ) Una Matthildur Eggertsdóttir, f. 27. apríl 1984, maki Björn Davíðsson. Börn þeirra eru Gabriel Eggert Arnarsson, f. 25. júlí 2002, Amalía Björk Arnarsdóttir, f. 9. mars 2006, Aron Daði Björnsson, f. 15. maí 2004.

3 ) Friðrik Hermann Eggertsson f. 17. apríl 1990, maki Nasly Magaly Caicedo Rico.

Eggert fæddist í Vesturgötu 1 en ólst upp á Hlíðarvegi 73 á Ólafsfirði. Eggert vann með pabba sínum hjá Pósti og síma í tvö sumur en eftir fermingu fór hann að vinna hjá Sigvalda Þorleifssyni hf. Árið 1983 fór hann síðan á vetrarvertíð á Höfn í Hornafirði þar sem hann kynntist Hafdísi. Fluttu þau svo saman til Ólafsfjarðar í maí sama ár ásamt dóttur Hafdísar, henni Heiðu Kristínu. Þau stofnuðu heimili að Aðalgötu 20, svo við Ólafsveg 30 og þaðan fóru þau í Ólafsveg 44. Eggert vann nánast alla sína tíð í sjávarútvegi, annars vegar hjá Sigvalda Þorleifssyni hf. og hins vegar Hafbliki fiskverkun ehf. Eggert var virkur í félagsstarfinu á Ólafsfirði og sat hann meðal annars í stjórn Knattspyrnufélags Leifturs. Hann var einn af stofnendum menningamálanefndar Slökkviliðs Ólafsfjarðar. Þar sat hann sem formaður allt frá stofnun árið 2000 og þar til nefndin var lögð niður árið 2023. Eggert hóf störf hjá Slökkviliði Ólafsfjarðar 23 ára gamall og var þar þangað til hann veiktist árið 2021.

Eggert sá um félagsheimilið Tjarnarborg í tíu ár og er þar mörgum kunnugur. Árið 2007 stofnuðu hann og félagar hans Hobbýbændur, en búskapurinn og allt sem í kringum hann var var hans líf og yndi.

Útför Eggerts fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 23. ágúst 2023, klukkan 13.

Elsku besti Eggert afi.

Ég ætla að leyfa mömmu minni að skrifa þessa grein því ég er ekki alveg búinn að læra alla stafina.

Fyrir mér varstu alltaf alvöru afi minn. Ég átti enga afa þegar ég kom í þennan heim og því gekkst þú í það hlutverk án nokkurs vafa. Við vorum bestu vinir alveg frá upphafi og okkur þótti svo vænt um hvor annan. Mér fannst alltaf skemmtilegast að koma norður á Ólafsfjörð yfir áramótin og á sumrin, eins fannst mér svo gott að fá alltaf að lúlla heima hjá þér og Hafdísi, sérstaklega þegar amma kom líka með, þá fékk ég að sofa í „ömmuherbergi“ og horfa eins mikið á sjónvarpið og ég vildi. Síðast var ég hjá þér núna um verslunarmannahelgina en því miður þurftir þú að fara upp á spítala daginn eftir að ég kom. Ég er svo þakklátur fyrir að hafa fengið að knúsa þig og vera með þér uppi á spítala nokkrum dögum áður en þú fékkst hvíldina, sem ég vissi að þú þurftir. Ég veit líka að núna ertu uppi á himnunum með hinum afa mínum.

Elsku besti Eggert afi, það er með miklum söknuði sem ég kveð þig en það veit ég fyrir víst að þú munt alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu enda varstu mér sá allra, allra besti.

Ég elska þig mest og alltaf.

Þinn afastrákur,

Óliver Tumi, 4 ára.

Nú er Eggert minn fallinn frá, guð blessi minningu hans. Veikindin voru búin að taka sinn toll og hvíldin kærkomin. Minningarnar streyma fram frá barnæskunni þegar Eggert og Pétur minn léku sér saman, þeir voru miklir vinir. Eggert var alltaf svo glaður og glettinn, líkur mömmu sinni. Ég kynntist gríninu og gáskanum þegar við unnum saman í fiskhúsinu. Nú síðustu árin sá ég hvað hann var hugsunarsamur um foreldra sína og sá til þess að þau hefðu alltaf nóg fyrir sig. Hann kom til þeirra á hverjum degi og mér finnst það lýsa svo vel hans innri manni. Ég er innilega þakklát fyrir vináttu Eggerts og megi guð blessa fjölskyldu hans og veita þeim styrk í sorginni.

Guðrún Jónsdóttir.

Það er sólríkur sumardagur og við vinkonurnar þrjár flatmögum ásamt fleiri vinnufélögum uppi á saltpokastöflum fyrir utan Sigvaldahúsið á Ólafsfirði, í vaðstígvélum og appelsínugulum 66°N-vinnubuxum. Það er kærkomin pása eftir að hafa verið að rífa saltfisk upp úr kerjum, raða í stæður og salta. Allt í einu er öskrað á okkur svo kröftuglega að við hrökkvum öll í kút: „HVAÐA HELVÍTIS LETI ER ÞETTA, DRULLIÐ YKKUR INN AÐ VINNA, PÁSAN ER LÖNGU BÚIN!!!“ Svo glymur við tröllahlátur og Eggert brunar fram hjá með aðra hönd á stýri á lyftaranum sínum. Við skellihlæjum öll og tínumst svo eitt af öðru inn í hús til að halda áfram að vinna.

Þetta er aðeins ein af svo ótal mörgum minningum sem við vinkonurnar eigum um Eggert. Hann var verkstjórinn okkar í saltfiskverkun Sigvalda Þorleifssonar þar sem við unnum á sumrin á unglingsárum okkar. Það var aldrei lognmolla í kringum Eggert. Hann var glaðvær, traustur og stríðinn og hafði sérstaklega gaman af að hrekkja okkur óharðnaða unglingana. Það má með sanni segja að hann hafi mótað okkur vinkonurnar að ákveðnu leyti í uppvextinum; í vinnu hjá honum komst fólk ekki upp með neitt múður, þurfti að standa sig, ekkert var slegið af. Undir hans stjórn lærðum við að vinna.

Milli okkar Eggerts og eiginkonu hans Hafdísar myndaðist falleg vinátta. Við pössuðum börnin þeirra þrjú gjarnan á kvöldin ef þau hjónin ætluðu að gera sér glaðan dag og fengum í staðinn stað þar sem við „Hlíðarvegsgengið“ gátum hist á kvöldin og þáðum gos og snakk að launum fyrir pössunina. Samkomulag sem hentaði öllum mjög vel. Þegar við höfðum aldur til þess að fara á böll var gott að þekkja Eggert, en hann starfaði lengi vel sem dyravörður í félagsheimilinu Tjarnarborg. Til hans gátum við alltaf leitað ef eitthvað bjátaði á.

Með tímanum minnkaði sambandið eins og gengur og gerist. Við vinkonurnar uxum úr grasi og fluttum frá Ólafsfirði. Það var samt alltaf jafn gaman að rekast á Eggert og Hafdísi þegar við komum heim í Ólafsfjörð. Nú síðast í sumar hitti Unnur hann við jarðarför Unu móður hans og áttu þau kærkomna stund þar. Nokkrum vikum síðar hitti Edda hann á Hornbrekku þar sem hún fékk gott knús og spjall.

Alltaf var stutt í gleðina og húmorinn hjá honum, þó svo að auðséð væri að heilsunni væri farið að hraka verulega síðustu ár.

Það er með mikilli sorg í hjarta sem við vinkonurnar kveðjum kæran vin okkar. Við viljum þakka fyrir allar skemmtilegu og dýrmætu minningarnar sem við eigum um þig, elsku Eggert, og biðjum góðan Guð að styrkja og varðveita elsku Hafdísi, Heiðu Kristínu, Unu Matthildi, Friðrik Hermann og fjölskyldur þeirra. Guð blessi minningu Eggerts Unu.

Þínar barnapíur,

Birgitta (Bigga), Edda og Unnur.