Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
Morgunblaðið birti í liðinni viku undarlega útsölufrétt á forsíðu. Þar var sagt frá stoltum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem hafði þá að eigin sögn sparað ríkissjóði 450 milljónir króna við kaup á slóvakískum aflátsbréfum vegna skuldbindinga Íslands í tengslum við Kýótó-bókunina svokölluðu

Morgunblaðið birti í liðinni viku undarlega útsölufrétt á forsíðu. Þar var sagt frá stoltum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem hafði þá að eigin sögn sparað ríkissjóði 450 milljónir króna við kaup á slóvakískum aflátsbréfum vegna skuldbindinga Íslands í tengslum við Kýótó-bókunina svokölluðu. Kerfisfólkið kallar þetta víst kolefniseiningar.

Mig rak í rogastans þegar ég sá þessa fjármálasnilld en klóraði mér svo í kollinum þegar ég sá hvernig í pottinn var búið. Samkvæmt gildandi fjárlögum hafði ríkisstjórnin áætlað að eyða 800 milljónum af skattfé ríkisins til að kaupa erlendan gjaldeyri og fyrir hann aflátsbréf (kolefniseiningar) frá ríki sem stendur sig verr í loftslagsmálum en Ísland gerir. Þetta þykir sumum hin mesta snilld. Sjálfum þykir mér þetta hljóma meira eins og hvert annað ponzi-svindl.

Á endanum voru það 350 milljónir sem þurfti til að fóðra svikamylluna og 450 milljóna „sparnaður“ samstundis bókfærður í huga ráðherrans. Maður hlýtur að spyrja sig hvers vegna ráðherrann lagði ekki til 1.800 milljóna útgjöld til þess arna í fjárlögum yfirstandandi árs, þá hefði „sparnaðurinn“ orðið 1.450 milljónir og það munar sko um það.

Auðvitað er mikilvægt að lágmarka tjón sem verður af vitlausum samningum sem gerðir eru á fyrri stigum, en á meðan ráðherrann (með félögum sínum í ríkisstjórninni) þrammar í humátt á eftir þeim sem á undan honum gegndu embættinu með nýjum íþyngjandi samningum og ákvörðunum sem fara gegn íslenskum hagsmunum, þá dugar það ekki sem afsökun.

Þegar ég skoðaði fréttatilkynninguna, sem fréttin byggðist á, varð þetta enn áhugaverðara. Fjármunina á meðal annars að nota til að einangra hús í Slóvakíu. Hvert erum við komin þegar afleiðingin af því að standa sig allra þjóða best í framleiðslu á endurnýjanlegri orku er sú að íslenskir skattborgarar þurfa að undirgangast þá refsingu að einangra hús í Slóvakíu með skattpeningum sínum!

Steininn tók svo úr þegar sagt var frá því á heimasíðu ráðuneytisins að þessi tilteknu aflátsbréf frá Slóvakíu væru „nær eini kosturinn sem felur í sér styrk til verkefna sem draga úr losun“. – Bíddu, ha? Eini kosturinn sem dregur úr losun? Hverjir voru hinir valkostirnir á hlaðborði kolefniseininga sem stóðu til boða? Stuðningur við útgáfu ljóðabóka um loftslagsmál? Hvaða rugl er þetta kerfi orðið?

Er það sjálfstætt markmið stjórnvalda að láta hlæja að okkur í útlöndum? Eitt er að risaþjóðir eins og Bandaríkin, Kína, Indland og fleiri hlæi að Evrópu, enda hvarflaði ekki að þeim að taka á sig skuldbindingar vegna 2. tímabils Kýótó-bókunarinnar, en er ástæða til að láta nágranna okkar í Evrópu, í þessu tilviki Slóvaka, hlæja sig máttlausa á meðan þeir einangra húsin sín með seðlum frá Íslandi?

Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is

Höf.: Bergþór Ólason