Steinar Þór Ólafsson og Arnar Freyr Magnússon keyptu Rein í lok síðasta árs. Þeir sjá mörg tækifæri felast í því að þróa reksturinn áfram.
Steinar Þór Ólafsson og Arnar Freyr Magnússon keyptu Rein í lok síðasta árs. Þeir sjá mörg tækifæri felast í því að þróa reksturinn áfram.
Þann 2. janúar síðastliðinn tóku félagarnir Steinar Þór Ólafsson og Arnar Freyr Magnússon við lyklavöldunum á Viðarhöfða 1. Þar hefur fyrirtækið Rein aðsetur en það sérhæfir sig í framleiðslu á borðplötum úr spænskum steini

Þann 2. janúar síðastliðinn tóku félagarnir Steinar Þór Ólafsson og Arnar Freyr Magnússon við lyklavöldunum á Viðarhöfða 1. Þar hefur fyrirtækið Rein aðsetur en það sérhæfir sig í framleiðslu á borðplötum úr spænskum steini. Fáeinum dögum fyrr, n.t.t. á Þorláksmessu, höfðu þeir undirritað samning um kaup á fyrirtækinu sem hefur verið í rekstri í tæpan aldarfjórðung.

Steinar Þór og Arnar Freyr eru gestir nýjasta þáttar Dagmála og ræða þar forsöguna að baki kaupunum og hvað dreif þá áfram. Þá fara þeir einnig yfir það hvernig það er að taka við rótgrónu fyrirtæki og finna tækifærin sem ekki hafa verið sótt fram til þessa.

Í tvö til þrjú ár höfðu þeir félagar, sem upphaflega kynntust í Verzlunarskóla Íslands, velt fyrir sér möguleikum á því að kaupa sig inn í rekstur og byggja hann enn frekar upp. Þeir höfðu hnusað af nokkrum fyrirtækjum þegar Steinsmiðjan Rein varð á vegi þeirra og eftir viðræður, áreiðanleikakönnun og annan undirbúning létu þeir slag standa. Þeir segja reyndar að það hafi verið þeim dýrmætt að fá reyndan mann úr viðskiptalífinu með sér í verkið. Þar er á ferðinni Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri, en hann er hluthafi í fyrirtækinu, situr í stjórn þess en er þar að auki tengdur Steinari Þór fjölskylduböndum.

Samstarf við Spán

Steinar Þór segir Rein ekki aðeins byggja á góðri viðskiptasögu. Það sé einnig styrkur fyrirtækisins að vera í öflugu samstarfi við eitt stærsta fyrirtæki í heimi á sínu sviði. Það er spænski plötuframleiðandinn Cosentino. Hann segir að samstarfið opni ýmsa spennandi möguleika, m.a. þegar boðið er í stærri verkefni þar sem verktakar ákveða að velja stein í borðplötur íbúða sem þeir setja á markað. Nýta megi stærðarhagkvæmni og styrkleika samstarfsaðila erlendis til að fullframleiða plötur, saga þær og flytja að fullu tilsniðnar til uppsetningar hér á landi. Slíkir möguleikar verði jafnvel í boði fyrir einstaklinga þegar fram líða stundir.

Vega hvor annan upp

Þeir félagar segja kosti felast í því að vinna að þessu saman og að þeir sjái alls ekki eftir því að hafa látið slag standa.

„Kosturinn við að vera tveir er sá að ég er stundum lítill í mér og þá er hann rosalega stór í sér og öfugt. Ég hef verið einn í rekstri í 11 ár. Ef ég er lítill í mér þá er kannski enginn til þess að segja áfram gakk. Þannig að mér finnst kostur að vera með einhverjum öðrum sem getur sagt manni að rífa sig í gang þegar svo er,“ útskýrir Arnar Freyr.