Lögreglumenn Afbrotafræðingur segir þær hótanir sem lögreglumenn verða fyrir í sívaxandi mæli séu áhyggjuefni fyrir samfélagið allt.
Lögreglumenn Afbrotafræðingur segir þær hótanir sem lögreglumenn verða fyrir í sívaxandi mæli séu áhyggjuefni fyrir samfélagið allt. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við HÍ, segist skilja áhyggjur lögreglumanna en nýlega var kveikt í bifreið lögreglukonu fyrir utan heimili hennar og formaður Landssambands lögreglumanna segir lögreglumenn finna fyrir vaxandi ofbeldi og hótunum. ,,Lögreglumenn eru opinberir embættismenn sem eru að sinna sínum starfsskyldum og það er algerlega óviðunandi að þeir þurfi að búa við slíkt umhverfi og þola hótanir og fleira,“ segir Helgi.

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við HÍ, segist skilja áhyggjur lögreglumanna en nýlega var kveikt í bifreið lögreglukonu fyrir utan heimili hennar og formaður Landssambands lögreglumanna segir lögreglumenn finna fyrir vaxandi ofbeldi og hótunum. ,,Lögreglumenn eru opinberir embættismenn sem eru að sinna sínum starfsskyldum og það er algerlega óviðunandi að þeir þurfi að búa við slíkt umhverfi og þola hótanir og fleira,“ segir Helgi.

Hann segir að þó það hafi tíðkast í gegnum tíðina að menn slengi fram hótunum í garð lögreglumanna hafi oft ekki reynst mikið á bak við það en núna segist lögreglumenn finna fyrir því í sívaxandi mæli og að jafnvel færist í aukana að menn standi við þessar hótanir. „Það er áhyggjuefni, að sjálfsögðu mest fyrir þá lögreglumenn sem eru á vettvangi en þetta er líka áhyggjuefni fyrir okkur sem samfélag, því þeir eru okkar fulltrúar sem gæta almannaöryggis. Við viljum að sjálfsögðu að þeir séu öruggir í sínu starfi og þetta viljum við því ekki sjá og þurfum að draga sem mest úr.“

Helgi segir um árásina á bíl lögreglukonunnar að lögreglumenn upplifi líka slíkt sem árás á þá sjálfa því hver og einn þeirra gæti verið í sömu sporum líkt og þekkt er á öðrum Norðurlöndum. Þar sé ráðist á lögreglumenn og jafnvel þeirra einkalíf. Nauðsynlegt sé að læra af atvikum sem þessum og bregðast við. Hann bendir sem dæmi á að lengi hafi verið ríkjandi það vinnulag að nöfn lögreglumanna komi fyrir í vitnaleiðslum og skýrslum við afgreiðslu mála. „Það þarf að fara að leggja það vinnulag af,“ segir hann. Frekar ætti t.d. númer lögreglumanns að koma þar fram svo persóna lögreglumannsins komi ekki við sögu í formlegri afgreiðslu mála til að styrkja öryggi þeirra á vettvangi. Lögreglumenn eigi ekki að þurfa að dyljast í sínu einkalífi heldur geti lifað lífinu eins og hver annar í samfélaginu. „Það þarf að vera hægt að aðskilja þetta tvennt; persónuna og lögregluna í því starfi sem hún sinnir.“

Helgi bendir á að samfélagið sé ekki eins einsleitt og áður var, það sé ópersónulegra og menningarlega margbreytilegra og til hafi orðið samfélagshópar sem standi kannski höllum fæti. Mögulega kalli breytt samfélagsmynd fram athæfi af þessu tagi og ef lögregla er á vettvangi að reyna að ná tangarhaldi á einstaklingum í skipulagðri brotastarfsemi svari menn með einhverju athæfi af þessu tagi.

Hann minnir á að traust á lögreglunni hefur alltaf mælst mjög mikið á Íslandi og með því mesta í samanburði við aðrar þjóðir. Mjög mikilvægt sé að viðhalda því trausti sem lögreglan hefur í íslensku samfélagi. Eftir því sem samfélagið verði margbreytilegra skapist hætta á að einhverjir hópar fari að vantreysta umhverfinu og lögreglunni, ekki síst ef þeir koma úr samfélögum þar sem er viðloðandi landlægt vantraust á lögreglu af ýmsum ástæðum, s.s. spillingu. Þá sé hætta á að menn beri kannski að einhverju leyti slík viðhorf til lögreglu með sér inn í samfélagið hér á landi. Hætt sé við að þá myndist gjá eða vantraust á milli og þess vegna skipti miklu máli að lögreglan sé næm á ólíka menningarstrauma í samskiptum við hina ólíku hópa til að viðhalda traustinu.

Að sögn Helga hefur mátt sjá vísbendingar um gengjamyndanir og skipulagða brotastarfsemi hér á landi og alvarleg mál komið við sögu en í samanburði við Norðurlöndin hafi skipulögð glæpastarfsemi ekki fest rætur hér með sama hætti og t.d. í Svíþjóð. Þróunin hér sé stundum einhverjum árum á eftir en eðlilega líti lögreglan svo á að þetta gæti gerst hér á landi í framtíðinni. „Menn þurfa að horfa raunsæjum augum á það að eftir því sem samfélagið verður margbreytilegra og aðstaða fólks verður ólík eða mismunandi hvað varðar þjóðfélagsleg tækifæri, þá er hætta á því að það myndist jaðarhópar sem skipuleggja sig með einhverjum hætti og fremji alvarleg brot.“omfr@mbl.is