Bellevoye Blanc er auðdrekkanlegt viskí en samt með áhugaverðan persónuleika. Að vanda fór smökkunin fram með glasi frá Norlan.
Bellevoye Blanc er auðdrekkanlegt viskí en samt með áhugaverðan persónuleika. Að vanda fór smökkunin fram með glasi frá Norlan. — Ljósmynd/Ásgeir Ingvarsson
Sú var tíðin að það þótti varla mikið spunnið í viskí nema það kæmi frá Skotlandi, en í dag má finna framúrskarandi viskíframleiðendur um allan heim. Hefur ViðskiptaMogginn t.d. fjallað um dýrindis viskí frá Japan, Indlandi og Taívan, að ógleymdum…

Hið ljúfa líf

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Sú var tíðin að það þótti varla mikið spunnið í viskí nema það kæmi frá Skotlandi, en í dag má finna framúrskarandi viskíframleiðendur um allan heim. Hefur ViðskiptaMogginn t.d. fjallað um dýrindis viskí frá Japan, Indlandi og Taívan, að ógleymdum áhugaverðum tilraunum framleiðenda í Mexíkó og á Íslandi.

Frakkar vita sínu viti þegar kemur að áfengi og því ekki að furða að þar sé bruggað afbragðsgott viskí. Var það ánægjulegt framtak hjá Tíu vínum (www.tiuvin.com) að færa íslenskum neytendum viskí frá efnilegum nýliða á franska viskímarkaðinum, Bellevoye.

Ættu lesendur að fylgjast vel með Tíu vínum en um er að ræða tiltölulega nýstofnað félag þriggja ungra manna með brennandi ástríðu fyrir gæðavínum, einkum frá Frakklandi, og er gaman að grúska í netverslun þeirra.

Blanda af því besta

Bellevoye er ekki nema tíu ára gamalt merki og nálgast viskíframleiðsluna með skemmtilegum hætti. Kaupir Bellevoye einmöltunga frá öðrum frönskum framleiðendum sem fyrirtækið fléttar síðan saman og þroskar eftir eigin höfði, og státar Bellevoye í dag af sjö útgáfum sem hafa hver sitt sérkenni. Dregur Bellevoye fram tiltekin bragðeinkenni með því að láta viskíið þroskast lokaspölinn í ólíkum gerðum víntunna, s.s. undan árgangskampavíni, plómuvínstunnum og Calvado-brandítunnum.

Hér er til umfjöllunar flaskan með hvíta miðanum, sem kalla má ýmist Blanc eftir merkimiðanum eða Finition Sauternes en drykkurinn er einmitt látinn hvíla í tunnum sem áður geymdu dísætt Sauternes-vín.

Í blönduna fara þrír óreyktir einmöltungar á aldrinum þriggja til átta ára, hver frá sínu héraðinu og hver með sínar eimunaraðferðir, og eru Sauternes-tunnurnar notaðar í aðeins sex mánuði.

Sex mánuðir eru þó feikinóg því Bellevoye Blanc er líklega það sætasta viskí sem höfundur hefur smakkað og gæti bragðið jafnvel minnt á sjerrí.

Sætan skemmir samt alls ekki fyrir. Þvert á móti gerir hún vískíið mjög auðdrekkanlegt, aðgengilegt og fjölhæft – án þess samt að það verði óspennandi eða tilbrigðalaust. Er hægur vandi að drekka viskíið eitt og sér og njóta þess í botn, sötra með snarli á borð við dökkt súkkulaði og valhnetur, eða para viskíið við rétti á borð við hamborgara, pitsu og góða steik. Rakst ég m.a.s. á umfjöllun þar sem fullyrt var að Sauternes-viskíið smellpassaði við franska gæsalifur og hugsa ég að sætan kallist prýðilega á við feita og kjötmikla kæfu.

Karfa af sætum ávöxtum

Um bragðeinkennin er það að segja að ilmurinn einkennist af karamellu, vanillu, dökku súkkulaði og safaríkum ávöxtum af sætustu sort. Svipaðir tónar taka við í fyrsta sopa: eikarbragðið er milt og fíngert, sætan mjög greinileg, blönduð ávaxtatónum, kexi, súkkulaði og núggati. Hefur sopinn einkar safaríka áferð og veitir það ágætis vísbendingu um hve mikil sætan er að drykkurinn loðir við glasið innanvert og myndar „leggi“, eða „jambe“ eins og Frakkinn myndi kalla það.

Eftirbragðið er meðalstutt, hæfilega heitt og piprað, með votti af mandarínu og karamellu í lokin.

Belleveoye Blanc er karamellubrúnt á litinn og flaskan er afskaplega vel heppnuð: stílhrein og sterkbyggð í útliti og frönsk í húð og hár.

Er hér á ferðinni viskí sem er upplagt að bæta við safnið og forvitnilegur kostur fyrir þá sem vilja auðdrekkanlegt viskí án þess að fara út í laufléttu japönsku viskíin með sínum blóma-, bambus- og hrísgrjónatónum.

Eins og stendur flytja Tíu vín aðeins inn þessa einu útgáfu frá Bellevoye, en vonandi að fleiri útfærslur bætist við. Fæst flaskan bæði hjá fjórum verslunum ÁTVR og á ögn lægra verði hjá vefverslun Tíu vína.