Bergþóra Baldursdóttir
Bergþóra Baldursdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flestir markaðsaðilar gera ráð fyrir því að Seðlabanki Íslands hækki stýrivexti um 25 eða 50 punkta (prósentustig) í dag, en vaxtaákvörðun bankans verður kynnt kl. 8.30 í dag. Greining Arion banka gerir ráð fyrir 50 punkta hækkun en Íslandsbanki gerir ráð fyrir 25 punkta hækkun

Flestir markaðsaðilar gera ráð fyrir því að Seðlabanki Íslands hækki stýrivexti um 25 eða 50 punkta (prósentustig) í dag, en vaxtaákvörðun bankans verður kynnt kl. 8.30 í dag. Greining Arion banka gerir ráð fyrir 50 punkta hækkun en Íslandsbanki gerir ráð fyrir 25 punkta hækkun.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur hjá greiningu Arion banka, segir að peningastefnunefnd hafi gefið það mjög skýrt í skyn að nefndin væri í kappi við tímann að ná verðbólgu eins hratt niður og mögulegt er, til að kæla hagkerfið áður en kemur að kjarasamningum til að skapa hagfellt verðbólguumhverfi fyrir viðræður.

„Við eigum von á 50 punkta hækkun en í þessu ljósi er ekki hægt að útiloka 75 punkta hækkun þó ég telji það ósennilegra.“

Greining Íslandsbanka spáir því að Seðlabankinn hækki stýrivexti um 25 punkta en útilokar ekki að Seðlabankinn haldi vöxtum óbreyttum. Ástæðan fyrir þeirri spá er sú að verðbólgan hefur hjaðnað nokkuð hratt og verðbólguhorfur skánað. Greining Íslandsbanka gerir einnig ráð fyrir frekari hjöðnun verðbólgunnar á komandi misserum.

Ná þurfi verðbólgu- væntingum niður

Konráð segir að ýmislegt þurfi að gerast til að Seðlabankinn byrji að lækka vexti að einhverju ráði.

„Ég held að það sé mikilvægt að hafa í huga að það er ekki endilega mjög langt í að Seðlabankinn byrji að lækka vexti lítillega en þeir eru aftur á móti svo háir að það þarf mögulega langan tíma þangað til þeir lækka niður í 4-5 prósent, sem ég held að sé nálægt því að vera eðlilegt að stefna að til langs tíma,“ segir Konráð og bendir á að það sé þó jákvætt að verðbólgan sé að minnka. Hann nefnir jafnframt að til að vextir byrji að lækka að einhverju ráði þurfi verðbólguvæntingar að lækka.

„Langtíma verðbólguvæntingar þurfa að komast nær markmiði. Þær eru nú á milli 3,5 og 4 prósent sem er ennþá of hátt og hlutirnir hafa lítið breyst. Síðan skiptir máli hvernig kjarasamningarnir spilast út. Þetta er ekki allt saman í kortunum á næstunni þannig að ég geri ráð fyrir að við verðum með nokkuð háa vexti eitthvað fram á næsta ár að minnsta kosti.“

Vaxtalækkunarferli hefjist á næsta ári

Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur í greiningu Íslandsbanka, segir að bankinn geri ráð fyrir að Seðlabankinn hefji vaxtalækkunarferli á fyrri helmingi næsta árs.

„Þetta veltur allt á verðbólgunni en ef okkar verðbólguspá rætist teljum við að Seðlabankinn muni hefja hægfara vaxtalækkunarferli á fyrri helmingi næsta árs,“ segir Bergþóra, þó þurfi hagfelldar aðstæður að skapast til að svo verði.

„Verðbólgan þarf að halda áfram að hjaðna og áframhaldandi kólnun hagkerfisins þarf að eiga sér stað. Einnig hefur peningastefnunefnd lagt áherslu á að verðbólguvæntingar þurfi að lækka. Langtíma verðbólguvæntingar stóðu nánast í stað í síðustu könnun. Þetta er mælikvarði sem peningastefnunefndin horfir til og væri gott að ná niður sem fyrst. Flestir aðrir hagvísar hafa þróast nefndinni í vil í sumar.“

Raunstýrivextir skipti Seðlabankann máli

Raunstýrivextir eru um þessar mundir jákvæðir í fyrsta sinn frá ársbyrjun 2020. Seðlabankinn horfir til raunstýrivaxta til að auka aðhald peningastefnunnar og til að auka raunávöxtun af sparnaði á innlánum sem styður við markmið bankans um að hægja á einkaneyslu. Í Peningamálum Seðlabankans frá því í maí kemur fram að þegar hagkerfið sé í jafnvægi og verðbólga í nálægð við markmið, þá sé æskilegt raunvaxtastig 1,5-2 prósent.

Aðspurð hvað æskilegt væri að raunstýrivextir væru miðað við núverandi aðstæður segir Bergþóra að í því samhengi ætti að horfa til þess hvaða skoðun Seðlabankinn hefur á því. „Það skiptir mestu máli hvað Seðlabankanum finnst um raunstýrivextina. Jafnvægisraunvextir eru taldir vera um það bil 1,5-2,0%. Svo er stóra spurningin hvort raunvextir þurfa að fara eitthvað hærra tímabundið til að kæla hagkerfið miðað við núverandi stöðu,“ segir hún.

Konráð segir að það að hafa raunvexti neikvæða í lengri tíma geti haft neikvæðar afleiðingar fyrir hagkerfið. Það ráðist þó af aðstæðum hverju sinni hvort hagfellt sé að hafa þá jákvæða eða neikvæða.

„Vextir eru verð á peningum svo þetta fer eftir aðstæðum í hagkerfinu, framboði og eftirspurn. Það þarf bara að stuðla að jafnvægi í hagkerfinu en ég held að stóra myndin sé að maður vill ekki sjá svona hagstærðir sveiflast mikið að óþörfu, það er aldrei gott. Það er eðlilegt að raunvextir séu stundum neikvæðir og stundum jákvæðir. Þó, við núverandi aðstæður, tel ég eðlilegt að þeir séu yfir núllinu.“