Hagsmunagæsla Íslands

Við liðnar stjórnarmyndunarviðræður voru verkefni flutt til, jafnvel svo úr urðu ný ráðuneyti, hvort sem það var til gagns eða ekki. Sumir embættismenn eru efins; kvarta undan því að stofnanaminnið þverri, ráðuneytin séu ekki jafnöflug og jafnvel að áratugalöng stefnumótun þeirra í einstökum málaflokkum sé í uppnámi. Þá er rétt að minna kansellíið á að ráðuneytin eru ekki sjálfstæð embætti með stefnu. Þau eru skrifstofa ráðherra, annað ekki.

Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald svo ráðherrar geta farið mjög sínu fram í sínum málaflokkum, þó það sé óráðlegt í ríkisstjórnarsamstarfi að lita mikið út fyrir. Síðustu mánuði og misseri hefur þó borið æ meira á slíku bauki út í horni. Það er hvorki skynsamlegt né í samræmi við góða stjórnarhætti og lýðræðisvenju.

Hvað þá þegar ráðherrar gera að dyggð að fara að hentugleikum ráðuneytisins, en vanrækja æðstu skylduna: að gæta ýtrustu hagsmuna ríkisins og borgara landsins.

Því er skrýtið að fylgjast með nýfundnum vinnufriði í ríkisstjórninni, þar sem allir yppa öxlum yfir valdníðslu matvælaráðherra við hvalveiðibann, afgang vegna ofætlunar í fjárlögum á að nota í eitthvað annað en Alþingi leyfði, fjármálaráðherra lætur eins og sex milljarða skatthækkun komi sér ekki við eða ríkisstjórnin öll er samstiga í því að leita ekki einu sinni eftir undanþágum vegna losunar í siglingum til landsins.

Þá eru ráðherrarnir allir að misskilja hlutverk sitt. Það snýst ekki um að ríghalda í stólinn hvað sem það kostar. Hvað sem það kostar aðra. Nei, það snýst aðeins um hagsmunagæslu fyrir Ísland.