Ís Svínafellsjökull er tignarlegur.
Ís Svínafellsjökull er tignarlegur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pósturinn gefur í dag út fjögur ný frímerki. Útgáfan er í tilefni þess að 150 ár eru liðin frá því að fyrstu íslensku frímerkin voru gefin út, hin svokölluðu skildingafrímerki. Pósturinn hætti sem kunnugt er útgáfu nýrra frímerkja árið 2020

Pósturinn gefur í dag út fjögur ný frímerki. Útgáfan er í tilefni þess að 150 ár eru liðin frá því að fyrstu íslensku frímerkin voru gefin út, hin svokölluðu skildingafrímerki. Pósturinn hætti sem kunnugt er útgáfu nýrra frímerkja árið 2020.

Tímamótanna nú er minnst með útgáfu smáarkar sem inniheldur fjögur sjálflímandi frímerki, bæði 50 og 100 g að verðgildi, fyrir bréfsendingar innan og utan Evrópu. Örkin er nú fáanleg og kostar 1.950 krónur.

Samkvæmt upplýsingum frá Póstinum var útgáfan í höndum Sigríðar Ástmundsdóttur starfsmanns Frímerkjasölunnar og Vilhjálms Sigurðssonar fyrrverandi starfsmanns hennar. Örn Smári Gíslason sá um hönnun en myndirnar á örkunum eru eftir Ragnar Th. Sigurðsson ljósmyndara.

Um er að ræða drónamyndir úr íslenskri náttúru. „Annars vegar er margbreytileiki íslenskrar náttúru í aðalhlutverki, samspil elds og íss, óviðjafnanlegar andstæður í landslagi, og hins vegar lofthjúpur jarðar, leiftrandi norðurljós,“ segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir forstjóri Póstsins í fréttatilkynningu. Forstjórinn kveðst hafa fulla trú á að frímerkin veki athygli.

„Frímerkjasafnarar eru ánægðir með að Pósturinn skuli fagna þessum tímamótum með útgáfu frímerkja,“ segir Þórhildur Ólöf. hdm@mbl.is