Brynjar Magnús Valdimarsson fæddist í Reykjavík 1. september 1947. Hann lést á Landspítalanum 8. ágúst 2023.

Foreldrar hans voru Rósa Sigurbjörg Sigurjónsdóttir húsmóðir, f. 14.12. 1927, d. 28.2. 2007 og Valdimar Kristinn Valdimarsson, fisksali og starfsmaður Kópavogsbæjar, f. 9.6. 1926, d. 6.7. 2001.

Systkini Brynjars eru: 1) Sigurjón, f. 11.12. 1949, maki Ásta Björnsdóttir, f. 9.11. 1953. 2) Ásgeir, f. 7.5. 1952, maki Eva Hallvarðsdóttir, f. 16.4. 1954. 3) Kristín Sylvía, f. 30.8. 1955, maki Sigurgeir Skúlason, f. 1.4. 1957. 4) Valdimar Friðrik, f. 14.3. 1958, maki Karen Júlía Júlíusdóttir, f. 8.12. 1960. 5) Rósa Áslaug, f. 6.3. 1959, maki Sigurður Guðnason, f. 8.1. 1960.

Brynjar kvæntist 12. júní 1968 eftirlifandi eiginkonu sinni, Steinunni Sigurðardóttur frá Vígholtsstöðum í Dalasýslu, f. 28. apríl 1946. Börn þeirra eru: 1) Sigurður, f. 12.11. 1968, maki Birna Ragnheiðardóttir Imsland, f. 6.11. 1970. Dóttir Sigurðar er Steinunn Ella, f. 13.12. 2006, móðir hennar er Harpa Sigríðardóttir, f. 24.6. 1970. Dóttir Birnu er Esja Sveinbjörnsdóttir. 2) Friðrik, f. 13.4. 1973, maki Olga Hermannsdóttir, f. 4.1. 1973. Börn Friðriks: a) Brynjar Magnús, f. 29.5. 1996, móðir hans er Cecilía Magnúsdóttir, f. 7.12. 1972. Maki Brynjars er Thelma Kristín Stefánsdóttir og dóttir þeirra Gróa Sóley. b) Birgitta Ósk, andvana fædd, 25.2. 2004. c) Thelma Líf, f. 8.6. 2005. d) Alexía Líf, f. 23.5. 2009. Sonur Olgu er Sæþór Örn Þórðarson, f. 25.6. 1993, maki hans Michelle Grønlien. 3) Rósa Björg, f. 26.5. 1979, maki Júlíus Örn Kristinsson, f. 19.2. 1978. Börn Rósu og Jóhannesar Hauks Ingibergssonar, f. 31.3. 1977: a) Kolbrún Ýr, f. 20.12. 2001, maki Eggert Jóhannes Halldórsson. b) Daníel Örn, f. 21.3. 2005. c) Bergur Þór, f. 20.9. 2009. Börn Júlíusar: Aron Sölvi, Sara Dögg og Björgvin Ísak. Börn Arons: Fenrir Már og Almar Elí. 4) Nanna Margrét, f. 17.4. 1981, maki Pétur Steinn Ásgeirsson, f. 24.8. 1979.

Brynjar útskrifaðist frá Kennaraskólanum 1969 og kenndi smíðar við Kársnesskóla, fyrir utan árin 1979-89, þegar hann starfaði hjá Slysavarnafélaginu og Templarahöllinni. Árið 1974 gerðist hann ökukennari. Brynjar kenndi við Ökuskóla 3 og Ökuskóla Kópavogs og starfaði að umferðaröryggismálum með Bindindisfélagi ökumanna. Hann sinnti trúnaðarstörfum fyrir félagið, t.d. stjórnarsetu, formennsku og sat í Umferðarráði. Brynjar var stofnfélagi Siglingafélagsins Ýmis og Siglingasambands Íslands. Þau hjónin voru virk í hjónaklúbbnum Laufinu og stunduðu dans um árabil og var Brynjar fyrsti formaður Félags áhugadansara. Hann gekk snemma í ungtemplararegluna og starfaði m.a. að bindindismótum í Galtalæk. Í reglunni mynduðust ævilöng vinabönd og eins var með Reglu musterisriddara, þar sem Brynjar var félagi í rúma fjóra áratugi. Reglan var honum ákaflega hjartfólgin og fór hann með æðstu embætti innan hennar hérlendis.

Útför Brynjars fer fram frá Digraneskirkju í dag, 23. ágúst 2023, og hefst athöfnin kl. 13. Streymi verður aðgengilegt á streyma.is/streymi og mbl.is/andlat. Jarðsett verður í Kópavogskirkjugarði.

Elsku pabbi.

Stuttu eftir að þú kvaddir okkur þá fór ég að velta mér upp úr hlutum sem ég sagði ekki við þig síðustu dagana. Hlutum sem mig langaði að segja en gat ekki vegna þess að ég var ekki tilbúin að kveðja þig.

