„Íslenskir bankar eru eðlilega smáir í alþjóðlegum samanburði en þurfa að viðhalda sömu innviðum og margfalt stærri bankar á erlendri grundu,“ segir Björn spurður um sérkenni rekstrarumhverfisins.
„Íslenskir bankar eru eðlilega smáir í alþjóðlegum samanburði en þurfa að viðhalda sömu innviðum og margfalt stærri bankar á erlendri grundu,“ segir Björn spurður um sérkenni rekstrarumhverfisins.
Eftir að hafa dvalið við nám og störf á Norðurlöndunum og í Ástralíu í áratug er Björn Björnsson að flytja búferlum til Íslands. Tekur hann við stöðu framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs Arion banka og segir hann að þetta spennandi atvinnutækifæri…

Eftir að hafa dvalið við nám og störf á Norðurlöndunum og í Ástralíu í áratug er Björn Björnsson að flytja búferlum til Íslands. Tekur hann við stöðu framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs Arion banka og segir hann að þetta spennandi atvinnutækifæri hafi opnast einmitt á sama tíma og hugurinn fór að leita heim.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Á undanförnum árum hefur þekkingaröflun einkum verið drifin áfram af þeim verkefnum sem ég er að fást við á hverjum tíma. Þau krefjast þess oft að ég auki við þekkingargrunninn og þá leita ég til þeirra sérfræðinga sem ég hef aðgang að hverju sinni. Mín reynsla er að maður lærir yfirleitt mest af fólkinu í kringum sig og þá er mikilvægt að vera óhræddur að spyrja.

Síðan hlusta ég talsvert á hljóðvörp sem oft leiðir til þess að maður grípur í bók í framhaldinu. Svo er nauðsynlegt að fara við og við út úr daglega taktinum og sækja t.a.m. ráðstefnur og reyna að hitta fólk sem er að fást við sömu eða svipuð verkefni.

Hugsarðu vel um líkamann?

Mig langar að segja já, en eins og í flestu er hægt að gera betur.

Ég reyni að hreyfa mig nokkrum sinnum í viku en á síðustu árum hefur það verið frekar skorpukennt. Fyrir um fimm árum plataði konan mín mig í crossfit sem ég hef mjög gaman af og svo reyni ég að hlaupa, hjóla og synda inn á milli. Markmiðið er að komast í góðan takt þegar við erum búin að koma okkur fyrir á Íslandi.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Ég hef oft grínast með það að þegar ég sest í helgan stein þá ætli ég að gerast aftur fimleikaþjálfari. En almennt þrífst ég á að umgangast gott fólk sem vinnur í takt að sameiginlegu markmiði; fólki sem hefur metnað í að læra eitthvað nýtt og drífa áfram breytingar til hins betra. Utan aðalstarfsins hafa fimleikarnir hingað til uppfyllt þessa þörf hjá mér en ég gæti vel séð mig fyrir mér í annars konar þjálfun eða kennslu í framtíðinni.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Á einhvern hátt tel ég mig vera búinn að loka ákveðnum námshring og kjarna mig nokkuð vel í því sem ég er helst að fást við núna, þ.e. tölvunarfræði, verkfræði og viðskiptafræði. Að því sögðu þá erum við öll nemendur fyrir lífstíð og ef ég kysi að fara í formlegt nám á næstu árum þá myndi ég líklega prófa eitthvað nýtt og líta til náms á hugvísindasviði.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Það má í raun tengja bæði kosti og galla við stærð íslenska fjármálakerfisins. Íslenskir bankar eru eðlilega smáir í alþjóðlegum samanburði en þurfa að viðhalda sömu innviðum og margfalt stærri bankar á erlendri grundu.

Í Arion býr mikill metnaður til að bæta enn frekar þjónustu við viðskiptavini. Við þurfum hins vegar að sníða okkur stakk eftir vexti sem takmarkar þann fjölda verkefna sem við getum rekið á hverjum tíma. Um leið gerir smæðin okkur kleift að vinna betur saman, boðleiðir eru styttri og tæknistýring á margan hátt einfaldari en það sem ég hef séð hjá erlendum bönkum.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Til samanburðar við það sem maður sér erlendis þá getur tíminn frá því að hugmynd fæðist þar til hún er orðin að veruleika verið talsvert styttri á Íslandi. Það gefur mér orku að vinna með fólki í að hanna lausnir og sjá jákvæðar breytingar eiga sér stað. Þegar mér tekst að beina stórum hluta míns tíma í þann farveg mætir maður innblásinn til vinnu á hverjum degi.

Ævi og störf

Nám: Stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 2000; B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands 2003 og M.Sc í iðnaðarverkfræði frá sama skóla 2006. MBA-gráða frá Melbourne Business School 2013.

Störf: Sérfræðingur í rekstraráhættu hjá Kaupþingi 2005 til 2006; sérfræðingur í áhættustýringu hjá Exista 2006 til 2008; framkvæmdastjóri Gerplu 2009; framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Byr sparisjóði 2010 til 2011; forstöðumaður viðskiptagreiningar á viðskiptabankasviði Íslandsbanka 2011 til 2012 og stefnumótun á viðskiptabankasviði 2014 til 2015; „partner“ hjá Boston Consulting Group 2015 til 2023; starfa í dag hjá Arion banka sem framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs.

Áhugamál: Fimleikar eru líklega stærsta áhugamálið. Ég vann talsvert við þjálfun á árum áður og í dag erum við hjónin yfirþjálfarar landsliða Íslands í hópfimleikum. Saman erum við líka í crossfit og við reynum við að komast í golf og á skíði þegar færi gefst til.

Fjölskylduhagir: Kvæntur Hrefnu Þorbjörgu Hákonardóttur sjúkraþjálfara og saman eigum við Hákon Óla og Björn Magnús.