Það er ólíðandi að lögreglumenn og fjölskyldur þeirra búi við hótanir glæpamanna

Ekki er langt síðan kveikt var í bifreið lögreglukonu fyrir utan heimili hennar. Í viðtali við mbl.is á mánudag segir Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, einstakt að svo langt hafi verið gengið til að skjóta lögregluþjóni skelk í bringu, en bætir við að lögreglumenn séu „því miður alvanir því að láta hóta sér“.

Í máli Fjölnis kemur fram að löreglumenn finni fyrir vaxandi ofbeldi og hótunum og lendi stundum í því að þurfa að stíga til baka og bíða eftir liðsauka vegna þess að vopnaburður hafi færst í vöxt. Hann talar um að ofbeldi hafi stigmagnast.

Fjölnir segir að lögreglukonan njóti sérstakrar verndar eftir að kveikt var í bíl hennar og það eigi við um fleiri lögreglumenn sem vinni að tilteknu máli.

Einnig kemur fram hjá honum að lögreglumenn fái undanþágu frá því að birtast í þjóðskrá vegna þess að það sé ekki æskilegt að allir viti hvar þeir og fjölskyldur þeirra eigi heima. Vísar hann til þess að keyrt hafi verið fram hjá heimilum lögreglumanna með áberandi hætti. „Ég veit hvar þú átt heima. Ég veit hvar börnin þín fara í skóla. Þetta eru dæmi um algengar hótanir sem lögreglumenn fá,“ segir Fjölnir.

Í viðtalinu rekur Fjölnir að tilkoma skipulagðra glæpasamtaka hafi breytt íslenskum veruleika og lögreglan eigi nú í fyrsta skipti við glæpamenn sem fengið hafi herþjálfun. Hér sé um að ræða þróun sem eigi uppruna sinn í Svíþjóð og berist þaðan um Norðurlöndin. Þessa þróun verði að stöðva.

Formaður Landssambands lögreglumanna lýsir hér hrollvekjandi þróun. Það er ólíðandi að lögreglumenn þurfi að búa við að þeim og fjölskyldum þeirra sé hótað öllu illu fyrir að sinna starfi sínu.

Í Svíþjóð er harkan í skipulagðri glæpastarfsemi slík að lögreglan stendur jafnvel hjá þegar kemur til átaka. Ógnina af skipulögðum glæpum er víðar að finna í nágrenni okkar. Í Hollandi eru eiturlyfjagengi orðin svo aðsópsmikil að því er líkt við löglaus ríki á borð við El Salvador.

Við viljum ekki halda í þessa átt. Það verður að stemma stigu við þessari þróun. Öryggi almennings er í húfi.