En svo áttaði ég mig á því að það var ekkert ósagt á milli okkar.

Allt sem ég hefði viljað segja er eitthvað sem ég hef oft sagt við þig í gegnum árin. Það hversu heppin ég er að þú ert pabbi minn, hversu þakklát ég er fyrir allt sem þú hefur gert og hve mikið ég elska þig.

Þessir síðustu dagar sem við fjölskyldan fengum til að kveðja þig eru ótrúlega dýrmætir og ég er mjög þakklát fyrir þá.

En það sem situr eftir núna er ég lít til baka er heil ævi af dýrmætum dögum þar sem þú varst alltaf til staðar með heilræði, stuðning, faðmlag og aulabrandara.

Ég er ekki lengur að velta mér upp úr því sem var ekki sagt en ég á enn erfitt með að kveðja.

Þú gafst mér svo mikið og kenndir mér svo margt.

Þú munt ávallt vera stór hluti af lífi mínu.

Ég elska þig.

Þitt litla barn

Nanna Margrét.

Elsku afi.

Við vorum á sjötta, tíunda og fjórtánda ári þegar við fluttum í Selbrekkuna til ykkar ömmu með mömmu. Þvílík forréttindi að fá að alast upp með ykkur svona nálægt.

Mamma hefur oft rifjað upp með okkur hversu mikið þið ferðuðust um landið þegar þær Nanna voru litlar eins og þegar þið fóruð með þær á skíði í Kerlingarfjöllum eða þegar stígvélin voru grilluð í Þórsmörk. Kolbrún Ýr er sú eina af okkur sem fékk að upplifa Galtalæk en hún var svo lítil að hún upplifði ekki að vinna í sjoppunni eða í ökuleikninni eins og systkini mömmu. Við höfum hins vegar öll fengið tækifæri til að vera starfsmenn á plani þegar árleg keppni í ökuleikni hefur verið haldin og farið þar af leiðandi líka ótal sinnum í veltibílinn.

Ferðalögin voru mörg. Daníel Örn og Bergur Þór fengu hvor sína dekurferðina, Daníel fór hringinn um landið til að sækja Thelmu Líf á Akureyri og Bergur Þór fór með ykkur ömmu til Noregs í heimsókn til Frikka og fjölskyldu. Við fórum samt líka öll til Noregs, ferðuðumst með Frikka og Olgu og stelpunum til Danmerkur og Hollands. Síðasta ferðin sem við fórum í til útlanda var til London þar sem við drógum ykkur ömmu með á Harry Potter-safnið. Þið vissuð ekkert hvað þið voruð að skoða og biðuð bara róleg eftir okkur á kaffihúsinu. Þið amma rifjuðuð upp þegar þið voruð nýbyrjuð saman og amma fór til London sem au-pair og þú komst og heimsóttir hana. Margar minningar koma í hugann af ferðalögum innanlands, hringferðin með Sigga og fjölskyldu og sumarbústaðaferðirnar.

Þú kenndir okkur öllum að hjóla. Á hverju vori hjálpaðir þú okkur að gera hjólið tilbúið, passaðir að hækka hnakkinn og stilla hjálminn en við fengum ekki að hjóla fyrr en öll öryggisatriði væru á hreinu. Alveg sama hversu gömul við verðum munum við alltaf nota hjálminn. Við lærðum margt af þér, þú lagðir þig allan fram um að hjálpa okkur og varst alltaf tilbúinn að hlusta og taka utan um okkur ef okkur leið ekki vel.

Við erum þakklát fyrir bíltúrana á bílasölur, bragðarefinn á þriðjudögum, trampólínið í garðinum, faðmlögin og alla samveruna.

Takk fyrir allt.

Þín barnabörn,

Kolbrún Ýr, Daníel Örn og Bergur Þór.

Með nokkrum orðum vil ég minnast kærs bróður míns, Brynjars Magnúsar Valdimarssonar. Hann var elstur okkar systkina og tvímælalaust leiðtogi og fyrirmynd okkar að mörgu leyti á æskuárunum. Snemma fór hann að taka þátt í félagsstarfi í Kópavogi. Hann starfaði að æskulýðsmálum, fyrst í Félagsheimili Kópavogs og síðan í húsnæði Æskulýðsráðs á Álfhólsvegi 32. Þar unnum við sem yngri vorum ýmis leðurseðlaveski og á ég mitt ennþá, vel geymt til minningar um uppbyggilegt æskulýðsstarf á þessum árum. Fleiri hlutir voru búnir til eins og gleraugnaveski fyrir mömmu og bréfahnífar úr tekki merktir með járnstöfum.

Seinna var Binni bróðir, eins og við kölluðum hann, leiðandi í starfi siglingaklúbbsins í Nauthólsvík og Siglingaklúbbs Kópavogs á Kársnesi. Hann lagði sannarlega sitt af mörkum á þessum sviðum.

