Hvalveiðar Hvalbátarnir liggja enn við festar en beðið er ákvörðunar matvælaráðherra um framhaldið.
Hvalveiðar Hvalbátarnir liggja enn við festar en beðið er ákvörðunar matvælaráðherra um framhaldið. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Hvalveiðar hafa ekki verið arðbær atvinnugrein á síðustu árum í því rekstrarumhverfi sem greinin hefur búið við og bein efnahagsleg áhrif hvalveiða eru ekki mikil í þjóðhagslegu samhengi, ef miðað er við útflutningsmagn og verðmæti undanfarin ár. Þetta kemur fram í skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Intellecon hefur gert um efnahagsleg áhrif hvalveiða að beiðni matvælaráðuneytisins.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Hvalveiðar hafa ekki verið arðbær atvinnugrein á síðustu árum í því rekstrarumhverfi sem greinin hefur búið við og bein efnahagsleg áhrif hvalveiða eru ekki mikil í þjóðhagslegu samhengi, ef miðað er við útflutningsmagn og verðmæti undanfarin ár. Þetta kemur fram í skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Intellecon hefur gert um efnahagsleg áhrif hvalveiða að beiðni matvælaráðuneytisins.

Í aðfaraorðum skýrslunnar segir að í henni sé einungis litið til efnahagslegra áhrifa, en litið fram hjá öðrum, svo sem líffræðilegum þáttum, byggðasjónarmiðum eða stjórnmálalegum atriðum. Einblínt sé á bein áhrif á íslenskt efnahagslíf, markaði fyrir hvalkjöt og möguleg áhrif hvalveiða á aðra útflutningsmöguleika Íslands.

Í skýrslunni kemur fram að þegar best lét hafi útflutningsverðmæti hvalaafurða numið ríflega 0,6% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða, sem var árið 2016, en hafa verði í huga að verðmætið ráðist að mestu af því magni sem leyft sé að veiða. Bent er á að samkvæmt ársreikningum Hvals hf. síðustu árin megi ætla að frá árinu 2011 hafi heildarútflutningsverðmæti hvalaafurða verið tæpir 9,8 milljarðar króna. Ef dregin séu frá árin þegar ekkert var veitt hafi útflutningsverðmætið verið ríflega milljarður króna á ári að jafnaði.

Hærri laun

Í skýrslunni er vakin athygli á því að laun þeirra starfsmanna sem vinna við hvalveiðar og vinnslu afurðanna séu mun hærri en laun í flestum öðrum greinum, vinnan sé vaktavinna og bundin við vertíðina, um fjóra mánuði á ári. En þrátt fyrir að veiðarnar séu ekki efnahagslega mikilvægar í þjóðhagslegu samhengi, þá séu þær mikilvægar fyrir þá einstaklinga sem starfa í greininni á vertíðinni. Ætla megi að þeir sem alla jafna vinna í greininni verði af töluverðum tekjum, verði þeir að vinna við önnur störf í stað hvalveiða og -vinnslu.

Varðandi tekjutapið gefa skýrsluhöfundar sér að hver og einn starfsmaður Hvals verði af á bilinu 2-3,8 milljónum króna vegna lægri tekna en ella þá mánuði sem vertíðin stendur yfir. Það endurspegli þá staðreynd að þrátt fyrir að hvalveiðar og -vinnsla sé ekki þjóðhagslega mikilvæg atvinnugrein skipti hún miklu efnahagslegu máli fyrir þá sem í greininni starfa.

Í skýrslunni er bent á að viðskipti með hvalaafurðir séu bönnuð á milli flestra þjóða heims á grundvelli alþjóðasamnings um bann við verslun með villt dýr og plöntur í útrýmingarhættu. Þó séu viðskipti heimil á milli þeirra ríkja sem gert hafa fyrirvara við samninginn hvað varðar langreyði og hrefnu, en það hafa Ísland, Noregur og Japan gert og viðskipti með afurðir þessara dýra á milli landanna heimil.

Það vekur athygli skýrsluhöfunda að enda þótt viðhorf fólks erlendis til hvalveiða sé sagt almennt mjög neikvætt, þá sé ekki hægt að fullyrða að slíkt viðhorf hafi merkjanlega neikvæð efnahagsleg áhrif hér á landi. Ekki hafi veiðarnar heldur dregið úr aðdráttarafli Íslands sem ferðamannalands. Aðrir þættir en neikvæð viðhorf til hvalveiða Íslendinga virðist vega þyngra varðandi það að eiga í viðskiptum við íslensk fyrirtæki eða hvort sækja beri landið heim.

„Af ofansögðu má ráða að erfitt er að draga miklar ályktanir um að hvalveiðar hafi yfirhöfuð mikil áhrif á útflutningshagsmuni Íslands þar sem ekki verður séð að hvalveiðar dragi úr komu ferðamanna til landsins eða öðrum útflutningi vöru og þjónustu. Þessi áhrif eru ekki merkjanleg, að öðru óbreyttu, þrátt fyrir augljósa og mikla andstöðu almennings í helstu viðskiptalöndum okkar við hvalveiðar yfirleitt,“ segir í skýrslu Intellecon.

Undir högg að sækja

„Það er ekkert nýtt í þessu,“ segir Kristján Loftsson framkvæmdastjóri Hvals um skýrsluna. „Hvalveiðarnar eru atvinnurekstur sem hefur átt undir högg að sækja hjá ákveðnum stofnunum hér á landi undanfarin ár. Ef fyrirtækjum er haldið frá rekstri eins og gerst hefur í okkar tilfelli, þá er erfitt að gera það ár upp með hagnaði,“ segir Kristján.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness

Vonar að matvælaráðherra lágmarki skaðann

„Þetta er algerlega í anda þess sem verkalýðsfélagið hefur verið að benda á, þau gríðarlegu efnahagslegu áhrif sem hvalveiðibannið hefur á mína félagsmenn. Það er skylda stéttarfélaganna að verja atvinnuöryggi sinna félagsmanna, að ekki sé talað um tekjumöguleika sem eru af þeirri stærðargráðu sem raun ber vitni þegar vertíðin stendur yfir,“ segir Vilhjálmur Birgisson, spurður álits á skýrslu Intellecon um efnahagsleg áhrif hvalveiða. Um 120 félagsmenn hans hafa unnið á vertíðinni hverju sinni.

„Þetta er í samræmi við það sem ég hef verið að benda á, að ákvörðun matvælaráðherrans um að heimila ekki hvalveiðar í sumar er ofboðslegt högg fyrir þá einstaklinga sem þarna verða fyrir miklu tekjutapi. Það vantar reyndar inn í skýrsluna að nefna áhrifin sem þetta hefur á afleiddu störfin, sem eru fjölmörg, sem og þær útsvarstekjur sem þessi störf skila sveitarfélaginu hér,“ segir Vilhjálmur og bætir því við að fjölskyldur séu að baki þessum einstaklingum sem reiddu sig á tekjur af vertíðinni. „Þær voru því miður hrifsaðar af fólkinu með sólarhrings fyrirvara.“ Spurður um áætlað tekjutap hvers starfsmanns Hvals hf. sem er í Verkalýðsfélagi Akraness vegna bannsins segir Vilhjálmur að það nemi 2-3 milljónum króna á mann. „Ég ætla bara að vona að Svandís matvælaráðherra sjái að sér og heimili veiðarnar hinn 1. september til að lágmarka þann skaða sem hún hefur þegar valdið mínum félagsmönnum.”

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson