Ragnar Þór Ingólfsson, Kristján Þórður Snæbjarnarson, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir og Finnbjörn A. Hermannsson hlupu ekki til góðs.
Ragnar Þór Ingólfsson, Kristján Þórður Snæbjarnarson, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir og Finnbjörn A. Hermannsson hlupu ekki til góðs. — Morgunblaðið/Eggert
Sagan fer yfirleitt blíðum höndum um þá sem ná að halda ró og yfirvegun í flóknum aðstæðum. Þá sem halda kúlinu, eins og ­stundum er sagt. Þeir eru líklegri til að taka skynsamlegar ákvarðanir og eru vonandi betur til þess fallnir að leiða aðra þegar svo ber undir

Sagan fer yfirleitt blíðum höndum um þá sem ná að halda ró og yfirvegun í flóknum aðstæðum. Þá sem halda kúlinu, eins og ­stundum er sagt. Þeir eru líklegri til að taka skynsamlegar ákvarðanir og eru vonandi betur til þess fallnir að leiða aðra þegar svo ber undir. Leiðtogar, sem sumir hverjir eru það aðeins að nafninu til en ekki í raun, sem eru sífellt í ójafnvægi taka ákvarðanir eftir því.

Hegðun forystumanna helstu stéttarfélaga landsins ber þess merki að þar sé á ferðinni fólk sem er sjaldnast yfirvegað eða vel til þess fallið að taka flóknar ákvarðanir fyrir hönd annarra. Þannig tilkynntu bæði VR og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) á föstudag – daginn fyrir Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka – að félagið hefði ákveðið að hætta í viðskiptum við bankann. Forystumenn félaganna hafa ekki rökstutt þessa ákvörðun með neinum hætti, en ummæli þeirra bera þess merki að þau vilji leiða frekari refsingu yfir starfsmenn og stjórnendur Íslandsbanka, þótt þeir viti ekki hvernig refsingu.

Forystumenn ASÍ hafa verið ófeimnir við að tjá sig um misgjörðir bankans við framkvæmd á útboði á hlut ríkisins í mars í fyrra, þó þannig að svo virðist sem þeir átti sig ekki almennilega á því hvað snýr upp eða niður í málinu. „Er nokkuð hægt að bæta fyrir svona brot? Ég er mjög efins um það. Þarna erum við að tala um eigur almennings í landinu sem er verið að selja til valinna aðila á undirverði,“ sagði Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, 2. varaforseti ASÍ, um helgina, svo tekið sé eitt dæmi af mörgum. Nú er það reyndar svo að Íslandsbanki hafði ekkert með verðlagningu bréfanna að gera og það var ekki í höndum bankans að taka ákvörðun um það hverjir fengu að kaupa í útboðinu að lokum.

Nú kann að vera að ­einhverjum þyki brotin svo alvarleg að þau réttlæti frekari refsingu umfram það að greiða hæstu sekt sem greidd hefur verið og að skipt sé um meirihluta stjórnar og flesta af helstu stjórnendum bankans. Það er þó erfitt að átta sig á því hversu langt refsivöndurinn á að ná. Þó þarf að hafa í huga að forystumenn verkalýðsfélaganna eru ekki að sýsla með sitt eigið fjármagn heldur sjóði félagsmanna. Líklega vakna fáir í vinnu á morgnana með þá ósk heitasta að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, geti nýtt framlag þeirra í stéttarfélögin til að komast í fréttatíma kvöldsins eða nýta sjóði félagsmanna fyrir eigin dyggðaskreytingar.

Að því sögðu er rétt að hafa í huga að Ragnar Þór lætur sér ekki duga að leika sér með sjóði félagsmanna, heldur vill hann líka leika sér með lífeyri þeirra og hefur hvatt Lífeyrissjóð verslunarmanna (sem er hluthafi í Íslandsbanka) til að hætta viðskiptum við bankann líka. Fjármálaeftirlit Seðlabankans er enn að telja peninginn úr sektinni stóru og hefur ekkert aðhafst vegna þessara óeðlilegu afskipta af starfsemi lífeyrissjóðsins.