Ekki má gleyma skátastarfinu. Hann fékk mig og Sigurjón bróður okkar með sér í skátafélagið Víkinga í Hlíðaskóla í Reykjavík. Margs er að minnast úr skátastarfinu og erum við Sigurjón ævinlega þakklátir fyrir að Brynjar skyldi draga okkur með sér í það. Tjaldútilegur á sumrin, varðeldur og söngur og landsmót með alþjóðlegu ívafi. Áhersla var lögð á samkennd með öllu fólki. Við, ásamt ýmsum fleirum úr Austurbæ og Vesturbæ Kópavogs, tókum þátt í ferðum upp á Hellisheiði um helgar á vetrum og gistum þá í skátaskálanum Jötni.

Brynjar var alla ævi algjör bindindismaður og hafði ásamt fleirum forgöngu um stofnun Aspar, bindindisfélags fyrir ungt fólk. Ég dáðist að þessari elju hans við að gera jákvæða og góða hluti.

Þar sem við vorum sex systkinin var frekar þröngt á heimilinu og við þrír elstu bræðurnir fórum snemma að huga að því að flytja að heiman. Brynjar var 22 ára þegar hann fékk lóð í Selbrekku 28 og byggði sér raðhús ásamt Steinunni eiginkonu sinni árin 1969-72. Ég, fimm árum yngri, fékk vinnu sem handlangari í múrverki í húsinu og lærði margt af því. Þá var Brynjar orðinn smíðakennari að mennt og gat ráðist í slíkt stórvirki. Sigurjón var í háskólanum og ég enn í menntaskóla svo við vorum ekki komnir á þennan stað í lífinu.

Af þessu sést að hann hafði mikil áhrif á mitt líf á þessu skeiði. Samskipti okkar voru ávallt góð og maður hikaði ekki við að leita til hans ef eitthvað bjátaði á.

Hann gerðist ökukennari með kennslunni í Kársnesskóla og kenndi öllum mínum fjórum börnum á bíl og þeim líkaði það afar vel. Brynjari fannst gaman að kynnast unglingunum í fjölskyldunni betur þegar þau gátu fengið að hafa hann sem ökukennara.

Með þessum örfáu minningabrotum sendum við Eva innilegustu samúðarkveðjur til Steinunnar og barna þeirra, tengdabarna og barnabarna.

Ásgeir Valdimarsson.

Elskulegur frændi minn, hann Brynjar, er látinn. Hann var búinn að berjast hetjulega við illvígan sjúkdóm og aldrei heyrðist hann kvarta undan vanlíðan. Hann var andlega hress til síðustu stundar og dró fram jákvæða umræðu um allt sem bar á góma.

Brynjar bjó við það frá fæðingu að annar fóturinn hafði ekki nægan styrk, svo að hann þurfti alltaf að fá sérsmíðaða skó á lasburða fótinn. Hann sagði sjálfur frá því að hann vildi ekki greinast fatlaður og þáði aldrei styrk frá tryggingum en tók þátt í öllu starfi eins og hann væri alheill. Sem drengur tók hann þátt í þjóðdönsum og varð síðar liðtækur á dansgólfinu.

Brynjar var elstur í sex systkina hópi og studdi foreldra sína vel við að gæta yngri systkinanna. Hann hafði því góða reynslu til að gerast kennari og kenndi smíðar ásamt akstri og lagði áherslu á ökuleikni, sem hann leiðbeindi með úti um allt land á sumrin. Hann var ötull við félagsstörf sem höfðu þann tilgang að stuðla að bindindi. Konan hans, hún Steinunn, studdi hann vel í þessu starfi. Þau tóku virkan þátt í hjónaklúbbnum Laufinu sem hafði þann tilgang að efna til nokkurra áfengislausra dansleikja á ári og í fjögur ár var Brynjar formaður í þeim félagsskap. Hann veitti líka formennsku í Heklu, reglu musterisriddara, sem eru samtök sem leggja m.a. áherslu á bindindi.

Við hjónin fórum saman í ýmsar ferðir á vegum Laufsins og musterisriddaranna og það voru góðar ferðir með traustum vinum þar sem jákvæðni og gleði réði ríkjum. Það var líka gott að heimsækja Brynjar og Steinunni, þar sem húsfreyjan var alltaf með góðar veitingar og samveran notaleg. Við tókum sameiginlega á móti frændfólki okkar frá Bandaríkjunum og vorum mjög samstíga í allri skipulagningu við þær móttökur. Það var mjög einkennandi fyrir Brynjar hve traustur hann var og tilbúinn til að leggja á sig ómælda vinnu við það sem bar að höndum og jákvæðnin og elskusemin í fyrirrúmi. Ég mun sakna þessa ljúfa yndislega frænda míns sem var alltaf tilbúinn til að gefa mér góð ráð og hjálpa mér við hvað eina. Ég votta Steinunni og allri fjölskyldunni samúð mína.

Blessuð sé minning hans,

Matthildur Guðný Guðmundsdóttir.