— Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjöldi iðnaðarmanna var að störfum á Dalvegi 30 þegar ViðskiptaMogginn kom þar við í byrjun vikunnar. Framkvæmdirnar eru langt komnar eins og meðfylgjandi myndir bera með sér. Byggingin er um 10.500 m²

Fjöldi iðnaðarmanna var að störfum á Dalvegi 30 þegar ViðskiptaMogginn kom þar við í byrjun vikunnar. Framkvæmdirnar eru langt komnar eins og meðfylgjandi myndir bera með sér.

Byggingin er um 10.500 m². Þar af eru 9.250 m² ofanjarðar. Undir húsinu er um 3.400 m² bílakjallari með um 110 stæðum.

ViðskiptaMogginn settist niður með Gunnari Val Gíslasyni, framkvæmdastjóra Íþöku fasteignafélags, og forvitnaðist um verkefnið.

Eftir að leigja 400 fermetra

– Hvað er búið að leigja stóran hluta?

„Allt nema um 400 m² á 2. hæð.“

– Hverjir eru leigutakar?

„Deloitte eru stærstir með 4. og 5. hæð, þá Reiknistofa bankanna með 3. hæð og DK hugbúnaður og Almenni lífeyrissjóðurinn eru á 2. hæð. Á jarðhæð er Glenn's Kitchen með mötuneyti hússins, húsgagnaverslunin Vest, verslanirnar Bella Donna og Sassy og hárgreiðslustofan Kompaníið.“

Kostar um sjö milljarða

– Hvað segir eftirspurnin um stöðuna á markaðnum? Þ.e.a.s. um eftirspurn eftir vel staðsettu atvinnuhúsnæði.

„Það er þó nokkur eftirspurn eftir nýju, vönduðu og vel staðsettu skrifstofuhúsnæði í dag. Fyrirtækin leggja mikla áherslu á loftgæði og hljóðvist á vinnustöðum sínum. Lóðin Dalvegi 30 er í góðum tengslum við Kópavogsdalinn sem er perla Kópavogs. Þar fer vel saman kyrrðin í náttúrunni og metnaðarfull uppbygging á íþróttastarfsemi Kópavogsbæjar.“

– Hvað kostar að byggja svona hús?

„Kostnaður við fullbúið hús ásamt frágenginni lóð og aðgangsstýrðum bílastæðakjallara er um sjö milljarðar króna án virðisaukaskatts og eru þá opinber gjöld og byggingarréttur einnig meðtalin.“

Afhending í september

– Hvenær verður húsið afhent?

„Hæðir 3-5, ásamt mötuneyti hússins og sameiginlegum rýmum, verða afhentar fullbúnar til notkunar í september en önnur rými verða kláruð í október og út árið.“

– Þið hyggist reisa tvö minni hús á reitnum. Hvenær hefst sá áfangi?

„Það er ekki gott að segja. Það fer eftir því hvernig okkur gengur að ljúka viðræðum sem við eigum nú við sterka aðila um leigu en háir vextir lánastofnana af fjármögnun byggingarverkefna hafa líka mikið að segja.

Sú tilhneiging Seðlabankans og stjórnvalda um þessar mundir að draga úr spennu í þjóðfélaginu, þ.m.t. í byggingariðnaði, hefur mikil áhrif á það hvenær við hefjumst handa við frekari framkvæmdir á lóðinni,“ segir Gunnar Valur.