Hopar Hluti af skaflinum hægra megin, séð frá Reykjavík. Ísinn var mjög harður.
Hopar Hluti af skaflinum hægra megin, séð frá Reykjavík. Ísinn var mjög harður. — Morgunblaðið/Baldur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Töluverður ís á eftir að bráðna í Gunnlaugsskarði í Esjunni til að snjóskaflinn þar megi teljast hafa bráðnað í sumar. Það kom í ljós þegar Morgunblaðið kannaði málið í fyrrakvöld. Í byrjun vikunnar fékk Morgunblaðið ábendingu um að skaflinn væri horfinn en það var ekki rétt

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Töluverður ís á eftir að bráðna í Gunnlaugsskarði í Esjunni til að snjóskaflinn þar megi teljast hafa bráðnað í sumar. Það kom í ljós þegar Morgunblaðið kannaði málið í fyrrakvöld.

Í byrjun vikunnar fékk Morgunblaðið ábendingu um að skaflinn væri horfinn en það var ekki rétt.

Fjallað hefur verið um bráðnun skaflsins í Morgunblaðinu á síðustu vikum en hún þykir mælikvarði á veðurfar í borginni.

Hinn 12. ágúst sagði Morgunblaðið frá því að Páll Bergþórsson veðurfræðingur hefði skoðað skaflana í þyrluflugi. Með greininni fylgdi mynd af sköflunum sem tekin var úr þyrlunni. Taldi Páll líklegt að skaflarnir yrðu horfnir eftir sumarið.

Bráðnar í nokkra skafla

Þremur dögum síðar sagði Morgunblaðið frá skoðunarferð upp í Gunnlaugsskarð sunnudaginn 14. ágúst. Skaflarnir höfðu þá rýrnað nokkuð frá þyrlufluginu og skaflinn hægra megin var farinn að bráðna í nokkra skafla. Skaflinn vinstra megin hafði líka rýrnað en þegar vorar virðist vera einn og samfelldur skafl í skarðinu.

Þykktin vakti athygli

Skaflinn hægra megin hafði rýrnað töluvert þegar hann var skoðaður í fyrrakvöld. Hann deilist nú í þrjá hluta eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Þá er nærmynd af hluta af honum hægra megin hér fyrir ofan. Athygli vakti hversu þykkur ísinn var og virðist ekki sjálfgefið að hann bráðni í sumar. Ísinn var á að giska allt að 20 til 30 sentimetra þykkur og svo harður að broddar á skíðastöfum unnu ekki á honum.

Hins vegar er svo lítið eftir af skaflinum vinstra megin – sjá myndina vinstra megin hér fyrir ofan – að hann mun líklega bráðna í sumar.

Hafa ber í huga að kaldara getur verið uppi á Esjunni en á láglendi. Þannig var haglél þar á tímabili á ellefta tímanum í fyrrakvöld en svo hlýnaði aftur.

Höf.: Baldur Arnarson